| Heimir Eyvindarson

Ekki misnotað víti síðan 2009

James Milner hefur skorað af öryggi af vítapunktinum í síðustu tveimur leikjum. Það voru tvö fyrstu vítin sem Liverpool fær á þessu ári, en félagið hefur fengið flest víti allra liða í Úrvalsdeild. 

Það má finna ýmsan fróðleik um vítaspyrnur í breskum sparkmiðlum í dag. Til að mynda er James Milner 16. leikmaðurinn í sögu Úrvalsdeildar til að skora af vítapunktinum fyrir 3 lið eða fleiri.

Það eru reyndar bara Yakubu, Teddy Sheringham og Darren Bent sem hafa skorað fyrir 4 lið. Milner hefur skorað af punktinum fyrir Aston Villa, Manchester City og Liverpool.

Milner hefur merkilegt nokk aðeins tekið 6 vítaspyrnur í Úrvalsdeild og skorað úr 5, þar á meðal gegn Liverpool, en það gerði hann í búningi Manchester City 2012.

Ef litið er á allar keppnir þá hefur Milner tekið 11 víti og skorað úr 8. Þau þrjú sem hann hefur klikkað á tók hann öll á árinu 2009. Tvö fyrir Aston Villa og eitt fyrir U-21 landslið Englendinga. Það er því orðið ansi langt síðan kappinn misnotaði síðast víti.

Liverpool er það félag sem hefur fengið flest víti frá stofnun Úrvalsdeildar, eða 135 talsins. Nýtingin er ekki til sérstakrar fyrirmyndar, eins og við vissum svosem, en aðeins 103 af 135 hafa farið rétta leið sem gerir 76% nýtingu af punktinum.

Þess má geta að Steven Gerrard hefur tekið 57 af þessum 135 vítum og skorað 47 sinnum, sem gerir 82% nýtingu.

       
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan