| Sf. Gutt

Hver tekur við?


Það vantar framkvæmdastjóra til að stýra Liverpool það sem eftir er af þessu keppnistímabili. En hver tekur við starfi Brendan Rodgers? Böndin berast að Þjóðverjanum Jurgen Klopp sem náði frábærum árangri með Borussia Dortmund. Hann stýrði liðinu frá 2008 þangað til núna í vor en þá tók hann sér frí frá knattspyrnustússi. Jurgen gerði Dortmund tvívegis að þýskum meisturum og liðið vann þýsku bikarkeppnina einu sinni. 


Jurgen hugðist ekki taka að sér framkvæmdastjórastarf fyrr en í fyrsta lagi næsta vor en hann er talinn geta hugsað sér að koma til starfa fyrr en áhugavert starf verður í boði. Framkvæmdastjórastaðan á Anfield gæti flokkast sem nógu spennandi til að hann stökkvi til og taki þeirri áskorun sem þar bíður. Sumir telja einfaldlega að aðrir komi ekki til álita í starfið en eigendur Liverpool sögðu í tilkynningu gærdagsins að leit að nýjum framkvæmdastjóra fari strax í gang.  


Ítalinn Carlo Ancelotti hefur líka verið orðaður sem mögulegur arftaki Brendan. Hann er eins og Jurgen í fríi eftir að hann var rekinn frá Real Madrid í vor. Hann er mjög sigursæll og hefur unnið titla með AC Milan, Chelsea, Paris SG og Real Madrid. Hollendingurinn Frank de Boer er talinn fjarlægari möguleiki en kannski er ekki alveg útilokað að hann komi til álita. Frank stjórnar Ajax og gerði liðið að hollenskum meisturum fjögur ár í röð.

Aðrir en þessir þrír virðast ekki vera inni í myndinni en það er svo sem ekkert vitað hvað eigendur Liverpool hyggjast fyrir.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan