| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Rafael Benítez fyrrum framkvæmdastjóri Liverpool mætir með lærisveina sína í Newcastle til Liverpoolborgar á morgun.

Rafa Benítez var stjóri Liverpool frá 2004-2010 og gerði liðið að Evrópumeisturum, sællar minningar. Hann er mikill séntilmaður og hefur enn þann dag í dag ágæt tengsl við félagið, stuðningsmennina og borgina. Til að mynda er það okkur öllum enn í fersku minni að hann gaf 96 þúsund pund í Hillsborough sjóðinn skömmu eftir að hann var látinn taka pokann sinn hjá félaginu.

Það voru vitanlega skiptar skoðanir um Rafa þegar hann var hjá félaginu, eins og gildir um svo að segja alla stjóra. En það verður ekki af honum tekið að hann stýrði liðinu til sigurs í Meistaradeild Evrópu á sinni fyrstu leiktíð og aftur alla leið í úrslitaleikinn tveimur árum síðar. Hann náði þó aldrei að vinna ensku deildina, sem alltaf er takmark númer eitt hjá stuðningsmönnum félagsins - og fékk meira að segja gagnrýni fyrir að leggja of mikla áherslu á Evrópukeppni, á kostnað deildarinnar.

Tímabilið 2008-2009 endaði liðið í 2. sæti í deildinni með 86 stig, fjórum stigum minna en Manchester United. Það var það næsta sem liðið komst því að vinna deildina á árunum með Benítez. Tímabilið á eftir endaði liðið í 7. sæti í deildinni og þann 3. júní 2010 var tilkynnt um brotthvarf Spánverjans frá félaginu.

Það má segja margt um Rafa, en eitt af því síðasta sem manni kemur í hug þegar minnst er á hann er skemmtanagildi. Hann er gríðarlega kröfuharður þjálfari og heldur fjarlægð við leikmennina. Hann fékk til dæmis töluverða gagnrýni fyrir það hversu líflaus hann var iðulega á hliðarlínunni, en honum stökk sjaldan bros þótt vel gengi inni á vellinum. Sat rólegur og skrifaði hjá sér punkta í minnisbókina. Að því leyti er hann líklega eins ólíkur Jürgen Klopp og hugsast getur.

Ég er svosem ekki í hópi hörðustu aðdáenda Benítez, en ég ber gríðarlega virðingu fyrir kallinum og ég held að ég eigi það sameiginlegt með svo til öllum stuðningsmönnum Liverpool að mér þykir vænt um kallinn og ég vona alltaf að honum gangi sem allra best. Ég vil bara ekki fá hann aftur til Liverpool.

Það hefur gengið heldur brösuglega hjá Benítez eftir að hann hætti hjá Liverpool. Hann tók líklega við einu erfiðasta starfinu í bransanum þegar hann skrifaði undir samning við þáverandi Evrópumeistara Inter Milan, viku eftir að hann hætti hjá Liverpool. Jose Mourinho, einn af örfáum stjórum í bransanum sem Benítez hefur reglulega átt í útistöðum við, hafði leitt Inter til sigurs í svo að segja öllum keppnum veturinn áður og kórónað tímabilið með sigri í Meistaradeildinni þannig að það var ekki fyrir hvern sem er að taka við starfinu. Benítez tók það að sér og til að gera langa sögu stutta þá gekk hvorki né rak hjá okkar manni og hann var látinn fara rétt fyrir jól eftir einungis hálft ár í starfi.

Eftir Inter tók Benítez sér hlé frá fótboltanum en í nóvember 2012 tók hann við Chelsea liðinu út þá leiktíð og skilaði liðinu sigri í Evrópudeildinni og 3. sæti í deildinni. Eftir Chelsea lá leið Benítez til Napoli á Ítalíu þar sem hann var við stjórnvölinn í tvær leiktíðir. Á fyrri leiktíðinni stýrði hann liðinu til sigurs í ítölsku bikarkeppninni en á þeirri seinni gekk ekki sem skyldi. Í júní s.l. tók hann síðan við liði Real Madrid, sem trúlega er ótryggasta starfið í boltanum. Eins og svo margir aðrir staldraði hann stutt við þar á bæ, eða rétt um hálft ár. Þann 11. mars var hann síðan kominn til Newcastle, flestum ef ekki öllum að óvörum.

Benítez byrjaði illa hjá Newcastle og liðið uppskar aðeins 1 stig í fyrstu fjórum leikjunum undir hans stjórn. Síðan tók við sigur á Swansea og jafntefli við Manchester City, sem verður að teljast ásættanlegt. Norðanmenn eru enn í bullandi fallbaráttu, sitja í næstneðsta sæti með 29 stig - tveimur stigum frá Norwich sem situr í fjórða neðsta sæti. Eini raunhæfi möguleiki Newcastle til að bjarga sér frá falli er að komast í það sæti því heil 10 stig eru í fimmta neðsta sætið 

Rafael Benítez og Jürgen Klopp hafa þrisvar mæst sem stjórar. Fyrsta viðureign þeirra var sumarið 2006 þegar Liverpool heimsótti Mainz á undirbúningstímabilinu. Sá leikur fór 5-0 fyrir Mainz og var það stærsta tap Liverpool undir stjórn Benítez fram að því. Spánverjinn lét hafa eftir sér eftir leikinn að það eina jákvæða við leikinn væri að hann gilti ekki neitt.

Haustið 2013 mættust þeir félagar síðan í tveimur alvöru leikjum, þegar Borussia Dortmund og Napoli leiddu saman hesta sína í Meistaradeildinni. Napoli vann fyrri leikinn á heimavelli 2-1 í hörkuleik, þar sem dómarinn þurfti að senda Klopp upp í stúku fyrir hávær mótmæli. Dortmund vann síðan seinni leikinn 3-1. Allar viðureignir þeirra félaga hafa þessvegna endað með heimasigri, sem lofar góðu fyrir morgundaginn.

Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í dag að hann kynni mjög vel við Rafa og hann ætti frekar von á því að hann fengi góðar móttökur á Anfield á morgun. Enda mikilvægur partur af sögu félagsins.   
En þá að okkar mönnum. Fyrir utan fastamennina á sjúkralistanum eru þeir Jordan Henderson, Emre Can og Divock Origi allir meiddir og verða trúlega ekki meira með á leiktíðinni. Eins og við sögðum frá hér á síðunni í dag er orðið ljóst að meiðslin sem Origi hlaut í leiknum gegn Everton halda honum utan vallar eitthvað fram á sumarið, sem eru auðvitað skelfileg tíðindi. Christian Benteke er að verða leikfær en verður að öllum líkindum ekki í hóp á morgun.

Klopp hefur verið afar duglegur að rótera liðinu að undanförnu, svo mikið að „Rotation Rafa" bliknar í samanburðinum, enda hefur leikjaálagið verið ansi mikið. Fyrri leikurinn gegn Villareal er á fimmtudaginn þannig að menn ættu að hafa nægan tíma til að jafna sig fyrir þann leik, en hinsvegar hefur stórleikurinn gegn Everton á miðvikudaginn örugglega tekið sinn toll hjá öllum nema kannski James hinum óþreytandi Milner.

Ég á ekkert endilega von á því að Klopp geri stórar breytingar á liðinu frá leiknum við Everton. Christian Benteke er sem fyrr segir ekki orðinn leikfær þannig að það er fátt um fína drætti í framlínunni. Sturridge byrjar væntanlega leikinn en það er hæpið að hann klári hann. Ég gæti alveg trúað því að Firmino byrji inn á og jafnvel Ojo og Ibe líka. Eins finnst mér borðleggjandi að Joe Allen hefji leik.

Annað hef ég ekki um væntanlegt liðsval að segja, ég vona bara að menn leggi sig alla fram og landi sigri á morgun. Það er bæði gott fyrir sjálfstraustið og heldur auk þess lífi í þeirri veiku von að við getum stolið fjórða sætinu í vor.

Ég ætla að spá því að Rafa Benítez leggi upp með drepleiðinlegt plan á morgun og reyni að spila upp á eitt stig. Það mun ekki takast og leikurinn leysist upp í vitleysu, sem endar vel fyrir Liverpool. Þetta Newcastle lið er auðvitað alveg óútreiknanlegt, en miðað við frammistöðuna í vetur ætti að vera skýlaus krafa á okkar menn að ná öllum stigunum á morgun. Ég spái 3-2 og reikna með að mörkin komi frá Milner, Sturridge og Flanagan.

YNWA!                                                                                                                                                                        




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan