| Heimir Eyvindarson

Af leikmannamálum


Það sem af er sumri hafa heilmiklar breytingar orðið á leikmannahópi Liverpool og væntanlega sér ekki enn fyrir endann á þeim. Brendan Rodgers á allavega enn eftir að eyða dálítlum slatta af aurum.

Það er auðvitað ekki víst að FSG eyði öllum þeim peningum sem eru til ráðstöfunar í leikmannakaup strax í sumar. Ef frambærilegir leikmenn sem passa inn í plön Rodgers liggja ekki á lausu akkurat núna þá verður að teljast líklegt að leikmannakaupum verði slegið á frest þar til frekari færi gefast. Það er þessvegna alveg möguleiki að hér verði staðar numið í bili.

Lazar Markovic bættist í gær í hóp nýrra leikmanna Liverpool, eins og við höfum greint frá hér á síðunni. Markovic er einungis tvítugur að aldri, rétt eins og hinn þýski Emre Can sem gekk í raðir okkar manna fyrir fáeinum dögum. Þá hafa Southampton félagarnir Rickie Lambert og Adam Lallana einnig bæst í hópinn. 


Traustar heimildir herma að nú sé vinstri bakvörður efstur á óskalista Rodgers og félaga. Hinn 22 ára gamli Spánverji, Albert Moreno, var lengi vel efstur á listanum en nú virðist útséð um að Sevilla vilji láta hann af hendi. Liverpool mun hafa boðið 16 milljónir punda í kappann á mánudaginn, en Sevilla vill fá 20 milljónir. Vonast var til að hægt yrði að nota Iago Aspas sem skiptimynt í þessum viðskiptum, en það gekk ekki eftir og hefur Aspas nú verið lánaður til Sevilla út tímabilið. Flestir traustustu Liverpool tístararnir eru á því að Moreno viðskiptin séu úr sögunni í bili.

Næstur á bakvarðalistanum hjá Rodgers mun vera fyrrum lærisveinn hans hjá Swansea, hinn 21 árs gamli Ben Davies. Tottenham mun einnig hafa áhuga á Davies, sem kemur ekkert stórkostlega á óvart svosem, en Davies þykir mikið efni og hefur verið í welska landsliðinu s.l. 2 ár. Swansea á að hafa neitað boði frá Liverpool upp á 8 milljónir punda og krefst þess að fá 12 milljónir fyrir bakvörðinn knáa.

Þriðji maðurinn á bakvarðalista Rodgers mun vera Englendingurinn Ryan Bertrand, sem leikur með Chelsea. Það flækir þau mál að Chelsea mun ekki hafa mikinn áhuga á að selja Bertrand til liðs í Úrvalsdeildinni. 

Belgíski framherjinn Divock Origi, sem er einungis 19 ára gamall og þykir mikið efni, hefur einnig verið mikið í Liverpool tengdum fréttum að undanförnu. Hann kom m.a. í heimsókn á Melwood í síðustu viku til þess að skoða aðstæður og ræða málin við Brendan Rodgers. Það er alveg ljóst að talsverðar þreifingar hafa verið á milli félaganna og það verður að teljast nokkuð líklegt að Belginn endi í Liverpool einhvern daginn, en líklega ekki í sumar. Í dag er nefnilega haft eftir René Girard framkvæmdastjóra Lille, þar sem Origi er á mála, að hvort sem Origi endi í Liverpool eða ekki sé alveg ljóst að hann spili a.m.k. næstu leiktíð með franska liðinu. 

Af öðrum leikmannamálum viðist ekki vera mikið að frétta í sjálfu sér. Í gær voru netmiðlar afar duglegir að segja frá því að Liverpool ætlaði að bjóða í Þjóðverjann Marco Reus, sem hefur verið einn besti leikmaður Bundesligunnar undanfarin ár. Bæði Liverpool og Dortmund hafa neitað því að einhverjar þreifingar séu í gangi, en það væri auðvitað ansi vel þegið að fá þennan stórkostlega leikmann til okkar manna.

Annar drjúgur úr Bundesligunni, Svisslendingurinn Xherdan Shaqiri, hefur einnig verið orðaður mjög sterklega við Liverpool í sumar. Matthias Sammer yfirmaður íþróttamála hjá Bayern Munchen sló þær vangaveltur út af borðinu í byrjun vikunnar þegar hann sagði að Shaqiri væri mikilvægur hlekkur í framtíðarplönum Bayern. Í gær kviknaði þó örlitil von aftur þegar Shaqiri tístaði á Twitter að hann vildi lifa í núinu, ekki í framtíðinni. Menn lesa auðvitað mismikið út úr þessum skilaboðum, en við getum allavega látið okkur dreyma í einhverja daga til viðbótar. Shaqiri hefur átt erfitt uppdráttar hjá Bayern, enda ekki fyrir hvern sem er að komast í það stjörnum prýdda lið, og hefur áður gefið það í skyn að hann sé tilbúinn að færa sig um set. Hver veit hvað verður, en hann tekur sig allavega vel út í rauðu!


Southampton liðið er meira og minna allt á óskalista Rodgers virðist vera. Lambert og Lallana eru komnir og Króatinn Dejan Lovren mun vera ofarlega á lista Rodgers. Lovren er miðvörður og Rodgers á að hafa sagt að hann sjái fyrir sér sér að Króatinn sé límið sem Liverpool vörnina vantaði á síðustu leiktíð. Southampton hefur neitað Lovren um félagaskipti og Króatinn hefur hótað öllu illu fái hann ekki að fara til Bítlaborgarinnar þannig að það getur allt eins endað með því að hann setjist að í Liverpool. Hvort sem það verður í sumar eða næsta sumar. Þá hefur framherji Southampton, Jay Rodriguez einnig verið orðaður við okkar menn, en sá orðrómur hefur hvorki verið sterkur né ýkja sannfærandi. Það er jú annar hver leikmaður orðaður við Liverpool þessa dagana.

Það virðist reyndar ekki alveg ljóst hvað Liverpool ætlar að gera í framherjamálum. Lambert og Markovic geta svosem báðir skorað mörk, en eru ekki í neinum Suarez klassa (það eru reyndir ekki margir í þeim klassa, ef út í það er farið). Divock Origi virðist ekki koma í sumar og fátt annað merkilegt hefur verið í fréttum. Fílbeinsstrendingurinn ógurlegi Wilfried Bony, sem skoraði 25 mörk fyrir Swansea á síðustu leiktíð var sterklega orðaður við okkar menn um helgina og í upphafi vikunnar en lítill fótur virðist vera fyrir þeim fréttum. Þá hafa Frakkarnir Anthony Griezmann, Alexandre Lacazette og Karim Benzema allir verið orðaðir við Liverpool en lítið virðist að marka þær fréttir.

Við verðum víst enn um sinn að anda rólega.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan