| Heimir Eyvindarson

Markasúpa í Wales

  
Liverpool gerði góða ferð til Cardiff í dag. Eftir erfiða byrjun, þar sem heimamenn náðu tvisvar yfirhöndinni, náði Liverpool að landa öruggum 6-3 sigri og er því áfram í bullandi toppbaráttu. Brendan Rodgers gerði eina breytngu á byrjunarliðinu frá sigurleiknum gegn Manchester United um liðna helgi. Philippe Coutinho kom inn í liðið í stað Raheem Sterling.

Strax á 4. mínútu komust heimamenn í dauðafæri fyrir framan mark gestanna. Eftir mikið klafs í teignum fékk Theophile-Catherine boltann beint í lappirnar fyrir framan mark okkar manna, en til allrar hamingju þrumaði varnartröllið tuðrunni lengst yfir markið. Mínútu síðar missti Flanagan boltann á hættulegum stað, en Cardiff náði ekki heldur að gera sér mat úr því.

Á 9. mínútu náðu Frasier Campbell og Jordon Mutch hinsvegar að gera sér mat úr mistökum okkar manna. Joe Allen lagði boltann þá huggulega fyrir Campbell sem renndi honum á Mutch sem skoraði með þrumuskoti neðst í markhornið. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn.

Fljótlega eftir markið komst Liverpool betur inn í leikinn og á 16. mínútu jafnaði Luis Suarez metin við markteiginn eftir fallega sókn okkar manna sem endaði með hárnákvæmri fyrirgjöf frá Glen Johnson. Staðan 1-1 og okkar menn farnir að líta betur út í sólinni í Wales.


En þrátt fyrir að Liverpool liðið virkaði meira sannfærandi þessar mínúturnar voru það heimamenn sem skoruðu næsta mark. Þar voru Mutch og Campbell aftur á ferðinni. Að þessu sinni átti Mutch stoðsendinguna, en Campbell markið og það verður að segjast eins og er að varnarvinna Liverpool var ekki alveg að gera sig. Staðan orðin 2-1 fyrir heimamenn.

Það sem eftir lifði hálfleiksins óx Liverpool smátt og smátt ásmegin og síðustu tíu mínúturnar voru nokkurn veginn skuldlaus eign gestanna frá Bítlaborginni. Á 41. mínútu kom síðan jöfnunarmarkið. Það skoraði Martin Skrtel eftir góða sendingu frá Coutinho. Staðan orðin 2-2 og útlitið orðið sæmilega bjart í höfuðborg Wales. Staðan í hálfleik 2-2.

Þegar tæpar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum var kombóið Skrtel og Coutinho aftur á ferðinni! Coutinho tók þá hornspyrnu og sendi boltann beint á ennið á Skrtel sem nikkaði honum laglega í fjærhornið. Staðan orðin 2-3. Tveimur mínútum síðar stormaði Sturridge inn í vítateig Cardiff og þrumaði boltanum í hliðarnetið. Góð tilraun.

Á 60. mínútu skoraði Luis Suarez annað mark sitt í leiknum og fjórða mark Liverpool. Góð sókn Liverpool endaði með því að Johnson sendi boltann á Sturridge inni í markteig Cardiff. Sturridge var í þröngri stöðu, en sendi boltann glæsilega með hælnum á Suarez sem renndi honum í netið af stuttu færi. Frábærlega gert hjá SAS og staðan orðin vænleg í Wales.


Á 75. mínútu var SAS tvíeykið aftur á ferðinni. Glen Johnson vann boltann þá af miklu harðfylgi af Fabio, rétt hægra megin við vítateig Liverpool. Hann þeytti tuðrunni yfir þveran og endilegan völlinn, á Luis Suarez. Úrugvæinn skeiðaði með boltann inn í teig og lagði hann þar fyrir fætur Sturridge, sem þurfti lítið annað að gera en að renna honum í markið. Staðan orðin 2-5 og sigur Liverpool endanlega í höfn.

Á 88. mínútu minnkaði Jordon Mutch muninn fyrir heimamenn. Kenwyne Jones skallaði boltann þá á Mutch sem kom honum í netið frá markteigslínunni. Staðan orðin 3-5. Þegar tæpar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma fullkomnaði Luis Suarez svo daginn þegar hann skoraði sitt þriðja mark og sjötta mark Liverpool.
 

Martin Skrtel sendi langa sendingu fram völlinn. Juan Cala varnarmaður Cardiff og Luis Suarez börðust um boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna og þau viðskipti enduðu með því að Cala lét sig falla. Neil Swarbrick dómari leiksins sá ekkert athugavert við framferði Úrugvæans, sem rölti inn í teig með boltann og renndi honum framhjá Marshall í marki Cardiff. Suarez hafði allan tímann í heiminum til þess að klára færið og hefði auðveldlega getað rennt boltanum á Raheem Sterling sem stóð fyrir framan opið markið í góða stund áður en Suarez tók ákvörðun. Eins og góðum framherja sæmir ákvað hann auðvitað að klára málið sjálfur og fullkomna sína sjöttu þrennu fyrir Liverpool. Lokatölur í Cardiff 3-6 í afar fjörugum leik.


Cardiff City: Marshall, Fabio, Theophile-Catherine, Caulker, Cala, John (Zaha 65. mín.), Medel, Mutch, Kim (Dæhli 65. mín.), Bellamy (Jones 70. mín.) og Campbell. Ónotaðir varamenn: Turner, Whittingham, Lewis og Aron Einar.
 
Mörk Cardiff City: Jordon Mutch (9. og 88. mín.) og Frasier Campbell (25. mín.).

Gul spjöld: Cala og Fabio.

Liverpool: Mignolet, Johnson, Flanagan (Cissokho á 73. mín.), Agger, Skrtel, Gerrard, Allen, Henderson, Coutinho (Sterling á 68. mín.), Suarez og Sturridge (Sakho á 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Leiva, Aspas og Moses.

Mörk Liverpool: Luis Suarez (16., 60. og 90. mín.), Martin Skrtel (41. og 54. mín.) og Daniel Sturridge (75. mín.).

Gul spjöld: Steven Gerrrard, Martin Skrtel og Joe Allen.

Áhorfendur á Cardiff City Stadium: 28.018.
 
Maður leiksins: Luis Suarez. Þessi drengur er einfaldlega ótrúlegur. Enn ein þrennan í dag og alltaf hætta þegar hann fær boltann. Stórkostlegur leikmaður!

Brendan Rodgers: Við lágum aðeins of aftarlega í fyrri hálfleik og vorum ekki nægilega vel á verði í mörkunum. Við sýndum hinsvegar mikinn styrk með því að koma til baka og landa góðum sigri. Þetta voru frábær úrslit.

                                                                                      Fróðleikur: 

- Liverpool og Cardiff hafa ekki mæst oft á fótboltavellinum. Á undanförnum árum hafa liðin einungis mæst þrisvar, ef leikurinn í dag er meðtalinn. Fyrri tvær viðureignirnar á þessari öld eru annarsvegar úrslitaleikurinn í Deildarbikarnum 2012, þar sem Liverpool vann eftir vítakeppni og náði þar með í langþráða dollu, og hinsvegar 3-1 sigur okkar manna í deildinni á Anfield rétt fyrir jól.

- Leikurinn í dag var fyrsta viðureign liðanna á heimavelli Cardiff síðan í ágúst 1959. Þann leik sigraði Cardiff 3-2.

- Þetta var í fimmta sinn í vetur sem Liverpool fær á sig þrjú mörk eða meira í leik.

- Markaskorun Liverpool hefur hinsvegar verið til stakrar prýði í vetur og þetta er í fimmta sinn á leiktíðinni sem liðið skorar fimm mörk eða meira í leik.

- Liverpool liðið hefur skorað 81 mark í deildinni á tímabilinu og hefur nú þegar slegið markametið frá leiktíðinni 2008-2009, en þá skoraði lið Liverpool, undir stjórn Rafa Benitez, alls 77 mörk. Það var hæsta markaskor Liverpool frá stofnun Úrvalsdeildar.

- Luis Suarez hefur nú skorað sex þrennur fyrir Liverpool! Hann hefur verið í miklum ham á þessari leiktíð og er nú komin með 28 mörk í deildinni. Þar með er hann búinn að jafna markamet Robbie Fowler frá leiktíðinni 1995-1996.

- Daniel Sturridge er sex mörkum að baki Luis með 22 mörk. 

- Martin Skrtel er nú kominn með sex mörk.

- Þetta var í annað sinn á leiktíðinni sem miðvörðurinn skorar tvívegis en hann skoraði tvö mörk á móti Arsenal.

- Hér má sjá myndir úr leiknum, af Liverpoolfc.com.

- Hér er viðtal við Brendan Rodgers af Liverpoolfc.com



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan