| Heimir Eyvindarson

Benteke og fleiri stórir strikerar

Liverpool hefur ekki beint lagt það í vana sinn að kaupa ámóta „trukka" í framlínuna og Christian Benteke, en nokkrir tröllvaxnir hafa þó klæðst rauðu treyjunni í gegnum tíðina. Og gengið misvel.

Christian Benteke er 1,90 á hæð og tröll að burðum. Nautsterkur og lætur mótherjann finna vel fyrir sér. Í sögu Liverpool síðustu áratugina er ekki að finna marga framherja í líkingu við Belgann þrekvaxna. Emile Heskey kemst næst því, af þeim sem náð hafa fótfestu hjá félaginu. Nokkrir fleiri stórir strikerar hafa þó verið keyptir til félagsins, en fæstir skilað arði.

Um það leyti þegar undirritaður fór að fylgjast með Liverpool var uppskrift félagsins að árangri fram á við að vera með framherjapar sem samanstóð af einum litlum töframanni og einum stórum potara. John Toshack og Kevin Keegan voru skýrt dæmi um vel heppnaða samvinnu af því tagi. David Johnson og Kenny Dalglish sömuleiðis, að ekki sé minnst á King Kenny og Ian Rush. Þeir tveir síðastnefndu raunar báðir töframenn á sinn hátt.

John Toshack er fyrsti „framherjatrukkurinn" sem undirritaður man eftir í búningi Liverpool. Í minningunni er hann álíka tröllslegur og Christian Benteke og Emile Heskey, en þegar betur er að gáð þá var hann reyndar ekkert svo svakalegur. Kevin Keegan var bara svo óskaplega smágerður að Toshack virkaði rosalega stór og sterkur við hliðina á honum. Vissulega var Weilsverjinn sterkur og þó nokkuð þéttur, en hann var (og er líklega enn) 1,85 á hæð, sem er heilum fimm sentimetrum minna en Benteke hefur í sínu vegabréfi.

John Toshack kom til Liverpool árið 1970 frá Cardiff City. Líkt og í tilviki Benteke voru miklar vonir bundnar við þennan stóra og stæðilega framherja, enda hafði hann skorað 74 mörk í 162 leikjum fyrir Cardiff, sem er næstum því mark í öðrum hverjum leik. 197 mínútur á milli marka, ef miðað er við að hann hafi leikið fullar 90 mínútur í hverjum leik.

Þessi aðferðafræði er reyndar hvorki sérlega nákvæm né fyllilega sanngjörn, en gefur samt sem áður ágæta mynd af frammistöðu þeirra mismarkheppnu framherja sem hér er fjallað um.

Hjá Liverpool skoraði Toshack 96 mörk í 246 leikjum (230 mín. milli marka), sem er vissulega heldur lakara hlutfall en hjá Cardiff, en samt sem áður ljómandi gott. Toshack og Kevin Keegan, stundum nefndir Batman og Robin,  náðu geysilega vel saman í framlínunni og Toshack var og er elskaður og dáður af stuðningsmönnum Liverpool. 

Frá því að Toshack yfirgaf Liverpool var lítið um „trukka" í framlínu félagsins um langt skeið. Allan níunda áratuginn og fram á þann tíunda voru framherjar Liverpool langflestir frekar fíngerðir. Í það minnsta í samanburði við Toshack.

Ian Rush var vissulega 1,80 á hæð, en verður seint talinn með tröllum. Sama má segja um Stan Collymore, sem kom til Liverpool árið 1995 frá Nottingham Forest. Hann er jú heilum sentimetra hærri en Benteke, en ekki tröll frekar en Rush.

Það var ekki fyrr en Gerard Houllier kom til Liverpool sumarið 1998 að aftur fór að bera á þrekvöxnum framherjum. Houllier þekkti sögu Liverpool vel og vissi að í eina tíð var til ágæt uppskrift sem skilaði árangri fram á við. Hann átti litla töframenn í Michael Owen og Robbie Fowler, en vantaði stóran potara.

Houllier var ekki lengi að finna fyrsta tröllið, en strax um sumarið 1998 keypti hann Þjóðverjann Sean Dundee (1,87 m.) á 2 milljónir punda. Kaupin gerði Houllier væntanlega í samráði við Roy Evans, en þeir félagar stjórnuðu Liverpool liðinu í sameiningu fyrst eftir komu Frakkans, en það er þó nokkuð ljóst að Dundee var ofar á óskalista Houllier en Evans.


Það er varla að það taki því að minnast á Dundee því hann lék aðeins 3 leiki fyrir Liverpool og náði ekki að skora mark, en það er þó athyglisvert að skoða tölfræðina sem hann tók með sér til Bítlaborgarinnar. Áður en hann kom til Liverpool lék hann með Karlsrühe í þýsku Bundesligunni þar sem hann skoraði 36 mörk í 85 leikjum, sem er hreint ekki svo slæm tölfræði. Mark með 212 mínútna millibili, eða heldur betra hlutfall en John Toshack náði á gullaldarárum sínum hjá Liverpool. Það var því eðlilegt að ákveðnar væntingar væru gerðar til hans á sínum tíma. Óhætt er þó að segja að Dundee hafi aldrei staðið undir þeim væntingum. Hann var seldur til Stuttgart sumarið 1999 fyrir eina milljón punda.

Næsta tröllið sem Houllier keypti var Hollendingurinn Erik Meijer (1,89 m.), sem kom til Liverpool frá Bayer Leverkusen sumarið 1999. Það skildu reyndar fáir í þessum kaupum Liverpool, því Meijer hafði leikið með Leverkusen í þrjár leiktíðir og skorað 16 mörk í 84 leikjum, sem getur varla talist merkilegt. Ekki batnaði tölfræði Hollendingsins við komuna til Englands, því hann skoraði 2 mörk í 27 leikjum fyrir Liverpool. Hann sneri aftur til Þýskalands í desember 2000.

Þrátt fyrir að hafa ekki náð að festa sig í sessi hjá Liverpool varð Meijer merkilega vinsæll hjá stuðningsmönnum félagsins og fékk viðurnefnið Mad Erik, vegna ódrepandi baráttuvilja sem hann sýndi inni á vellinum. Þá vann sér inn fullt af prikum þegar hann mætti á leik Dortmund og Liverpool í UEFA keppninni 2000-2001 og söng og drakk með stuðningsmönnum Liverpool bæði fyrir og eftir leik. 

Houllier gafst ekki upp á að finna stóran og stæðilegan framherja, þrátt fyrir að kaupin á Dundee og Meijer hefðu ekki skilað nokkrum einasta árangri og í mars árið 2000 snaraði hann heilum 11 milljónum á borðið fyrir Emile Heskey (1,88 m.), þáverandi framherja Leicester City. Þetta var hæsta upphæð sem Liverpool hafði nokkru sinni greitt fyrir leikmann og vöktu kaupin að vonum gríðarlega athygli í ensku pressunni.

Á fjórum leiktíðum með Liverpool skoraði Heskey 39 mörk í 150 leikjum, sem er nánast sama tölfræði og hann tók með sér frá Leicester þar sem hann skoraði 40 mörk í 154 leikjum. Ekki beint tölur sem hægt er að hrópa húrra yfir, enda voru þessi kaup Houllier gagnrýnd ansi harkalega á sínum tíma, einmitt með hliðsjón af tölfræðinni.

Það er þó ekki sanngjarnt að segja að Heskey hafi verið flopp hjá Liverpool. Þegar liðið vann bikarþrennuna eftirminnilegu leiktíðina 2000-2001 var hann til að mynda lykilmaður í liðinu og skoraði 22 mörk. Hann var í miklu uppáhaldi hjá Houllier, sem hafði nú loksins fundið gagnlegan tröllastrák, og var oftar en ekki fyrsti kostur Frakkans í framlínu Liverpool. Á undan bæði Michael Owen og Robbie Fowler. Auðvitað má deila um það hvort það hafi verið réttlætanlegt hjá Houllier, en hvað sem því líður er ekki hægt að segja annað en að Heskey hafi gengið ágætlega hjá Liverpool.

Hér verður ekki farið yfir sögu Peter Crouch sem þó er rúmlega tveggja metra stykki, enda telst hann vart til trölla. En síðasti stóri og sterki framherjinn í sögu Liverpool, áður en Christian Benteke var keyptur til félagsins, er Andy Carroll (1,93 m.).

Eins og flestum er enn í fersku minni var Andy Carroll keyptur til Liverpool á síðustu mínútum janúargluggans 2011, fáeinum andartökum eftir að Fernando Torres fór til Chelsea.

Carroll kom frá Newcastle, þar sem hann hafði gert 31 mark í 80 leikjum (232 mín. milli marka) og kaupverðið var hvorki meira né minna en 35 milljónir punda. Þar með var Carroll, rétt eins og Emile Heskey á sínum tíma, orðinn dýrasti leikmaður í sögu Liverpool.

Skemmst er frá því að segja að ferill Carroll hjá Liverpool var algjör sorgarsaga. Hann náði aldrei að standa undir kaupverðinu, né heldur passaði hann í treyjuna sem hann valdi sér. Hina goðsagnakenndu níu, sem forveri hans Fernando Torres og margir aðrir meistarar á undan honum höfðu borið á bakinu.

Það er líklega fyrst og fremst afleitt gengi Andy Carroll hjá Liverpool á sínum tíma sem hefur gert það að verkum að stuðningsmenn félagsins hafa ekki verið að springa úr spenningi yfir Christian Benteke. Belginn hefur hvað eftir annað verið borinn saman við Carroll og í því sambandi iðulega á það bent að Brendan Rodgers hafi ekki talið sig hafa not fyrir framherja eins og Carroll þegar hann tók við Liverpool liðinu.

Menn hafa líka verið duglegir að bera Benteke saman við Emile Heskey sem, þrátt fyrir að hafa gengið talsvert betur hjá Liverpool en Carroll, verður seint talinn meðal vinsælustu leikmanna félagsins.

Vissulega er það rétt að nokkur líkindi eru með Benteke og þeim félögum Carroll og Heskey. Líkamlegir burðir svipaðir og spilastíllinn áþekkur. En tölfræðin sem Benteke tekur með sér á Anfield vekur von með okkur efasemdarmönnunum. Hún er heldur betri en tölfræði Heskey og Carroll.

Hjá Aston Villa skoraði Benteke 42 mörk í 88 leikjum. Ef sömu aðferðafræði er beitt á Benteke og aðra stórvaxna framherja sem hér er fjallað um þá liðu u.þ.b. 188 mínútur milli marka hjá Benteke, samanborið við 346 mínútur hjá Heskey þegar hann var hjá Leicester (og raunar hjá Liverpool líka) og 232 mínútur hjá Carroll meðan hann var hjá Newcastle, en þess ber reyndar að geta að Carroll skoraði megnið af sínum mörkum fyrir Newcastle í næstefstu deild.

Hvað sem allri tölfræði líður þá er það morgunljóst að pressan á Christian Benteke er mikil. Hann er næst dýrasti leikmaður í sögu Liverpool og honum er ætlað að leysa vanda Liverpool fram á við. Að gera það sem Balotelli, Lambert, Borini og Sterling mistókst á síðustu leiktíð. Að skora mörk.

Það mun ekki hjálpa honum að tilfinningar margra stuðningsmanna Liverpool eru æði blendnar þessa dagana. Trúin á Brendan Rodgers er talsvert minni núna í sumar en sumarið þar á undan og margir stuðningsmenn eru þeirrar skoðunar að veikleikar stjórans kristallist ekki hvað síst í misheppnuðum leikmannakaupum. Benteke virðist hafa verið efstur á óskalista Rodgers um langa hríð og þessvegna er það vísast eins gott fyrir þá báða að Belginn fari vel af stað.

Ég er að eðlisfari bjartsýnn og þrátt fyrir að mér hafi ekki litist allt of vel á Benteke við fyrstu sýn hef ég fulla trú á því að honum muni vegna vel hjá Liverpool. Eftir að hafa skoðað hann betur er ég mjög ánægður með þessi kaup. Ég veit að margir stuðningsmenn hafa svipaða sögu að segja. Að sama skapi er ég bjartsýnn á að komandi leiktíð muni leiða það í ljós að það hafi verið rétt ákvörðun hjá FSG að gefa Rodgers annan sjéns. Ég er jú ekkert öðruvísi en aðrir stuðningsmenn félagsins að því leyti að ég er alltaf kominn með að minnsta kosti aðra lúkuna á dolluna í lok sumars.

YNWA!
  
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan