| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir

Undankeppni Evrópukeppni landsliða er hafin. Nú er hver umferð leikin á nokkrum dögum og landsliðsmenn Liverpool hafa verið að spila síðustu daga.

Wales vann harðsóttan 1:2 útisigur gegn Andorra í kvöld. Joe Allen spilaði allan leikinn og þótti standa sig vel. Hinn magnaði Gareth Bale skoraði bæði mörkin eftir að heimamenn komust óvænt yfir úr víti snemma leiks. Dejan Lovren var í vörn Króata sem unnu Möltu 2:0. Philippe Coutinho lék aftur með Brasilíumönnum sem unnu Ekvador 1:0. Philippe kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik. Willian sem leikur með Chelsea en var nærri því að fara til Liverpool fyrir ári skoraði markið sem réði úrslitum.

England vann góðan 0:2 sigur í Sviss í gærkvöldi. Sigurinn er kærkominn fyrir Roy Hodgson sem var undir mikilli pressu eftir hrakfarirnar í Brasilíu. Nú eru þeir Steven Gerrard, Frank Lampard og Ashley Cole hættir þannig að ungir leikmenn eru uppistaðan í liðinu. Kannski hefur það komið sér vel fyrir Roy i undirbúningi fyrir leikinn að hann þjálfaði Sviss með góðum árangri á síðasta áratug síðustu aldar.

Raheem Sterling þótti bera af í enska liðinu. Hann lagði upp fyrra markið fyrir nýliða Arsenal Danny Welbeck í fyrri hálfleik. Á lokamínútunni komust enskir svo í magnaða skyndisókn. Raheem, sendi á Rickie Lambert sem gaf á Danny og hann innsiglaði sigurinn með öðru marki sínu. Rickie var nýkominn inn á sem varamaður og átti þessa fínu stoðsendingu. Jordan Henderson lék allan leikinn þrátt fyrir að vera talinn tæpur vegna meiðsla.

Á sunnudagskvöldið spilaði Lazar Markovic með Serbum á móti Frökkum. Liðin skildu jöfn 1:1. Paul Pobga skoraði fyrir Frakka en Aleksander Kolarov jafnaði. Mamadou Sakho var varamaður. Brad Smith lék sinn annan landsleik með Áströlum en þeir mættu Saudi Arabíu í vináttuleik í London. Hann kom inn á undir lok leiksins. Ástralir unnu 3:2 en liðin mættust á heimavellli Fulham. 


Emre Can lék tvo leiki með undir 21. árs liði Þjóðverja og lagði upp þrjú mörk í 8:0 sigri á Rúmenum. Hann spilaði líka í 2:0 sigri gegn Írlandi. Slæmu fréttirnar voru þær að hann meiddist á ökkla í fyrrtalda leiknum. 



Hér eru myndir úr leik Englands og Sviss af Liverpoolfc.com.   


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan