| Grétar Magnússon

Tap á Brúnni

Liverpool tapaði öðrum leik sínum í röð í deildinni 2-1 fyrir Chelsea á Stamford Bridge.  Eins og í síðasta leik voru það ákvarðanir dómaratríósins sem skildu eftir óbragð í munni og ekki bætti úr skák að tveir leikmenn meiddust í leiknum.

Brendan Rodgers gerði eina breytingu frá leiknum við Manchester City, Daniel Agger var fyrirliði og kom inn í vinstri bakvörðinn.  Aly Cissokho settist á bekkinn og í stað Victor Moses á bekknum kom ungliðinn Jordan Rossiter.


Strax á fyrstu mínútu braut Samuel Eto'o illa á Jordan Henderson úti á miðjum vallarhelmingi Chelsea.  Réttilega var dæmd aukaspyrna en í endursýningu mátti sjá að Eto'o fór með takkana í hnéð á Henderson og fyrir svona brot má vissulega gefa rautt spjald en Howard Webb dómari leiksins sá hinsvegar ekki ástæðu til að lyfta gula spjaldinu.  Réttlætinu var þó að einhverju leyti fullnægt því að upp úr aukaspyrnunni skoraði Martin Skrtel eftir að Luis Suarez og Branislav Ivanovic börðust um boltann sem féll fyrir fætur Slóvakans.  Staðan orðin 0-1 strax á þriðju mínútu og útlitið gott.

En sem fyrr héldu okkar menn ekki forystunni þegar á þarf að halda og heimamenn voru hreinlega mun betri það sem eftir lifði hálfleiks.  Þeir fengu nokkur ágæt færi til þess að jafna en jöfnunarmarkið kom þó ekki fyrr en á 17. mínútu og var smá heppnisstimpill yfir því.  Góður samleikur Chelsea manna á miðjunni varð til þess að þeir sóttu hratt fram að vítateig og barst boltinn eftir viðkomu í varnarmanni Liverpool fyrir fætur Eden Hazard sem þrumaði boltanum í markið frá vítateigslínu.

Áfram héldu heimamenn að þjarma að gestunum og þeir komust yfir á 34. mínútu með marki frá Samuel Eto'o.  Hann fékk sendingu fyrir markið frá Oscar og var fyrri til að pota í boltann sem lak undir hendurnar á Mignolet í markinu.  Þarna hefðu líklega bæði Mignolet og Skrtel getað gert betur en sem fyrr er heppnin bara alls ekki með okkar mönnum um þessar mundir.


Í síðari hálfleik voru Liverpool heldur beittari og hefðu getað jafnað leikinn.  Á 52. mínútu kom góð sending fyrir markið frá Jordan Henderson og skallaði Mamadou Sakho í þverslána, hefði boltinn verið aðeins neðar hefði hann hafnað í markinu því Petr Cech átti ekki möguleika á því að verja skallann.  Skömmu síðar komst Eto'o í gott færi þrátt fyrir að vera klárlega rangstæður þegar sendingin kom en Mignolet varði vel.  

Á 60. mínútu kom svo Brad Smith inná fyrir Joe Allen sem meiddist.  Smith er vinstri bakvörður að upplagi var settur á vinstri kantinn og gerði hann sitt besta.  Gestirnir héldu áfram að leita að jöfnunarmarki en því miður þá náðist það ekki, þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum felldi Samuel Eto't Luis Suarez inní vítateig beint fyrir framan nefið á Webb dómara sem sá auðvitað ekki ástæðu til að dæma neitt frekar en fyrri daginn. Niðurstaðan því 2-1 tap.

Chelsea:  Cech, Ivanovic (Cole, 30. mín.), Cahill, Terry, Azpilicueta, Luiz, Lampard (Mikel, 45. mín.), Oscar, Hazard, Willian, Eto'o (Torres, 87. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Schwarzer, Essien, Mata og Schurrle.

Mörk Chelsea: Eden Hazard (17. mín.) og Samuel Eto'o (34. mín.).

Gul spjöld: John Terry, David Luiz, Gary Cahill og Oscar.

Liverpool:  Mignolet, Johnson (Aspas, 83. mín.), Skrtel, Sakho (Toure, 90. mín.), Agger, Lucas, Allen (Smith, 60. mín.), Henderson, Sterling, Coutinho, Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Cissokho, Alberto og Rossiter.

Mark Liverpool:  Martin Skrtel (3. mín.).

Gult spjald: Glen Johnson.

Dómari leiksins:  Howard Webb.

Áhorfendur á Stamford Bridge:  41.614.

Maður leiksins:  Að öðrum ólöstuðum er það Mamadou Sakho sem hlýtur nafnbótina að þessu sinni.  Hann barðist sem fyrr vel í vörninni og komst næst því að jafna metin með góðum skalla í þverslá í síðari hálfleik.  Hans verður sárt saknað í vörninni í næstu leikjum en væntanlega verður hann frá vegna tognunar aftan í læri næstu vikurnar.

Brendan Rodgers:  ,,Gegn Manchester City vorum við frábærir en við náðum ekki góðum úrslitum.  Í dag sýndum við þessi gæði öðru hverju.  Við vorum óheppnir með fyrsta markið og seinna markið var lélegt frá okkar sjónarhorni.  Þetta sýnir manni, þrátt fyrir þunnskipaðan leikmannahóp, að við vorum góðir að halda okkur inní leiknum og ég er viss um að Chelsea eru ánægðir með sigurinn.  Liðið sýndi mikinn baráttuanda og vilja til að vinna, ég get ekki annað en hrósað þeim."

                                                                           Fróðleikur:

- Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool tapar tveimur deildarleikjum í röð undir stjórn Brendan Rodgers.

- Liverpool eru í fimmta sæti deildarinnar með 36 stig.

- Um síðustu áramót var liðið í 9. sæti með 28 stig eftir 20 leiki.

- Martin Skrtel skoraði sitt annað mark á tímabilinu.

- Jordan Henderson og Simon Mignolet eru einu leikmenn liðsins sem hafa spilað alla deildarleikina á tímabilinu.

- Jordan Rossiter var í fyrsta sinn í leikmannahóp liðsins.

- Rossiter er aðeins 16 ára gamall.

- Brad Smith spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið, hann er 19 ára gamall.

Hér má sjá myndir úr leiknum.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan