| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrir dyrum er nágrannaslagur á milli Liverpool og Everton. Leikið verður á Goodison Park og leiktíminn er óvenjulegur.

Þetta verður síðasti leikur laugardagsins og hefst hann kl. 17:30. Lögreglan í Liverpoolborg sem og borgaryfirvöld mótmæltu þessum leiktíma því þetta getur boðið hættunni heim hvað ólæti eftir leik varðar. Venjulega fara þessir leikir fram í hádegi á laugardegi til að hægt sé að hafa betri stjórn á mannskapnum sem heldur heim á leið að leik loknum í björtu. En því verður ekki að heilsa nú og vonandi verða engin læti fyrir eða eftir leik.

En aðalatriðið er auðvitað sú barátta sem fer fram á grasvellinum sjálfum. Okkar menn hafa verið að spila þétt undanfarið og margir helstu leikmenn liðsins komu við sögu í miðri viku gegn Bolton. Eftir þann leik er óvíst með þátttöku Lazar Markovic en það eru þó nokkrir leikmenn sem geta komið inn í þessa hægri wing-back stöðu. Brendan Rodgers hefur svo verið að gæla við þá hugmynd að hafa Daniel Sturridge í byrjunarliði en margir eru á þeirri skoðun að það sé of snemmt á þessu stigi. Lucas Leiva var svo ekki í leikmannahópnum á miðvikudagin en það er þó búist við því að hann nái sér í tæka tíð fyrir þennan leik. Áfram sitja svo þeir Brad Jones og Jon Flanagan á sjúkrabekknum. Hvað heimamenn í Everton varðar eru þeir Steven Pienaar, James McCarthy, Tim Howard og Leon Osman allir á meiðslalista.

Þessi völlur hefur oftar en ekki reynst okkar mönnum erfiður en undanfarin ár hefur þó tekist að ná ágætum úrslitum. Af síðustu sex hefur aðeins einn tapast, þrír unnist og tveir endað með jafntefli en það eru jafnframt tveir síðustu leikir liðanna. Þann 23. nóvember 2013 mættust liðin síðast á Goodison Park og enduðu leikar með 3-3 jafntefli í mögnuðum leik. Coutinho skoraði fyrsta mark leiksins á 5. mínútu, Mirallas jafnaði metin þrem mínútum síðar en Luis Suarez kom gestunum aftur yfir á 19. mínútu. Lukaku skoraði svo tvö mörk í seinni hálfleik og kom Everton í 3-2. Daniel Sturridge jafnaði svo metin mínútu fyrir leikslok og þar við sat.

Okkar menn hafa verið á góðri siglingu og af síðustu sex leikjum í deildinni hafa fimm unnist og einn endað með jafntefli. Sé litið til útileikjanna hefur liðið unnið þar þrjá leiki í röð. Heimamenn hafa hinsvegar ekki unnið á heimavelli í deildinni síðan í desember er 3-1 sigur á Q.P.R. vannst og af síðustu sex leikjum heima og heiman í deild hefur aðeins einn unnist en það var leikur í síðustu umferð.

En eins og alltaf er sagt fyrir þessa leiki skiptir form liðanna engu máli. Það er ávallt hart barist og ekki gefin tomma eftir. Við vonum sannarlega að okkar menn mæti grimmir til leiks í síðasta nágrannaslag Steven Gerrard.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool halda áfram að gera vel og vinna baráttusigur 1-2.

Fróðleikur:

- Steven Gerrard spilar í síðasta skipti í þessum nágrannaslag.

- Brendan Rodgers stýrir Liverpool í 100. skipti í deildinni.

- 53 deildarleikir hafa unnist undir hans stjórn, 24 endað með jafntefli og 23 tapast.

- Þeir Steven Gerrard og Raheem Sterling eru markahæstir á tímabilinu með 9 mörk hvor.

- Báðir hafa skorað 5 mörk í deildinni.

- Raheem Sterling hefur einnig spilað flesta leiki á tímabilinu, 34 alls, ásamt Jordan Henderson.

- Komi Glen Johnson við sögu í leiknum verður það leikur númer 190 fyrir félagið í öllum keppnum.

- Simon Mignolet mun spila sinn 60. deildarleik fyrir Liverpool.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan