| Heimir Eyvindarson

Toure á förum og Skrtel jafnvel líka

Liverpool Echo segir frá því í dag að Kolo Toure fari frá Liverpool í sumar. Þá fullyrðir Paul Joyce að Martin Skrtel verði seldur. 

Ef þessar fréttir frá Echo og Paul Joyce reynast réttar, sem reynslan segir okkur að sé nánast 100% öruggt, þá er ljóst að tveir reyndustu miðverðir félagsins hverfa á braut í sumar. Það verður auðvitað eftirsjá af þeim báðum en líklega er þó staðan sú að hvorugur þeirra er nægilega góður til að leika með liði sem vill vera í toppbaráttu. 

Kolo Toure er 35 ára gamall og kom til Liverpool á frjálsri sölu 2013. Hann hefur leikið 70 leiki fyrir félagið og hefur að mestu staðið sig vel. Hann hefur verið gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna félagsins enda ótrúlega skemmtilegur karakter. Í frétt Liverpool Echo segir að Liverpool hafi boðið honum starf í þjálfaraliði félagsins en hann hafi ekki verið tilbúinn til að leggja skóna alfarið á hilluna. 

Martin Skrtel er 31 árs gamall og hefur verið hjá Liverpool síðan 2008. Hann hefur átt bæði góða og slæma daga, eins og gengur, en undanfarin misseri held ég að óhætt sé að segja að slæmu dagarnir hafi verið heldur fleiri.

Slóvakinn hefur verið aftarlega í goggunarröðinni hjá Jürgen Klopp í vetur þannig að það þarf ekki að koma á óvart ef hann leitar á önnur mið í sumar. Eftir síðasta leik Liverpool í deildinni í vetur, gegn WBA úti, var ekki annað að sjá en að Skrtel væri að segja bless við stuðningsmenn Liverpool þannig að kannski var þá þegar búið að taka ákvörðun um framhaldið. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan