| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Leikið er í 4. umferð enska bikarsins um helgina og eiga okkar menn erfiðan leik fyrir höndum gegn West Ham United. Lundúnaliðið hefur verið gríðarsterkt á útivelli það sem af er þessu tímabili. Leikurinn hefst kl. 17:30 í dag, laugardaginn 30. janúar.

Sem fyrr eru meiðslavandræði í hópi Liverpool og sagði Jurgen Klopp á blaðamannafundi á föstudag að hann myndi gefa ungum leikmönnum tækifæri í þessum leik. Reyndar bætti hann því svo við að flestir knattspyrnumenn væru ungir að árum þannig að erfitt er að ráða í nákvæmlega hverjir það eru sem fá að spila þennan leik. Það er þó ljóst að fyrirliðinn Jordan Henderson verður ekki með og Nathaniel Clyne er enn að glíma við eymsli í hné eftir Norwich leikinn og er því ekki ólíklegt að Jon Flanagan byrji sinn annan leik í röð. Klopp nefndi að Dejan Lovren myndi líklega byrja leikinn eftir að vera orðinn klár í slaginn á ný og Steven Caulker er tiltækur í þessari keppni núna og því má leiða líkum að því að þeir tveir verði miðverðir í leiknum.

Sem fyrr eru svo þeir Martin Skrtel, Daniel Sturridge, Philippe Coutinho, Joe Gomez, Danny Ings og Divock Origi allir á sjúkralistanum en það styttist þó í endurkomu Coutinho sem er vel. Hjá gestunum eru þeir Carl Jenkinson, Manuel Lanzini (sem skoraði m.a. á Anfield fyrr í vetur), Diafra Sakho og Andy Carroll meiddir en það er ágætt að þurfa ekki að glíma við fyrrum leikmann félagsins Carroll að þessu sinni en eins og menn muna skoraði hann gegn Liverpool þegar liðin mættust þann 2. janúar síðastliðinn.

Við skulum ekki dvelja við fyrri leiki þessara liða á tímabilinu enda er þessi leikur ekki í deildinni. Síðast þegar liðin mættust í FA bikarnum var það úrslitaleikur keppninnar árið 2006 og allir muna nú held ég hvernig sá leikur endaði. Leikurinn fékk viðurnefnið Steven Gerrard úrslitaleikurinn vegna framgöngu fyrirliðans í þeim leik en hann skoraði tvö mörk í 3-3 jafntefli eftir 90 mínútur og seinna mark hans í leiknum var sérlega glæsilegt og ótrúlega mikilvægt. Jöfnunarmark 3-3 á 90. mínútu með langskoti utan af velli, hreint út sagt ótrúlegt jöfnunarmark. West Ham hafði komist í 2-0 í fyrri hálfleik en stoðsending Steven Gerrard á Djibril Cisse minnkaði muninn. Þannig var staðan í hálfleik og Gerrard jafnaði svo í þeim seinni. Paul Konchesky af öllum mönnum skoraði magnað mark utan af vinstri kanti og allt virtist stefna í að litla liðið í úrslitunum þann daginn myndi vinna leikinn. En Gerrard var á öðru máli og Pepe Reina kom svo til bjargar í vítaspyrnukeppninni þegar hann varði 3 spyrnur West Ham manna og allt trylltist af fögnuði á vellinum.

Það væri óskandi að leikurinn nú verði eins spennandi og þessi úrslitaleikur sem fór fram fyrir næstum því 10 árum síðan. En það væri þó afskaplega vont að gera jafntefli og þurfa að mæta West Ham aftur, þá á þeirra eigin heimavelli sem hefur ekki reynst happadrjúgur fyrir okkar menn undanfarið. Auk þess er enn einn knattspyrnuleikurinn í þéttri dagskrá Liverpool manna í viðbót ekki það sem þarf ákkúrat núna. Við vonumst því til þess að Jurgen Klopp og hans menn klári leikinn á þeim 90 mínútum sem spilaðar verða í leiknum. En eins og áður sagði verða West Ham menn erfiðir viðureignar og búast má við hörkuleik.

Eigum við ekki að segja að Liverpool herji fram sigur í dag 2-1 og tryggi sig áfram í næstu umferð. Það er alltaf gaman að komast lengra í þessari keppni.




Fróðleikur:


- Liðin hafa mæst alls 6 sinnum áður í þessari keppni.

- Fyrsta viðureign liðanna í FA Bikarnum var 5. janúar árið 1901 þar sem Liverpool sigraði 1-0.

- Í raun hefur Liverpool aldrei tapað fyrir West Ham í þessari keppni, einu sinni hafa liðin gert jafntefli en í endurteknum leik sigruðu Liverpool 5-1. Þetta var árið 1914.

- Sem fyrr er Christian Benteke markahæstur leikmanna liðsins á tímabilinu með 7 mörk í öllum keppnum.

- Næstur honum koma Brasilíumennirnir Roberto Firmino og Philippe Coutinho með 5 mörk í öllum keppnum.

- West Ham sigruðu Úlfana 1-0 á heimavelli í þriðju umferð með marki frá Nikica Jelavic.

- Okkar menn þurftu tvo leiki til að sigra Exeter City í þriðu umferð.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan