| Heimir Eyvindarson

Lucas missir af Swansea leiknum

Lucas Leiva fékk sitt fimmta gula spjald á leiktíðinni á Etihad í gær. Hann mun af þeim sökum taka út leikbann þegar Swansea kemur í heimsókn á Anfiled um næstu helgi.

Reglurnar eru þannig að gulu spjöldin detta út um áramót, þannig að ef Lucas hefði ekki fengið spjald fram að áramótum hefðu hin fjögur dottið út. Það er hinsvegar mikil bjartsyni að ætla Brassanum okkar að spila marga leiki í röð án þess að fá spjald og þessvegna er alveg eins gott að hann taki leikbannið út núna.

Eftir að hafa verið hársbreidd frá því að yfirgefa félagið í sumar hefur Lucas Leiva blómstrað á miðjunni í undanförnum leikjum. Hann stóð vaktina á Etihad í gær að vanda mjög vel, ekki síst þar sem hann spilaði megnið af leiknum með gult spjald á bakinu, en hann fékk gult fyrir að toga í peysu Agüero á 38. mínútu.

Nathaniel Clyne og Emre Can fengu báðir sitt fjórða spjald á leiktíðinni í gær og gætu því átt á hættu að lenda í leikbanni áður en árið er úti. Það er sérstaklega bagalegt í tilviki Clyne, því úrvalið af hægri bakvörðum í herbúðum Liverpool er eiginlega ekkert ef Clyne er undanskilinn.

Reglan um gulu spjöldin hefur ekki áhrif á Evrópudeildina þannig að það má fastlega gera ráð fyrir því að Lucas verði í byrjunarliðinu gegn Bordeaux á fimmtudaginn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan