| Sf. Gutt

Uppgjör ársins 2014!


Eins og tilkynnt var í gær hér á síðunni munu þá munu nokkrir þeir sem starfa við Liverpool klúbbinn gera upp nýliðið ár á næstu dögum. Fyrstur í röðinni er Sigfús Guttormsson fréttaritari hjá Liverpool.is til margra ára. 


Maður ársins 

Steven Gerrard. Það dregur að lokum glæsilegs ferils þessa stórkostlega leikmanns sem sumir telja þann besta í sögu Liverpool. Hann lék lykilhlutverk, innan vallar sem utan, í titilatlögu Liverpool en því miður átti það ekki fyrir honum að liggja að hampa Englandsbikarnum. Hann lá undir nokkurri gagnrýni í upphafi leiktíðar en þegar leið að lokum árs var hann aftur farinn að leika lykilhlutverk í liðinu sínu.  




Leikmaður ársins
 
Þrátt fyrir allt og allt er ekki hægt annað en að velja Luis Suarez. Þó svo að hann hafi bara verið leikmaður Liverpool rúmlega helminginn af árinu þá raðaði hann inn mörkum sem næstum færðu Liverpool Englandsmeistaratitilinn. Hann brást þó Liverpool á liðnu sumri og stakk af. En hann var algjörlega frábær þrátt fyrir það. Einhver sagði hann gallaðan snilling og það er líklega nærri lagi. 


Leikur ársins

Trúlega verð ég að velja 3:2 sigur Liverpool á Manchester City á Anfield Road í apríl. Sigurinn færði Liverpool skrefi nær Englandsmeistartitlinum og ég var svo lánsamur að vera á leiknum. Algjörlega rafmagnað andrúmsloft, gríðarleg spenna og sigur hjá Liverpool sem gaf svo sannarlega góðar vonir.   


Atvik ársins 


Árið var heldur betur viðburðaríkt og af of mörgum að taka. Öll mörkin þegar leið að lokum leiktíðar, spennan, vonir og vonbrigði. Það er kannski lélegt að geta ekki valið eitthvað eitt atvik en ég get það bara ekki!


Gleði ársins 

Ég held að það hafi þegar ég gekk út af Anfield eftir að Liverpool vann Manchester City 3:2 og náði yfirhöndinni í baráttunni um titilinn. Þó svo að ég hafi verið vel meðvitaður um það að þessi sigur væri ekki allt þá var ekki annað hægt en að vera í skýjunum þegar flautað var til leiksloka eftir þennan magnaða leik og ganga út af leikvanginum næstum því á lofti eftir ótrúlega spennandi leik sem opnaði titilkapphlaupið upp á gátt.


Vonbrigði ársins 

Mestu vonbrigðin voru auðvitað þau að ná ekki að vinna Englandsmeistaratitilinn. Ég var búinn að segja nokkrum félögum mínum í febrúar eða mars þegar stefndi í að Liverpool yrði með í baráttunni að það væri betra að missa af titlinum með 10 stigum frekar en naumlega ef titilinn ætti ekki að vinnast. Þegar upp var staðið mátti engu muna og þess vegna voru vonbrigðin gríðarleg og þau eru sannarlega enn fyrir hendi. 


Sigfús Guttormsson


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan