| Heimir Eyvindarson

Liverpool komið í 32 liða úrslitin

Liverpool lagði Bordeaux að velli á Anfield í kvöld í næst síðasta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Lokatölur urðu 2-1 í fremur bragðdaufum leik.

Jurgen Klopp gerði fjórar breytingar á liðinu frá sigurleiknum gegn Manchester City um helgina. Kolo Toure, Joe Allen, Jordon Ibe og Christian Benteke komu inn í liðið í stað Martin Skrtel, Emre Can, Adam Lallana og Coutinho. Stóru fréttir dagsins voru svo auðvitað að Daniel Sturridge er enn einu sinni meiddur og því ekki með. Ótrúlegt hvað óheppnin getur elt þennan frábæra leikmann okkar.

Fyrri hálfleikur byrjaði svosem ekki af miklum krafti. Liverpool var meira með boltann en það var alls ekki sami glansinn yfir leik liðsins og í leiknum gegn City. Leikmenn virkuðu frekar þungir og gerðu allt of mikið af mistökum. Firmino var ekki svipur hjá sjón og sendi boltann nær undantekningarlaust á mótherja þegar hann fékk hann. Allen, Lucas og Moreno áttu líka slatta af feilsendingum og lítið flæði var í sóknarleik liðsins. Mesta lífsmarkið var með Moreno og Ibe á köntunum. 

Á 31. mínútu dæmdi ísraelski dómarinn óbeina aukaspyrnu á Simon Mignolet fyrir að halda of lengi á boltanum. Reglan er sú að markmenn þurfa að losa sig við boltann eftir sex sekúndur. Yfirleitt komast þeir þó upp með að halda boltanum dálítið lengur, en ég man varla eftir að hafa nokkurn tíma séð markmann jafn vandræðalega lengi að koma boltanum frá sér og skil dómarann vel að hafa misst þolinmæðina gagnvart Belganum. 

Upp úr aukaspyrnunni skoraði Bordeaux auðvitað og niðurlæging Mignolet algjör. Henri Saviet þrumaði boltanum upp í markmannshornið og staðan 0-1 fyrir Bordeaux. Fyrsta mark Bordeaux á enskri grundu frá upphafi vega. 

Markið kveikti í leikmönnum Liverpool og það lifnaði heilmikið yfir sóknarleik liðsins. 

Á 38. mínútu jafnaði James Milner metin úr vítaspyrnu sem Ísraelinn dæmdi fyrir hrindingu innan teigs á Benteke. Í rauninni var brotið kannski ekki mjög mikið, en samt sem áður einstaklega klaufalegt þar sem boltinn var allan tímann á leið í hendurnar á Carrasso í marki Bordeaux. Staðan 1-1 og aðeins að lifna yfir okkar mönnum.

Á loka andartökum fyrri hálfleiks skoraði Christian Benteke síðan sjálfur. Nathaniel Clyne sendi boltann fyrir frá hægri og Belginn tók boltann laglega niður og þrumaði honum í netið af vítateigslínunni. Óverjandi fyrir Carrasso og staðan 2-1 þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.

Á fimmtu mínútu síðari hálfleiks átti Liverpool snarpa sókn sem endaði með góðri sendingu Firmino á Benteke, en Belginn þrumaði boltanum lengst upp í Kop stúkuna úr upplögðu færi. 

Þremur mínútum síðar skoraði Benteke mark eftir góða skyndisókn, en dómarinn dæmdi bakhrindingu á Belgann þannig að markið fékk ekki að standa.

Rétt seinna fékk Ibe gott færi, en þrumaði boltanum beint í Carrasso af stuttu færi. Illa farið með ágætan sjéns.

Á 73. mínútu átti Liverpool ágæta skyndisókn sem endaði með slöppu skoti frá James Milner af markteigshorninu.

Það sem eftir lifði leiksins voru gestirnir frá Frakklandi mun meira með boltann en það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem þeir fóru að skapa sér alvöru færi. Fyrst gaf Lovren aukaspyrnu rétt utan vítateigs og úr henni kom gott skot framhjá veggnum sem Mignolet varði vel. Tveimur mínútum síðar fékk Contente boltann inn í teig en skaut yfir markið, til allrar hamingju.

Lokatölur leiksins 2-1 fyrir Liverpool og liðið því komið áfram í 32 liða úrslitin. Alls ekki besti leikur liðsins undir stjórn Klopp, en mikilvægur sigur engu að síður og kannski til marks um aukið sjálfstraust liðsins að hafa náð að klára leikinn með sigri. Þetta þarf ekki alltaf að vera fallegt. 

Liverpool: Mignolet, Clyne, Toure, Lovren, Moreno, Lucas, Allen (Can á 67. mín.), Ibe (Origi á 90. mín.), Milner, Firmino (Lallana á 73. mín.) og Benteke. Ónotaðir varamenn: Bogdan, Brannagan, Randall og Skrtel.

Mörk Liverpool: Milner á 38. mínútu, Benteke á 46. mínútu.

Gul spjöld:
Ibe, Lucas og Benteke.

Bordeaux: Carrasso, Poko, Conento, Sané, Yambere, Jussie (Maurice-Belay á 77. mín.), Chantome, Plasil (Ounas á 84. mín.), Crivelli (Diabate á 67. mín.), Saivet, Rolan. Ónotaðir varamenn: Poundje, Prior, Guilbert, Traore.

Mark Bordeaux: Saviet á 33. mínútu. 

Gult spjald: Contento

Áhorfendur á Anfield Road: 42.525.- 

Maður leiksins: Það er frekar erfitt að velja mann leiksins í kvöld, enda frammistaða liðsins langt frá því að hafa verið til fyrirmyndar þótt sigur hafi unnist. Kolo Toure var ágætur og er alltaf í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum og Lucas Leiva vann vel að vanda og stóð sig vel í að verja vörnina. Ég vel hinsvegar Christian Benteke mann leiksins. Hann krækti í vítaspyrnuna og skoraði sigurmarkið. Í sjálfu sér ekki hægt að biðja um meira frá framherja.  

Jurgen Klopp: ,,Þetta var opinn leikur og erfiður og við gerðum mikið af mistökum. Stemningin á vellinum var mjög góð og við gátum sem betur fer gefið áhorfendum dálítið til baka. Það var mjög mikilvægt að sigra og tryggja okkur áfram í keppninni. Ég er ánægður með það."   

Fróðleikur:

-Markið sem Saviet skoraði í kvöld var fyrsta mark Bordeaux á enskri grund frá upphafi vega, en leikur kvöldsins var 6. leikur liðsins á Englandi í sögunni. 

-Liverpool hefur ekki enn unnið deildarleik, eftir Evrópudeildarleik. Vonandi breytist það á sunnudaginn þegar Swansea kemur í heimsókn á Anfield. 

-Jafntefli í lokaleik riðlakeppninnar, gegn Sion á útivelli 10. desember, nægir Liverpool til að sigra B-riðil. 

-Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com


 

 

 
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan