| Grétar Magnússon

Ekki hans fyrsta víti

Simon Mignolet lenti í þeirri óvenjulegu aðstöðu að taka vítaspyrnu í vítaspyrnukeppninni gegn Middlesboro í Deildarbikarnum, hann segir þetta þó ekki hafa verið í fyrsta sinn sem hann tekur vítaspyrnu.

Það var árið 2009 þegar Mignolet lék með Sint-Truiden gegn Ronse í annari deild belgísku deildarkeppninnar. Lið hans var með örugga forystu, 4-1 og komið fram á 88. mínútu þegar vítaspyrna var dæmd. Mignolet skeiðaði fram völlinn til að taka spyrnuna og tryggja þar með enn stærri sigur. Spyrnan var reyndar varin en markvörðurinn fylgdi á eftir og skoraði.

Núna fimm árum síðar þurfti hann að stíga fram og taka spyrnu þar sem allir 10 útileikmenn liðsins höfðu tekið spyrnu. Mignolet brást ekki bogalistin í þetta skiptið, hann sendi Jamal Blackman markvörð Boro í rangt horn og kom þar með sínum mönnum í 10-9 í vítaspyrnukeppninni.

,,Ég held að vítaspyrnukeppnin hafi tekið svolítið lengri tíma en við áttum von á," sagði Mignolet í viðtali við opinbera síðu félagsins. ,,Leikurinn sjálfur var líka lengri en við áttum von á en að komast áfram í næstu umferð var aðalatriðið."

,,Í vítaspyrnukeppninni reynir maður að vera einbeittur á verkefnið - og það er bara að reyna að verja næstu spyrnu. Það er það sem maður horfir á og reynir að hafa áhrif á. Sem betur fer framkvæmdu allir sínar spyrnur vel - þar með talið ég sjálfur !"

,,Ég tók eina spyrnu þegar ég spilaði í Belgíu og við vorum yfir 4-1. Ég skoraði og kom liðinu í 5-1. En þetta er fyrsta spyrna mín sem ég skora beint úr."

,,Ég nálgaðist verkefnið eins og allir aðrir hefðu gert, reyndi að hitta markið og setja smá kraft í skotið. Mér tókst líka að senda markvörðinn í rangt horn og það er ég ánægður með. En augljóslega er það mikilvægasta að komast áfram og það tókst okkur."

Mignolet tókst ekki að verja vítaspyrnu seint í uppbótartíma frá Patrick Bemford en allt leit út fyrir að mörk frá Jordan Rossiter og Suso myndu duga til að knýja fram 2-1 sigur eftir framlengingu. Honum tókst þó að verja spyrnu Bamford í vítaspyrnukeppninni sjálfri, nánar tiltekið í fyrra skiptið sem Bamford fór á punktinn !

Hvorki fleiri né færri en 30 vítaspyrnur voru teknar á Kop markið í vítaspyrnukeppninni þar sem leikmenn gestanna misnotuðu tvær spyrnur, Mignolet varði aðra en hin fór langt framhjá.

,,Við náðum forystunni en því miður náðu þeir að jafna," sagði markvörðurinn. ,,Svo náðum við forystunni aftur í fyrri hálfleik framlengingar. En svo gáfum við þeim vítaspyrnu í blálokin. En ég held að það sem standi uppúr er að allir börðust mjög vel allt fram til síðustu mínútu leiksins. Við vorum jákvæðir og einbeittir allan leikinn og það er alltaf mikilvægt. Í bikarleikjum þarf maður bara að passa að komast áfram í næstu umferð og það tókst."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan