| Heimir Eyvindarson

Af leikmannamálum

Flestir traustustu heimildamenn netheima telja að 3 leikmenn bætist í ört stækkandi starfsmannahóp Liverpool í þessari viku. Þá ríkir enn óvissa um framtíð nokkurra núverandi leikmanna.

Talið er afar líklegt að Króatinn Dejan Lovren, Frakkinn Loic Remy og belgíska ungstirnið Divock Origi skrifi undir samninga við Liverpool á allra næstu dögum. 

Lovren hefur sem kunnugt er lýst yfir eindregnum vilja að koma til Liverpool og samningaviðræður þess efnis hafa verið í gangi í allt sumar, að því er virðist. Nú segja króatískir netmiðlar að það sjái fyrir endann á þessu máli og Lovren verði líklega orðinn leikmaður Liverpool áður en vikan er úti. Tony Barrett og fleiri traustir heimildamenn í tístheimum taka undir þetta.

Nafn Loic Remy dúkkaði nokkuð óvænt upp núna um helgina og þær viðræður ganga hratt fyrir sig. Téður Tony Barrett fullyrðir að þau viðskipti séu nokkurn veginn klár og Frakkinn fari til Boston í dag til þess að taka þátt í æfingaleikjum Liverpool þar vestra. Þar mun hann einnig gangast undir læknisskoðun.

Uppfært kl. 14.40: Rétt í þessu tísti James Pearce á Twitter að Loic Remy væri farinn um borð í flugvél til þess að hitta nýja félaga sína í Liverpool og gangast undir læknisskoðun. 

Divock Origi, hinn 19 ára gamli framherji Lille í Frakklandi, mun síðan að öllum líkindum skrifa undir samning við Liverpool í þessari viku, jafnvel þótt hann komi ekki til liðsins fyrr en næsta sumar, en Lille og Liverpool munu hafa komist að samkomulagi um að Origi verði á láni hjá Lille út næsta tímabil.

Ýmsir aðrir leikmenn eru þrálátlega orðaðir við Liverpool eins og gengur, en heimildir fyrir þeim sögusögnum eru enn sem komið er ekki traustar. Nú í morgunsárið kemur nafn hins 22 ára Spánverja, Isco, sem leikur með Real Madrid hvað oftast upp, en spænska stórliðið tryggði sér fyrir helgina þjónustu Toni Kroos sem leikur sömu stöðu og Isco. Í netheimum er jafnvel fullyrt að Liverpool hafi beðið um að fá Spánverjann lánaðan á næstu leiktíð. 

Swansea drengirnir Ben Davies og Wilfried Bony enda nánast örugglega ekki í Liverpool. Davies er svo gott sem kominn til Tottenham og ef kaupin á Remy ganga í gegn er afar ólíklegt að Liverpool bjóði í Bony. 

Framtíð Fabio Borini er eilítið á reiki. Eins og komið hefur fram hefur Sunderland mikinn áhuga á að eignast kappann, sem stóð sig vel hjá norðanmönnum á síðustu leiktíð. Liverpool hefur samþykkt tilboð Sunderland upp á 14 milljónir punda, en viðskiptin stranda á Borini sjálfum sem mun ekki vera tilbúinn til þess að yfirgefa Liverpool. Borini hefur verið með í æfingaleikjum Liverpool í sumar og fór með liðinu til Bandaríkjanna. 

Gus Poyet framkvæmdastjóri Sunderland hefur ekki mikinn pening milli handanna í sumar og þessvegna getur hann ekki leyft sér að eyða löngum tíma í að bíða eftir ákvörðun Borini. Það hefur þó verið ákveðið að Poyet hinkri fram yfir Bandaríkjatúrinn og setjist niður með Ítalanum unga um leið og hann kemur að vestan, til þess að freista þess að sannfæra hann um að skipta um félag.

Oussama Assaidi virðist vera á leiðinni til Stoke, þar sem hann stóð sig vel sem lánsmaður á síðustu leiktíð. Mark Hughes stjóri Stoke er hrifinn af kappanum og ekki er annað að sjá en að gengið verði frá þeim félagaskiptum á allra næstu dögum.

Lucas Leiva gæti verið á leið til fyrrum stjóra síns, Rafa Benítez hjá Napoli. Hinn 27 ára gamli Brassi átti erfitt uppdráttar í Bítlaborginni á síðustu leiktíð og hefur tapað stöðu sinni til Steven Gerrard sem fór á kostum í hlutverki afturliggjandi miðjumanns á seinni hluta tímabilsins. Rætt er um að Lucas verði lánaður til Napoli í vetur. Það verður svo að koma í ljós hvort hann kemur tvíefldur til baka, eða hvort Benítez taki fram veskið og tryggi sér áframhaldandi þjónustu Brassans, sem hann fékk einmitt til Liverpool á sínum tíma.

Þá er framtíð Pepe Reina allsendis óviss. Spánverjinn var á láni hjá Napoli á síðustu leiktíð og Ítalirnir töldu sig ekki hafa efni á að kaupa hann. Reina hefur ekki tekið þátt í æfingaleikjum Liverpool það sem af er sumri, enda fengu leikmennirnir sem voru á HM eilítið lengra frí en restin af hópnum. Hann mun hinsvegar hafa farið með til Bandaríkjanna og það verður fróðlegt að sjá hvort Brendan notar hann eitthvað þar.

André Wisdom er á leið til WBA á lánssamningi og eftir Bandaríkjaferðina munu fleiri leikmenn væntanlega verða lánaðir hingað og þangað.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan