| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin


Á sunnudaginn mætir Liverpool W.B.A á The Hawthorns. Sigur vannst í síðasta leik liðanna, á Anfield í október, en þar áður hafði WBA sigrað okkar menn þrisvar í röð! Fram að þeirri leiðindahrinu hafði Liverpool reyndar gengið ljómandi vel með W.B.A. Raunar svo vel að það var svo að segja gefið að landa sigri gegn þeim í hvert skipti sem liðin mættust. Vonandi hefur 4-1 sigur Liverpool á Anfield í október komið okkar mönnum aftur á gömlu, beinu brautina.



Brendan Rodgers mun sjálfsagt aldrei gleyma síðustu heimsókn Liverpool á The Hawthorns. Það var fyrsti Liverpool í deildinni, undir stjórn Rodgers, fyrsti leikur leiktíðarinnar 2012-13. Skemmst er frá því að segja að W.B.A, undir stjórn Steve Clarke sem hafði verið í þjálfarateymi Liverpool nokkrum vikum áður, valtaði yfir okkar menn. Lokatölur í þeim undarlega leik voru 3-0 fyrir heimamenn og tapið eins og köld vatnsgusa framan í Rodgers. 

Undir stjórn Clarke náði W.B.A. 8. sæti í Úrvalsdeild á síðustu leiktíð, sem var besti árangur liðsins frá stofnun Úrvalsdeildarinnar. Á þessari leiktíð hefur liðinu ekki gengið eins vel og í desember var Clarke látinn taka pokann sinn. Við starfi hans tók Pepe Mel, en til gamans má geta að hann tók við starfi Rafael Benitez hjá Tenerife þegar Benitez fór til Valencia um árið.

Stjóraskiptin hafa litlu breytt hjá W.B.A. Liðið er með 22 stig, þremur stigum frá fallsæti. Að vísu hefur gengið aðeins betur á heimavelli en á ferðalögum og liðið er enn taplaust heima á þessu ári. W.B.A sigraði Newcastle 1-0 á nýársdag og gerði 1-1 jafntefli við Everton 20. janúar, fleiri hafa nú heimaleikirnir ekki verið á árinu.  
 

Það hefur verið lítið vandamál hjá Liverpool í vetur að skora mörk. Þar hefur Luis Suarez farið fremstur í flokki, en hann skoraði einmitt þrennu í leik liðanna í október. Varnarleikurinn hefur hinsvegar verið heldur daprari hjá okkur mönnum, enda talsvert hringl á vörninni bæða vegna meiðslavandræða og annars vesens.

Liverpool hefur einungis mistekist einu sinni að skora á útivelli í vetur og alls hefur liðið skorað 33 mörk á ferðalögum sínum í Úrvalsdeild á yfirstandandi leiktíð. Að sama skapi hefur liðið aðeins einu sinni haldið hreinu í síðustu 10 útileikjum, enda hefur vörn okkar manna ekki verið eins og best verður á kosið í vetur.  

Vörnin hjá W.B.A hefur ekki heldur verið upp á það besta þannig að það má alveg eins búast við markaleik á sunnudaginn. Vonandi ber okkar mönnum gæfa til þess að skora fleiri mörk en andstæðingurinn að þessu sinni. 

Þrátt fyrir allt þetta markahjal ætla ég að leyfa mér að vera leiðinlegur og spá steindauðu 1-1 jafntefli. Ég biðst afsökunar og vona jafnframt að ég hafi kolrangt fyrir mér. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan