| Grétar Magnússon

Frábær sigur á West Brom

Liverpool unnu frábæran 4-1 sigur á West Bromwich Albion á Anfield. Luis Suarez gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu, varla þarf að giska á hver skoraði fjórða markið en það var auðvitað Daniel Sturridge.

Gerð var ein breyting á byrjunarliðinu af Brendan Rodgers en hann setti Lucas Leiva inn í staðinn fyrir Victor Moses. Virtist það strax frá fyrsta flauti dómarans hafa góð áhrif á miðjuna en hún var beittari en oft áður. Stjórnuðu heimamenn leiknum allan leikinn en ekki bara í fyrri hálfleik eins og svo oft áður á þessu tímabili.

Það fyrsta markverða sem gerðist var hinsvegar uppvið mark heimamanna er Victor Anichebe fékk boltann inná miðjum vítateig og sneri hann baki í markið þar sem Martin Skrtel gætti hans. Anichebe féll við og Skrtel náði til boltans, í endursýningunni mátti sjá að Skrtel togaði aðeins í treyju Anichebe en hvorki hann né samherjar hans vildu gera eitthvað úr málinu.  Skömmu síðar gerðist hið sama hinu megin er Suarez sendi á Sturridge og tók hlaupið inná vítateig en þar var togað í hann og hann lét sig falla en fékk ekkert dæmt.


Það var svo skömmu síðar er Suarez ákvað að taka málin í sínar hendur, hann fékk boltann frá Kolo Toure fyrir utan vítateig, sneri sér við og skeiðaði í átt að marki.  Þar urðu á vegi hans tveir eða þrír varnarmenn gestanna en enginn kom vörnum við, allra síst Jonas Olsson sem var klobbaður á vítateigslínunni, Suarez kominn einn í gegn og þrumaði boltanum neðst í fjærhornið. Glæsilegt mark!

Sex mínútum síðar leit annað glæsimark dagsins ljós.  Heimamenn léku vel saman á vallarhelmingi gestanna og boltinn barst út til vinstri þar sem Cissokho og einn varnarmanna bitust um boltann, hann skaust af fæti Cissokho og á vítateigslínunni var Suarez á ferðinni og ákvað að skalla boltann í átt að marki.  Boltinn söng í samskeytunum, óverjandi fyrir Myhill í markinu og svo glæsilegur skalli hefur ekki sést lengi á Anfield.  Skallinn var af um 17 metra færi og boltinn var á rúmlega 60 km hraða ! Stórglæsilegt !


Gestirnir virtust heillum horfnir og góð pressa Liverpool manna og gott samspil hélt gestunum í heljargreipum.  Vel útfærð aukaspyrna Suarez, þar sem hann sendi Gerrard lausan hægra megin í teignum hefði átt að verða að marki er Gerrard sendi fyrir en Martin Skrtel hitti ekki boltann úr upplögðu færi.  Í næstu aukaspyrnu ákvað Suarez að skjóta sjálfur og fór boltinn ekki svo langt framhjá.  Undir lok hálfleiksins sóttu svo heimamenn einu sinni sem oftar og endaði sóknin með því að Jordan Henderson, sem var frábær í leiknum, skaut hnitmiðuðu skoti en boltinn fór rétt yfir.  Skömmu áður en það gerðist vildu W.B.A. menn fá vítaspyrnu er Martin Skrtel var aftur á ferðinni í vafasömum varnaraðgerðum en dómarinn sá ekki ástæðu til að dæma.  Þeir áttu svo gott færi á lokamínútu fyrri hálfleiks er löng sending innfyrir náði til Anelka, hann náði að pota í boltann á undan Mignolet en sem betur fer var það laust og Skrtel hreinsaði frá.

Staðan 2-0 í hálfleik og nú var spurningin hreinlega hvort að heimamenn myndu nú skora í seinni hálfleik og um leið setja fyrsta mark tímabilsins í markið við Kop stúkuna.

Ekki var sú bið löng því 10 mínútum eftir að síðari hálfleikur hófst fengu heimamenn aukaspyrnu er brotið var á Sturridge vinstra megin við vítateiginn.  Steven Gerrard sendi fasta sendingu fyrir markið og þar var Suarez mættur til að skalla boltann í fjærhornið !  Þrennan fullkomnuð hjá þessum magnaða leikmanni og sú fyrsta sem hann skorar á Anfield fyrir félagið.  Þar með virtist sigurinn vera í höfn og aðeins spurning hversu mörg mörkin yrðu.  Skömmu eftir markið þrumaði Sturridge að marki innan úr teignum en boltinn fór í þverslána og niður í teiginn.

Gestirnir fengu svo vítaspyrnuna sem þeir voru kannski að bíða eftir en brotið var nú ekki neitt gríðarlega mikið.  Billy Jones lék inní teiginn þar sem leikmenn Liverpool þrengdu að honum og hann féll.  Jon Moss dómari leiksins sá ekki ástæðu til að dæma neitt en aðstoðardómarinn flaggaði strax og vítaspyrna var dæmd.  Á punktinn fór James Morrison og skoraði hann örugglega framhjá Mignolet.  Skömmu síðar fékk Chris Brunt fínt skotfæri úr teignum en skot hans fór yfir markið.


Það var svo Daniel Sturridge sem innsiglaði sigur Liverpool 13 mínútum fyrir leikslok.  Hann vann boltann á miðjunni og lék upp að vítateig vinstra megin.  Hann hafði marga sendingarmöguleika en ákvað að vippa boltanum yfir Myhill og í fjærhornið, enn eitt glæsimarkið hjá leikmönnum Liverpool þann daginn.  Þeir voru samt ekki hættir, sending frá Gerrard ætluð Suarez var send upp í loft af varnarmanni, þar var Úrúgvæinn samt ekkert að tvínóna við það þegar boltinn kom aftur niður og skaut að marki aftur fyrir sig.  Myhill stóð þar fyrir sínu og varð boltann í slána.

Fátt meira markvert gerðist það sem eftir lifði leiks.  Luis Suarez fékk heiðursskiptingu rétt fyrir leikslok og var honum klappað lof í lófa.  Lokatölur 4-1 og sigur á liði sem ekki tókst að vinna á síðasta tímabili í deildinni hafði litið dagsins ljós.


Liverpool:  Mignolet, Johnson (Kelly, 62. mín.), Toure, Skrtel, Sakho, Cissokho, Lucas, Henderson, Gerrard (Allen, 86. mín.), Suarez (Alberto, 89. mín.) og Sturridge.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Agger, Sterling og Moses.

Mörk Liverpool:  Luis Suarez (12., 17. og 55. mín.) og Daniel Sturridge (77. mín.).

West Bromwich Albion:  Myhill, Olsson, Ridgewell, McAuley, Jones, Yacob (Brunt, 69. mín.), Mulumbu, Amalfitano (Morrison, 45. mín.), Sessegnon, Anichebe og Anelka (Long, 69. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Daniels, Lugano, Vydra og Berahino.

Mark West Bromwich Albion:  James Morrison, víti, (66. mín.).

Gul spjöld:  Claudio Yacob og Jonas Olsson.

Dómari leiksins:  Jon Moss.

Áhorfendur á Anfield:  44.747.

Maður leiksins:  Það kemur auðvitað enginn annar til greina en Luis Suarez.  Frábær mörk og glæsileg þrenna.  Þegar sá gállinn er á honum er hann besti leikmaður deildarinnar.

Brendan Rodgers:  ,,Mér fannst fremstu tveir mennirnir okkar stórkostlegir.  Mörkin hjá Suarez voru ótrúleg.  Hann virkilega nýtti sér það pláss sem skapaðist fyrir framan miðverði þeirra.  Í fyrsta markinu sýndi hann ótrúlega ákveðni og sköpunargáfu er hann klobbaði Olsson og svo var skotið hnitmiðað.  Annað markið var mark liðsheildarinnar, við lékum vel á milli manna, fyrirgjöfin kom snemma og hann stýrði boltanum með skallanum frábærlega.  Þriðja markið var svo eftir snilldar sendingu frá Gerrard.  Hann hefði getað skorað meira, þrumaði í þverslá og fékk tækifæri hér og þar í kringum vítateiginn. Þetta var frábær frammistaða hjá liðinu allann tímann og virkilega ánægjuleg."

                                                                               Fróðleikur:

- Luis Suarez er nú kominn með sex mörk í deildinni í aðeins fjórum leikjum.

- Luis skoraði sína fyrstu þrennu á Anfield. Þetta er fjórða þrenna hans fyrir Liverpool.

- Hann er nú næst markahæstur í deildinni, með jafn mörg mörk og Sergio Aguero.

- Daniel Sturridge er sem fyrr markahæstur með átta mörk.

- Daniel er búinn að skora 10 mörk í öllum keppnum.

- Í fyrsta sinn á leiktíðinni var skorað í Kop stúku markið. Það var við hæfi að það skyldi vera markið sem fullkomnaði þrennu Luis Suarez.

- Suarez og Sturridge hafa skorað samtals 17 mörk í aðeins 11 Úrvalsdeildarleikjum þar sem þeir hafa báðir verið í byrjunarliði.

- Steven Gerrard spilaði sinn 450. leik fyrir félagið í Úrvalsdeild.

- Liverpool hafði fyrir þennan leik tapað þremur síðustu leikjum á móti W.B.A. og það án þess að skora mark.

- Sem fyrr situr liðið í 2. sæti deildarinnar með 20 stig, tveimur stigum á eftir Arsenal.

Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers sem tekið var eftir leikinn.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan