| Heimir Eyvindarson

Verður að spila fyrir stjóra sem vill hann

Joachim Löw landsliðsþjálfari Þýskalands segir að það sé mikilvægt fyrir Mario Götze að ná sjálfstraustinu upp aftur og lykilatriði í því sambandi sé að spila fyrir stjóra sem hafi mætur á honum.
Mario Götze er líklega sá leikmaður sem hvað mest hefur verið orðaður við Liverpool að undanförnu, en hann fær ekki mikinn spilatíma hjá Bayern Munchen og er að hugsa sér til hreyfings. Götze lék undir stjórn Klopp hjá Borussia Dortmund og var lykilmaður hjá félaginu þrátt fyrir ungan aldur. 

Joachim Löw hefur miklar mætur á hinum 23 ára gamla Götze og í fyrradag sagði hann í viðtali við þýska blaðið Kicker að Götze ætti að íhuga alvarlega að færa sig um set í sumar, það væri að öllum líkindum best fyrir hann að komast til annars liðs. 

„Breytingar geta oft orðið til góðs, verið frelsandi jafnvel. Sjáiði bara Toni Kroos, hann var vissulega góður hjá Bayern, en hann hefur blómstrað hjá Madrid."

„Ég er þeirrar skoðunar að Mario (Götze) þurfi að ná upp sjálfstraustinu og besta leiðin til þess er að spila undir stjórn knattspyrnustjóra sem hefur trú á þér og hvetur þig áfram."

Hvort Götze endar hjá Liverpool er því miður ekki enn komið á hreint en heimildir á borð við Paul Joyce og fleiri vel tengda fjölmiðlamenn segja að Liverpool muni gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að ná Götze. Klopp og Götze þekkjast vitanlega vel og hafa miklar mætur hvor á öðrum og Götze mun vera efstur á óskalistanum hjá Klopp. Það er klárt mál og vonandi fáum við jákvæðar fréttir af Götze innan tíðar.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan