| Sf. Gutt

Bikardraumurinn búinn!

Bikardraumur Liverpool endaði á Wembley í dag. Liverpool lék einn sinn versta leik á leiktíðinni og tapaði 2:1 fyrir Aston Villa sem verðskuldaði sigurinn. Hrikaleg niðurstaða þegar vonir stóðu til þess að hægt væri að vinna titil á þessari erfiðu leiktíð.

Steven Gerrard leiddi Liverpool til leiks eftir þriggja leikja bann sitt. Lucas Leiva meiddist á æfingu og gat ekki spilað. Það þurfti því mann á miðjuna og Steven fékk stöðuna. Martin Skrtel kom líka inn í liðið eftir sitt bann. Lazar Markovic var kannski óvænt valinn á kostnað Glen Johnson.    

Það var snemma ljóst að leikmenn Liverpool voru ekki nógu ákveðnir og liðið virtist ekki koma nógu vel stemmt til leiks. Mótherjarnir voru á hinn bóginn brattir. Liverpool fékk fyrsta færið Philippe Coutinho sendi fyrir frá vinstri á Joe Allen en skot hans frá vítateignum fór víðsfjarri. Á 12. mínútu átti Charles N´Zogbie skot rétt við vítateiginn en Simon Mignolet sló boltann yfir. 

Liverpool komst svo yfir á 30. mínútu. Eftir samspil Liveprool vinstra megin við vítateiginn gaf Jordan Henderson fyrir. Vörn Villa kom boltanum ekki frá og rétt utan við vítateiginn gaf Raheem Sterling á Philippe sem stakk sér inn í vítateiginn og skoraði með skoti út við stöng hægra megin. Boltinn rakst aðeins í varnarmann en það breytti engu fyrir leikmenn og stuðningsmenn Liverpool sem fögnuðu mikið.

Segja má að markið hafi komið gegn gangi leiksins en nú var lag fyrir Liverpool að ná yfirhöndinni. Það gerðist þó ekki og aðeins sex mínútum seinna jafnaði Villa. Góður samleikur endaði með því Fabian Delph fékk boltann vinstra megin í vítateignum. Hann sendi til baka út í teiginn og þar kom Christain Benteke og smellti boltanum í markið. Ekki í fyrsta skipti sem Belginn skorar gegn Liverpool. 

Liverpool kom engum krafti í leik sinn en Dejan Lovren fékk þó gott færi eftir horn frá vinstri þegar fimm mínútur voru til hálfleiks en skalli hans fór framhjá. Króatinn hefði sannarlega átt að geta hitt á markrammann. Jafnt í hálfleik. 

Hafi stuðningsmenn Liverpool haldið að liðið þeirra færi að spila betur eftir hlé þá höfðu þeir rangt fyrir sér. Brendan Rodgers breytti kerfi sínu og setti Mario Balotelli inn á fyrir Lazar Markovic. Villa byrjaði af krafti og eftir níu mínútur voru þeir komnir yfir. Unglingurinn Jack Grealish sendi inn í vítateiginn á Fabian sem sneri tvo varnarmenn léttilega af sér og skoraði. Nokkrum mínútum seinna átti Kieron Richardson skot utan við vítateiginn sem fór hátt yfir. Liverpool slapp vel á 73. mínútu þegar vörnin var fáliðuð og þrír leikmenn Villa komust í sókn en Alberto Moreno sem var einn aftastur náði að bjarga með góðri tæklingu við vítateiginn.

Loksins síðustu tíu mínúturnar náði Liverpool að ná einhverri pressu og skapa sér færi. Dejan skallaði rétt yfir eftir horn frá hægri þegar fimm mínútur voru eftir. Mínútu síðar fékk Liverpool aftur horn. Philippe tók góða hornspyrnu sem Steven skallaði að marki og boltinn virtist á leiðinni í markið þar til Kieron skallaði frá á marklínunni. Steven átti greinilega ekki að fá afmælisleik!

Þar munaði litlu og enn munaði litlu á 88. mínútu. Steven sendi þá langa hárnákvæma sendingu frá eigin vallarhelmingi. Mario náði boltanum og kom honum í markið en línuvörðuinn dæmdi rangstöðu. Oft var Mario rangstæður í leiknum en þarna var hann langt frá því að vera svo og markið hefði átt að standa. Mistök hjá línuverðinum og ekkert með Liverpool. Mario endaði á að skalla rétt yfir á lokamínútunni eftir fyrirgjöf frá Jordan Henderson en bikardraumur Liverpool var búinn!

Leikur Liverpool olli gríðarlegum vonbrigðum. Þarna fór góður möguleiki á titli fyrir lítið. Mótherjinn var lið sem er búið að vera slakt á leiktíðinni og í neðri hluta deildarinnar. En leikmenn þess liðs lögðu sig alla fram á meðan leikmenn Liverpool voru slakir og taugaspenntir. Liverpool átti ekkert skilið úr leiknum því leikmenn brugðust á ögurstundu. Vissulega má benda á eitthvað hjá framkvæmdastjórnum en leikmenn spila leiki!

Aston Villa: Given; Bacuna, Vlaar, Baker (Okore 26. mín.), Richardson; Delph, Westwood, Cleverley; N'Zogbia (Sinclair 75. mín.), Benteke og Grealish (Cole 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Guzan, Weimann, Lowton og Gil.

Mörk Aston Villa: Christain Benteke (36. mín.) og Fabian Delph (54. mín.).

Gult spjald: Fabian Delph.

Liverpool: Mignolet; Can, Skrtel, Lovren; Markovic (Balotelli 46. mín.), Henderson, Allen (Johnson 77. mín.), Moreno (Lambert 90. mín.); Gerrard, Coutinho og Sterling. Ónotaðir varamenn: Jones, Toure, Manquillo og Borini.

Mark Liverpool: Philippe Coutinho (30. mín.)

Áhorfendur á Wembley: 85.416.

Maður leiksins: Það er reyndar næstum ekki hægt að velja neinn en Emre Can verður fyrir valinu. Þjóðverjinn lék þrjár mismunandi stöður og gekk svo sem ekki vel en hann lagði sig þó allan í leikinn og það er meira en hægt er að segja um alla félaga hans. 

Brendan Rodgers: Eins og þið getið ímyndað ykkur þá erum við auðvitað gríðarlega vonsviknir og þá sérstaklega með hvernig við spiluðum. Tapleikir eiga sér alltaf stað af og til en maður hefði vonað að við hefðum spilað vel til að eiga möguleika. Ef satt skal segja þá fannst mér þeir vera betri en við í dag.

                                                                             Fróðleikur

- Þetta var í 24. sinn sem Liverpool spilaði í undanúrslitum í F.A. bikarnum. 

- Philippe Coutinho skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Aston Villa hefur aðeins einu sinni áður unnið Liverpool í F.A. bikanrum. Það var árið 1897.

- Liverpool hefur þrívegis leikið í gulum búningum í undanúrslitum og aldrei komist í úrslit.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.





 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan