| Sf. Gutt

Spáð í spilin


                                                                           Southampton v Liverpool

Nýr mánuður hefur göngu sína á morgun. Góan er hafin og það táknar að það líður líður hægt og rólega að vori. Um leið þýðir það að nær dregur leiktíðarlokum á Englandi. Liverpool á þrjá erfiða útileiki í þessum þriðja mánuði árins. Á morgun er það heimsókn á suðurströndina þar sem hús verður tekið á Southampton. Verkefnið verður án vafa erfitt en heimamenn eru sterkir fyrir og hafa einir liða unnið Liverpool á Anfield á þessari leiktíð og héldu meira að segja hreinu á móti hættulegustu sókn landsins. Það eitt segir sitt um seiglu Southampton. 

Frá því Southampton hóf að leika á St Mary´s leikvanginum hefur Liverpool aðeins einu sinni sótt sigur þangað og það var í fyrstu heimsókninni þangað í janúar 2003. Liverpool hefur gengið allt í móti í síðustu heimsóknum og tapað í þremur síðustu. Á síðustu leiktíð tapaði Liverpool 1:3 og lék versta leik sinn eftir áramót og til vors. 

Á morgun má Liverpool ekki við slíkum leik. Liðið er í toppbaráttunni og verður að sýna sitt rétta andlit. Sigur færir Rauða herinn upp í þriðja sæti í deildinni því Manchester City leikur ekki í deildinni um helgina þar sem liðið mætir Sunderland í úrslitaleiknum um Deildarbikarinn. Á síðustu leiktíð lá við að leikmenn Liverpool mættu til leiks í Southampton með hangandi hendur. Nú dugar ekkert annað en fyllsta einbeiting. Eitt er að hugsa um Englandsmeistaratitlinn sem er alveg eðlilegt en umfram allt þarf að hugsa um að verja fjórða sæti deildarinnar. Það má alls ekki missa annað lið fram úr í baráttunni um það. 

Liverpool þarf að komast yfir þann hjalla að vinna Dýrlingana á útivelli. Það hlýtur að vera hægt. Ekkert dugar nema sigur en til þess þarf allt að ganga upp. Vörn Liverpool hefur verið óörugg í síðustu leikjum. Hún hefur verið gagnrýnd en liðið verst sem heild og því þurfa allir að leggjast á eitt við að verja markið. Það er ekki alltaf hægt að treysta á að sóknarmennirnir skori þrjú eða fjögur mörk. Ég spái því að vörnin haldi að þessu sinni. Liverpool nær að vinna 0:2. Luis Suarez fer að skora á nýjan leik og Daniel Sturridge heldur uppteknum hætti frá síðustu átta deildarleikjum. Það er langt í vorið en það verður gaman fyrir stuðningsmenn Liveprool að fylgjast með liðinu sínu á útmánuðum og áfram!       

YNWA

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan