| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti Sunderland á morgun. Eftir tvo sigurleiki í röð standa vonir stuðningsmanna Liverpool til þess að farið sé að birta til á Anfield á ný. 

Frá því að Liverpool beið afhroð gegn Crystal Palace á dögunum hefur aðeins rofað til hjá liðinu. Liðið hefur ekki tapað leik síðan, gert jafntefli við Ludogorets í Meistaradeildinni og borið sigurorð af Stoke og Leicester í Úrvalsdeildinni. Vissulega hefur ekki verið neinn sérstakur glæsibragur á leik liðsins, en greinileg batamerki að minnsta kosti.

Eins og ég hef áður vikið að virðist tapleikurinn gegn Crystal Palace hafa markað ákveðin tímamót hjá Brendan Rodgers. Mér sýnist að með því tapi hafi það runnið endanlega upp fyrir honum að ákveðnir hlutir í liðsuppstillingunni væru ekki að ganga. Til dæmis það að hafa Steven Gerrard í stöðu aftasta miðjumanns. Brendan hefur ekki gert það í síðustu þremur leikjum og hefur aukinheldur farið ágætlega yfir það hversvegna það gat gengið á síðustu leiktíð en ekki núna.

Lucas Leiva hefur sinnt DM hlutverkinu í undanförnum leikjum og leyst það ágætlega. Hann er vissulega dálítið ryðgaður, eftir langa bekkjarsetu, en hann ver vörnina mun betur en Gerrard. Það er klárt mál. 

Þá hefur vonarstjarnan Dejan Lovren ekki verið í byrjunarliðinu síðan gegn CP. King Kolo Toure hefur tekið hans stöðu og litið ágætlega út. Það ætti þó að vera öllum ljóst að hann er ekki langtímasvar við öllum vandræðum liðsins í öftustu víglínu. En, er á meðan er.

Það er auðvitað ákaflega mikilvægt að byggja áfram ofan á þau jákvæðu merki sem hafa verið á leik liðsins í síðustu leikjum. Liðið er að vinna sig út úr rosalegum vandræðum og það yrði hrikalega erfitt að fá blauta tusku í andlitið á morgun. En Rodgers er vissulega heilmikil vorkunn að velja liðið gegn Sunderland, því handan við hornið er úrslitaleikur í B-riðli Meistaradeildar. Gegn Basel á þriðjudagskvöld.

Miðað við hvernig síðustu leikir hafa spilast ættu Glen Johnson, Lucas, Kolo Toure, Steven Gerrard, Rickie Lambert og Raheem Sterling allir að eiga víst sæti í byrjunarliðinu í þeim leik, en ástandið á sumum þeirra er hreinlega þannig að það er engin óskastaða að láta þá leika 90 mínútur á morgun. Brendan er örugglega enn að velta því fyrir sér hversu marga þeirra hann kemst upp með að hvíla gegn Sunderland. Það verður í það minnsta að teljast líklegt að hann hvíli Gerrard og Lambert. Jafnvel Kolo Toure og Lucas líka, en þeir eru ekki í mikilli leikæfingu. 

Við þetta vandamál Rodgers, í sambandi við liðsvalið, bætist svo hættan á því að menn verði með hugann um of við leikinn gegn Basel og einbeitingin verði því ekki í lagi á morgun. Útlitið gæti þessvegna alveg verið bjartara. En reyndar getur maður kannski huggað sig við það að Liverpool hefur ágætt tak á Sunderland, þrátt fyrir að sagan gefi okkur svosem ekki neitt eins og við þekkjum allt of vel. Sagan gæti líka gefið tilefni til vanmats, sem er þá enn eitt atriðið til þess að hafa áhyggjur af!

Ef við skoðum blessaða söguna aðeins nánar þá kemur í ljós að Liverpool tapaði síðast fyrir Sunderland á Anfield í október 1983 og síðustu 15 viðureignir liðanna á Anfield hafa ýmist endað með sigri Liverpool eða jafntefli. Átta Liverpool sigrar og sjö jafntefli, nánar tiltekið.

Okkar mönnum hefur líka gengið ágætlega með norðlendingana á þeirra heimaslóðum. Eini leikurinn sem Sunderland hefur unnið Liverpool þar í seinni tíð er sundboltaleikurinn frægi í október 2009. Það ótrúlega mark hefði auðvitað aldrei átt að standa, þannig að það er eiginlega ekkert að marka þann ósigur.

Þess má geta að 9 af síðustu 11 mörkum sem Liverpool hefur gert á móti Sunderland hafa komið frá SAS, 7 frá Luis Suarez og 2 frá Daniel Sturridge. Þeir verða því miður hvorugur með á morgun. Það er svosem líka hægt að rifja það upp að Liverpool skoraði 20 mörk í deildinni í desember í fyrra, þar af skoraði Luis Suarez 10, en það er nú önnur saga. 

Ég verð að viðurkenna að ég er ansi stressaður fyrir þennan leik. Ég hef áhyggjur af því að Brendan og leikmennirnir verði of uppteknir af leiknum gegn Basel. Ég er t.d. dauðhræddur um að Kolo verði hvíldur, sem þýðir það að Lovren og Skrtel verða saman í vörninni. Það er ávísun á vandræði. Því miður. Þá er ég ansi hræddur um að það geti reynst liðinu erfitt ef Lucas verður hvíldur á morgun. Innkoma hans hefur virkað vel og það er mun meira öryggi yfir varnarlínunni þegar Brassinn stendur vaktina fyrir framan hana. 

En það þýðir víst ekkert annað en að vera bjartsýnn. Ég vona innilega að Liverpool haldi áfram að rétta úr kútnum. Ég vona líka að Borini og Markovic fái sjénsinn, að minnsta kosti annar hvor. Mér finnst líka líklegt að Emre Can fái að spreyta sig á morgun og hugsanlega verður Sakho í hópnum, sem er fagnaðarefni. Ég ætla að leyfa mér að spá 3-2 sigri Liverpool. Markovic, Lambert og Sterling skora.

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan