| Elvar Guðmundsson

Sterkur útisigur á Leikvangi ljóssins

Liverpool sóttu þrjú stig með sterkum 1-0 útisigri á Sunderland í hádegisleik dagsins. Draumurinn um 4. sætið lifir því enn góðu lífi, sérstaklega í ljósi annarra úrslita í dag, en þar töpuðu Tottenham sínum leik og West Ham gerðu aðeins jafntefli.

Sigurmark okkar í dag var gert af manni leiksins, Lazar Markovic, sem átti mjög góðan leik. Hann átti einnig frábært sláarskot fyrir utan teig, sem og Adam Johnson á hinum enda vallarins í leik þar sem heimamenn léku einum færri frá upphafi síðari hálfleiks vegna tveggja gulra spjalda Bridcutt.

Brendan ákvað að hvíla Sterling í þessum leik, hann enn í fríi á Jamaica en það var eitthvað sem var víst löngu ákveðið. Fabio Borini fékk sénsinn í byrjunarliðinu í dag og þriggja manna varnarlínan óbreytt. Hendo og Lucas voru öflugir á miðsvæðinu með Markovic og Moreno á sitthvorum kantinum. Gerrard og Coutinho svo í frjálsum rullum fyrir aftan Borini.

Fyrri hálfleikur var mjög góður af okkar hálfu þar sem við áttum nokkur góð færi á meðan við gáfum fá sem engin færi á okkur. Strax á upphafsmínútunum áttum við allan daginn skilið að fá vítaspyrnu þegar Wes Brown keyrði sprækan Markovic niður innan teigs en Craig Pawson dómari leiksins sá ekki ástæðu til að flauta. 

Skömmu síðar, eða á 8. mínútu, kom svo eina mark leiksins. Þá ákvað Pawson að flauta ekki heldur þegar Borini var tæklaður í grasið rétt utan teigs sem var eins gott því boltinn barst til Markovic sem hafði örlitla heppni með sér, komst á auðan sjó og potaði inn sigurmarkinu af markteig. Fyrsta deildarmark Serbans unga fyrir klúbbinn, en vonandi ekki það síðasta.

Markovic var svo hársbreidd frá sínum öðru marki með fáránlegu "acrobatic" skoti á lofti utan teigs sem söng í þverslánni, þaðan í Pantillimon og í horn. Frábær tilraun sem virkilega átti skilið að enda í netinu.

Fabio Borini fékk svo úrvals færi, örlítið þröngt þó, en með opið mark fyrir framan sig eftir að hafa tekið við sendingu Can innfyrir vörn Sunderland, leikið á markvörðinn utarlega í teignum en setti svo skotið í hliðarnetið. Þarna hefði Ítalinn átt að gera betur og koma okkur verðskuldað í 2-0.

Fyrirliðinn lauk svo hálfleiknum með þrumuskoti í hliðarnetið utarlega úr teignum. 

Heimamenn áttu aðeins 1 tilraun að marki Liverpool í fyrri hálfleik á meðan við áttum 8 marktilraunir og gefur það rétta mynd af gangi hálfleiksins.

Steven var svo tekinn af velli vegna stífleika í læri og því meira sem varúðarráðstöfun. Inná fyrir hann kom Lovren sem þýddi að Can færðist úr vörninni og upp á miðjuna en Þjóðverjinn átti flottan leik í báðum stöðunum í dag.

Seinni hálfleikur var aðeins síðri af okkar hálfu og það þrátt fyrir að vera manni fleiri í rúmar 40 mínútur. Sunderland komust svo óþægilega nálægt því að jafna er Adam Johnson þrumaði boltanum í þverslánna og niður á bakvið frosinn Mignolet á línunni. 

Balotelli kom svo inn um miðjan seinni hálfleik í stað Borini og kom sér í 1-2 hálffæri og virkaði nokkuð sprækur og ætti að byrja næsta leik haldist hann heill fram að honum.

Coutinho átti svo gott færi af vítateig en skaut naumlega framhjá. Undir lokin var svo dælt inní box Liverpool í leit að jöfnunarmarkinu en vörnin hélt vel og þrjú mikilvæg stig í húsi.

Sanngjarn sigur í heildina, við áttum að vera allavega tveimur mörkum yfir í hálfleik og marktilrauna tölfræði BBC segir 21-5 okkur í vil. Ekki bara vorum við betri í fótbolta og áttum fleiri skot á markið, öllu mikilvægara var að það var mikil og góð vinnsla í liðinu og nefni ég þar sérstaklega Lazar Markovic sem skilaði varnarvinnu sinni ekki síður en sóknarleiknum. Dugnaður er allt í fótbolta, ef lið eru ekki tilbúin að hlaupa og berjast þá skiptir engu hversu flinka menn þau hafa innanborðs. Þrjú mikilvæg stig í safnið og nú er bara að klára leiktíðina með stæl fyrir fyrirliðann okkar.

Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Markovic, Henderson, Lucas, Moreno, Gerrard (Lovren, 45. mín.), Borini (Balotelli, 67. mín.), Coutinho.

Mark Liverpool: Lazar Markovic á 8. mínútu.

Gul spjöld: Henderson, Lovren, Borini og Coutinho.

Sunderland: Pantillimon, Vergini, O'Shea, Brown, van Aanholt, Bridcutt, Johnson (Mandron, 86. mín.), Larsson, Jordi Gomez, Giaccherini (Buckley, 77. mín.), Wickham (Graham, 77. mín.)

Gul spjöld: Vergini og Bridcutt.

Rautt spjald: Bridcutt.

Áhorfendur: 45.369.

Maður leiksins: Lazar Markovic. Serbinn átti frábæran fyrri hálfleik og var einnig flottur í þeim síðari. Skoraði sigurmarkið, átti frábært skot í slá, síógnandi með hraða sínum og útsjónarsemi og var virkilega duglegur og baráttuglaður í þessum leik.

Brendan Rodgers: "Okkar einu vonbrigði voru að hafa ekki skorað fleiri mörk. Við höfðum góð tök á leiknum. Sóknarlega vorum við mjög góðir. Við gerðum gott mark og áttum að fá víti - þetta var klár vítaspyrna og að auki fengum við eitt til tvö góð færi til viðbótar. Steven fann fyrir smá stífleika í aftanverðu læri. Hann er búinn að spila marga leiki á fáum dögum. Hann var stórkostlegur í fyrri hálfleik. Við vildum ekki taka neina áhættu með hann þar sem við eigum krefjandi seinni hluta tímabilsins eftir. Hann er okkur mjög mikilvægur.

Hér má sjá myndir af leiknum af opinberru heimasíðunni.

Hér má sjá viðtal við Brendan Rodgers.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan