| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool vs Stoke City

Aðra leiktíðina í röð á Liverpool kost á því að komast alla leið í úrslitaleik um Deildarbikarinn á Wembley. Það tókst ekki fyrir ári en nú má það ekki bregðast! Brendan Rodgers var í raun óheppinn að koma Liverpool ekki í úrslitaleikinn í fyrra því Liverpool var betra í leikjunum tveimur á móti Chelsea sem vann svo úrslitaleikinn á móti Tottenham. Líklega hefði Liverpool átt mjög góða möguleika á móti Tottenham og jafnvel unnið úrslitaleikinn og þá er ómögulegt að segja hvernig mál hefðu þróast hjá Brendan. En allir vita hvernig fór. 


Nú er Jürgen Klopp kominn í sögu spor og Brendan var í fyrir ár hvað það varðar að komast í úrslitaleikinn um Deildarbikarinn. Liverpool er með býsna gott nesti eftir sigurmark Jordan Ibe í Stoke. Það er þó ekkert fast í hendi og víst er að leikmenn Stoke eru ekki búnir að gefa farmiða á Wembley upp á bátinn. Mark Hughes og ráðgjafar hans hafa örugglega mikinn hug á að herja á veikleika varnar Liverpool. Leikmennn Liverpool verða því að koma ákveðnir til leiks og klára verkefnið með hjálp áhorfenda. Annað er hreinlega ekki í boði!


Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi í dag að hann hlakkaði mikið til að stjórna Liverpool í undanúrslitaleik á Anfield. Hann sagði að hann hefði heyrt mikið látið af stemmningunni sem þar myndaðist í slíkum leikjum. Vonandi passa stuðningsmenn Liverpool upp á að Þjóðverjinn verði ekki fyrir vonbrigðum í þeim efnum því hann er góðu vanur frá hinum mögnuðu fylgismönnum Borussia Dortmund. 


Sem fyrr vantar menn í liðshópinn og Jürgen verður að treysta á þá menn sem eru leikfærir. Kolo Toure hefur ekki verið verri en hver annar í vörninni og átti stórleik í fyrri leiknum í Stoke. Nathaniel Clyne gæti misst af leiknum vegna meiðsla og mögulegt er að Jon Flanagan taki sæti hans þó svo að hann hafi verið lengi frá. Connor Randall er líka valkostur eftir að hafa leikið nokkra leiki í stöðunni.

Simon Mignolet hefur verið hart gagnrýndur en ætti að halda stöðu sinni. Ekki er ólíklegt að Adam Lallana komi inn í byrjunarliðið eftir magnaða innkomu á móti Norwich og sigurmarkið hans hlýtur að hafa gefið honum mikið sjálfstraust. Það býr mikið í honum og vonandi kemst hann nú í gang. Það má lengi velta vöngum yfir byrjunarliðinu en sem fyrr skiptir öllu að þeir sem valdir eru standi í fæturnar!


Leikurinn er gríðarlega mikilvægur og félagið Liverpool Football Club þarf sárlega á því að halda að komast í úrslitaleik og vinna titil. Það er alltof langt síðan titill hefur komið í hús á Anfield og næsta skref í næsta titli er að ryðja Stoke úr vegi annað kvöld. Adam Lallana og Jordan Henderson tryggja 2:0 sigur og ferseðil á Wembley!

YNWA






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan