| Grétar Magnússon

Jafntefli í Frakklandi

Fyrsti leikur í B-riðli Evrópudeildarinnar hjá okkar mönnum fór fram í dag. 1-1 jafntefli var niðurstaðan gegn Bordeaux og var það Adam Lallana sem skoraði markið.

Eins og við sögðum frá í upphitun fyrr í dag gerði Rodgers þónokkrar breytingar á byrjunarliðinu. Inn komu þeir Kolo Toure, Mamadou Sakho sem var fyrirliði í kvöld, Alberto Moreno, Jordon Ibe, Jordan Rossiter, Adam Lallana, Philippe Coutinho og Divock Origi en enginn þessara leikmanna byrjaði í síðasta leik.

Það má segja að leikurinn hafi verið ívið fjörugri en flestir bjuggust við. Coutinho var fyrstur á blað hvað færin varðar en á 4. mínútu skaut hann rétt framhjá markinu. Skömmu síðar reyndi Emre Can hjólhestaspyrnu í vítateig Bordeaux en skot hans var frekar laust og markvörður heimamanna átti ekki mjög erfitt með að handsama knöttinn. Örskömmu síðar voru leikmenn Bordeaux búnir að skapa hættu uppvið mark Liverpoolmanna þegar Diego Rolan sendi boltann yfir markið frá markteig en Mignolet gerði vel í að koma út á móti og loka á hann.

Frakkarnir voru líflegri eftir þetta en engin hættuleg færi sköpuðust. Kolo Toure fór af velli meiddur um miðjan hálfleikinn og inná í hans stað kom Pedro Chirivella, hann fór á miðjuna sem þýddi að Emre Can dró sig niður í vörnina. Það var svo undir lok hálfleiksins að aftur dró til tíðinda. Wahbi Kazri komst svotil einn í gegnum vörnina en skot hans var beint á Mignolet. Gestirnir höfðu ekki sagt sitt síðasta í hálfleiknum en Coutinho þrumaði í stöngina af 20 metra færi. Staðan var því 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur hófst á rólegu nótunum en á 58. mínútu sendi Coutinho boltann á Lallana sem var í góðri stöðu en skot hans var beint á Carrasso í markinu. Hættulegasta færi leiksins til þessa kom svo nokkrum mínútum síðar er Mignolet varði mjög vel frá Maurice-Belay á fjærstöng eftir sendingu frá hægri. Crivelli náði frákastinu en hann náði ekki nógu góðu valdi á boltanum og kom ekki skoti á markið. Þar skall hurð nærri hælum hjá gestunum. Þeir brunuðu í sókn og vinstra megin sendi Moreno á Lallana sem lék laglega framhjá einum varnarmanni með því að senda boltann í gegnum klofið á honum. Áfram lék Lallana inní teig og skaut hnitmiðuðu skoti í fjærhornið, óverjandi fyrir Carrasso í markinu. Vel gert þarna hjá Lallana. Danny Ings kom svo inná fyrir Origi og hann fékk ágætis færi á svipuðum slóðum og Lallana en nú varði Carrasso.

Níu mínútum fyrir leikslok náðu svo heimamenn að jafna metin þegar varnarmenn Liverpool náðu ekki að hreinsa almennilega frá marki sínu. Var þar að verki Jussie með góðu skot innan úr teignum, óverjandi fyrir Mignolet. Fleira markvert gerðist eftir þetta þó svo að bæði lið hafi reynt hvað þau gátu til að lauma inn sigurmarki.

Bordeaux: Carrasso, Gajic (Guilbert, 86. mín.), de Castro, Pallois, Poundje, Chantome, Saivet (Biyogo Poko, 76. mín.), Maurice-Belay, Khazri (Ferreira Vieira, 69. mín.), Crivelli, Rolan. Ónotaðir varamenn: Traoré, Thelin, Yambéré, Prior.

Mark Bordeaux: Ferreira Vieira, 81. mín.

Gult spjald: Chantome.

Liverpool: Mignolet, Gomez, Toure (Chirivella, 28. mín.), Sakho, Ibe, Rossiter (Brannagan, 80. mín.), Can, Moreno, Lallana, Coutinho, Origi (Ings, 73. mín.). Ónotaðir varamenn: Bogdan, Cleary, Randall, Firmino.

Mark Liverpool: Adam Lallana, 65. mín.

Gult spjald: Kolo Toure.

Maður leiksins: Adam Lallana hlýtur nafnbótina að þessu sinni fyrir að hafa skorað gott mark. Vonandi nær hann að halda sér meiðslalausum á tímabilinu sem verður til þess að hann sýni sitt rétta andlit og getu. Hann hefur klárlega hæfileikana til að skapa hættu uppvið mark andstæðinganna.

Brendan Rodgers: ,,Við erum augljóslega vonsviknir með að fá jöfnunarmarkið á okkur en ég var ánægður með frammistöðu ungu strákanna í liðinu. Þeir voru margir í liðinu í dag og sumir þeirra voru að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið og mér fannst þeir standa sig vel. Það er alltaf erfitt að spila á útivelli í Evrópu, við vorum ekki með reynslumikið lið og ég er því hæstánægður með það hvernig menn brugðust við. Það var vont að fá á sig mark, sóknarmaðurinn þeirra náði of mörgum snertinum inní vítateig og fékk smá heppni með sér í lið þegar Emre Can renndi sér og boltinn skaust beint til hans aftur."

Fróðleikur:


- Adam Lallana skoraði sitt fyrsta mark á tímabilinu.

- Simon Mignolet spilaði sinn 100. leik fyrir félagið.

- Pedro Chirivella og Cameron Brannagan spiluðu í fyrsta sinn fyrir aðallið félagsins.

- Mamadou Sakho bar fyrirliðabandið í fyrsta sinn ef undirrituðum skjátlast ekki.

- Í hinum leik riðilsins unnu FC Sion sigur á Rubin Kazan 2-1 í Sviss.

- Hér má sjá myndir úr leiknum.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan