| Sf. Gutt

Spáð í spilin



Liverpool v. Arsenal

Það er skammt stórra högga á milli þessar vikurnar og næstu tveir deildarelikir geta ekki annað en kallast stórleikir. Í kvöld mætir Liverpoool efsta liði deildarinnar. 


Arsenal hefur sýnt mesta stöðugleika allra liða á leiktíðinni. Það segir sér sjálft því liðið leiðir deildina. Liðið er mjög sterkt og margir telja að liðið sé efni í Englandsmeistara. Sú skoðun fékk byr undir báða vængi í sumar þegar Petr Cech rak á fjörur félagsins. Tékkneski markmaðurinn er ennþá meðal þeirra bestu í Evrópu og gæti skipt sköpum þegar upp verður staðið í vor. Það má hugsa sér hversu miklu sterkara lið Liverpool væri með markmann í þessum gæðaflokki. Allra bestu markmennirnir eiga alltaf einhver stig í lok leiktíðar og Petr vann eitt í London í ágúst þegar Liverpool kom í heimsókn. Hann bjargaði þá Arsenal frá tapi í besta leiknum undir stjórn Brendan Rodgers á síðustu leiktíð hans. 


Jürgen Klopp bætti í leikmannahóp sinn í gær þegar Steve Caulker var fenginn að láni. Það reynir mikið á liðshóp Liverpool þessa dagana og margir lykilmenn fjarri. Það á eftir að koma í ljós hvort eitthvað hefur fækkað á meiðslalistanum og vonir standa til þess að Mamadou Sakho og Jordan Henderson geti verið með. Steve gæti þurft að spila því miðverðir Liverpoo hafa hrunið niður frá því fyrir jól.


Einhverjir voru til að gagnrýna Jürgen Klopp fyrir að tefla fram mörgum ungum leikmönnum á móti Exeter. Liverpool slapp vel frá þeim leik þegar upp var staðið en í raun var ekki um annað að gera. Margir voru meiddir og það var ekki hægt að taka áhættu á að fleiri lykilmenn myndu meiðast fyrir þessa stórleiki sem framundan eru. Arsenal, Manchester United og svo verður spilað upp á sæti í úrslitaleiknum um Deildarbikarinn seinna í mánuðinum við Stoke. Reyndar var svo á móti Exeter að reyndustu mennirnir voru slakastir!

Ég spái því að Liverpool eigi gott kvöld á móti Arsenal. Þó svo að Arsenal hafi sýnt mestan stöðugleika þá eru veikleikar í liðinu. Liverpool nær að nýta sér þá og herjar fram 1:0 sigur. Christian Benteke skorar markið en það er reyndar alls ekki víst að hann byrji leikinn og hann á það varla skilið eftir slaka framgöngu á móti Exeter. 

YNWA

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan