| Grétar Magnússon

Landsleikjafréttir

Sjö leikmenn Liverpool hafa komið við sögu það sem af er þessu landsleikjahléi.

Simon Mignolet var í marki Belga sem öttu kappi við Ítali á heimavelli á föstudagskvöldið í vináttuleik. Mignolet mátti gera sér að góðu að hirða boltann úr eigin neti eftir aðeins þrjár mínútur er Antonio Candreva skoraði. Belgar bitu hinsvegar frá sér og unnu að lokum 3-1 með mörkum frá Jan Vertonghen, Kevin de Bruyne og Michy Batshuayi. Mignolet þótti standa sig mjög vel í leiknum. Christian Benteke sat á bekknum allan leikinn.

Joe Allen og félagar í velska landsliðinu mættu Hollendingum á heimavelli. Allen fékk tækifæri til að jafna metin úr vítaspyrnu en Jasper Cillessen varði skotið, Joe Ledley fylgdi hinsvegar vel á eftir, náði frákastinu og skoraði. Veilsverjar náðu ekki að nýta sér þetta og Hollendingar skoruðu næstu tvö mörk, var Arjen Robben þar að verki. Emyr Huws skoraði svo annað mark heimamanna en lengra komust þeir ekki og lokatölur 2-3. Markvörðurinn Danny Ward sat á bekknum hjá heimamönnum.

Adam Lallana byrjaði leikinn fyrir England gegn Spánverjum á Spáni. Hann átti ekki góðan leik og var skipt útaf á 62. mínútu. Englendingar töpuðu 2-0 og Nathaniel Clyne sat á bekknum allan leikinn.

Martin Skrtel leiddi sína menn í Slóvakíu til leiks við Svisslendinga á heimavelli. Leikurinn endaði 3-2 fyrir Slóvaka en þeir komust í 3-0 í leiknum. Svisslendingar minnkuðu muninn í seinni hálfleik en komust ekki nær því að jafna.

Adam Bogdan var ónotaður varamaður á fimmtudagskvöldið er Ungverjar náðu góðum sigri á Norðmönnum í umspili um laust sæti á EM næsta sumar.

Emre Can og félagar í þýska landsliðinu öttu kappi við Frakka á föstudagskvöldið. Atburðir kvöldsins í París skyggðu að sjálfsögðu á úrslit leiksins sem skiptu engu máli í stóra samhenginu. Frakkar unnu 2-0 og þar sem útgöngubann var sett á í Frakklandi seinna um kvöldið þurfti þýska landsliðið að gista á Stade de France um nóttina.

Divock Origi var á ferðinni með belgíska U-21 árs landsliðinu í undankeppni Evrópumóts U-21 ár liða. Belgar töpuðu 1-0 á útivelli gegn Tékkum en Origi þótti standa sig vel í leiknum.

Að lokum má svo nefna Harry Wilson en U-21 árs landslið Wales mætti Armeníu á heimavelli seinnipart föstudagsins. Heimamenn unnu 2-1 og skoraði Wilson sigurmarkið seint í uppbótartíma seinni hálfleiks.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan