| Sf. Gutt

Einn fyrir alla og allir fyrir einn!

Raheem Sterling átti stórleik fyrir Liverpool í gær þegar liðið fór upp í toppsætið eftir 4:0 stórsigur á Tottenham. Hann segir að það sé mikil samheldni í liðinu og allir séu eins og einn maður. Raheem hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við Liverpoolfc.com eftir leikinn.

,,Mikilvægast er að við vinnum hver fyrir annan. Við hlaupum ekki bara stefnulaust út um allt. Við erum að vinna eins og liðsheild og erum að ná mjög góðum tökum á því. Við setjum pressu á mótherja okkar og reynum að nota hraðar sóknir. Strákarnir eru að leggja mjög hart að sér á hverjum einasta degi og það skilar sér inni á vellinum."

,,Strákarnir eiga hrós skilið fyrir leikinn í dag. Þeir lögðu virkilega hart að sér fyrir hvern annan. Allir voru að pressa mótherjana og lögðu sig alla fram. Ég er bara þakklátur fyrir að hafa verið hluti af liðnu. En strákarnir eiga hrósið skilið því þeir voru frábærir."

Það lá fyrir áður en leikur Liverpool og Tottenham hófst að sigur myndi skila Rauðliðum í efsta sætið. Það var því pressa á leikmönnum Liverpool fyrir leikinn. Raheem segir að það hafi gengið vel að ráða við pressuna og lokaspretturinn í deildinni verði mjög jafn.

,,Við spiluðum mjög góða knattspyrnu og byggðum sóknir okkar upp úr öftustu vörn. Við réðum mjög vel við pressuna sem fylgdi því að vita að við gætum komist í efsta sætið. Þetta verður mjög jafnt. Við tökumst á við hvern leik þegar að honum kemur og tökum eitt skref í einu. Strákarnir hafa trú á sér og það er samstaða í liðshópnum. Vonandi náum við að vera við toppinn í lok leiktíðar svo við getum verið stoltir af leiktíðinni. Við höfum verið frábærir hingað til."

Já, lokaspretturinn fer að hefjast og allt getur gerst. Draumurinn um Englandsmeistaratitilinn getur orðið að veruleika ef allt fer að óskum!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan