| Grétar Magnússon

Sigur í Noregi

Liverpool unnu sinn sjötta leik í röð á undirbúningstímabilinu er Valerenga lágu í valnum 1-4 á Ullevaal leikvanginum í Osló.


Brendan Rodgers stillti upp nokkuð sérstöku liði í byrjun en Jay Spearing var hægri bakvörður og Jon Flanagan var vinstri bakvörður.  Í markinu stóð Brad Jones og miðvarðapar var skipað þeim Sebastian Coates og Andre Wisdom.  Á miðjunni voru þeir Joe Allen, Luis Alberto og Jordan Henderson, úti á köntunum Stewart Downing og Jordon Ibe og frammi var Iago Aspas.

Gestirnir voru mun betri frá fyrstu mínútu og sóttu hart að marki Norðmannana.  Stewart Downing var líflegur á fyrstu mínútunum og strax á þriðju mínútu átti hann góða rispu upp hægri kantinn og sendi góða sendingu fyrir markið en varnarmenn heimamanna hreinsuðu frá.  Flestar tilraunir strönduðu svo á markverði Valerenga en hann átti góðan dag.

Á 31. mínútu tókst þó að brjóta ísinn er Iago Aspas komst í gott færi inná vítateig, hann vippaði boltanum yfir markvörðinn en boltinn hafnaði í þverslánni.  Varnarmönnum tókst að skalla boltann frá en ekki nógu langt því aðvífandi kom Luis Alberto og skaut hann knettinum viðstöðulaust í markhornið, ansi laglega gert hjá Spánverjanum og hans fyrsta mark fyrir félagið þar með komið !


En fjórum mínútum síðar sofnuðu Liverpool menn í vörninni er heimamenn fengu hornspyrnu og Gonzalez skallaði boltann í markið frá markteig.  Varnarleikurinn klárlega ekki nógu góður þarna.  En strax í næstu sókn Liverpool hefði átt að dæma vítaspyrnu er Aspas var greinilega felldur inní teig, dómarinn dæmdi hinsvegar markspyrnu og línuvörðurinn sá enga ástæðu til að flagga.  Þegar þarna var komið við sögu má segja að margir stuðningsmenn hafi verið farnir að kannast við sig.  Liðið búið að fá mörg færi en aðeins nýta eitt þeirra, mótherjinn búinn að nýta sitt eina færi og augljós vítaspyrna ekki dæmd.

En leikmenn Liverpool lögðu ekki árar í bát og náðu forystunni rétt fyrir leikhlé.  Stewart Downing fékk góða sendingu innfyrir vörnina og lék uppað endamörkum hægra megin í teignum.  Hann sendi boltann hárnákvæmt fyrir markið þar sem Iago Aspas var mættur og sendi boltann yfir línuna.  Vel spilað og ekki stóð steinn yfir steini í vörn heimamanna þarna.

Skömmu síðar var flautað til hálfleiks og Brendan Rodgers gerði þá 10 skiptingar.  Aðeins Andre Wisdom hélt sæti sínu af þeim sem byrjuðu og inná komu þeir Simon Mignolet, Kolo Toure, Martin Kelly, Jose Enrique, Lucas Leiva, Steven Gerrard, Philippe Coutinho, Raheem Sterling, Fabio Borini og Oussama Assaidi.

Áfram héldu gestirnir að halda öllum völdum á vellinum og á 54. mínútu kom þriðja markið.  Hornspyrna var tekin og Kolo Toure og Martin Kelly gerðu árás á boltann og fór boltinn í markið með viðkomu af Kelly.  Skömmu síðar fengu Liverpool menn aftur hornspyrnu og þá skallaði Toure boltann í slána.


Fabio Borini setti pressu á varnarmenn Valerenga á 63. mínútu og misskilningur þeirra á milli varð til þess að Borini komst í ágætt færi en náði ekki að koma boltanum í markið.  Ítalinn var svo aftur á ferðinni á 76. mínútu er skot hans fór rétt yfir markið eftir að Sterling hafði sent boltann til hans.

Steven Gerrard átti svo gott skot inn úr vítateignum eftir gott samspil en boltinn fór rétt yfir.  Rétt fyrir leikslok hefðu heimamenn svo getað jafnað er Toure og Wisdom töluðu ekki saman en skot Borven fór framhjá.

Á 90. mínútu kom svo fjórða markið og þar var Sterling að verki.  Hann fékk boltann eftir gott samspil Coutinho og Assaidi og átti auðvelt verk fyrir höndum að setja boltann í markið.  Skömmu síðar var flautað til leiksloka og öruggur 1-4 sigur í höfn.

Liverpool:  Jones (Mignolet 46. mín.), Spearing (Kelly, 46. mín.), Coates (Toure, 46. mín.), Wisdom, Flanagan (José Enrique, 46. mín.), Allen (Lucas, 46. mín.), Luis Alberto (Gerrard, 46. mín.), Henderson (Coutinho, 46. mín.), Downing (Sterling, 46. mín.), Ibe (Assaidi, 46. mín.) og Aspas (Borini, 46. mín.).

Mörk Liverpool:  Luis Alberto (31. mín.), Iago Aspas (44. mín.), Martin Kelly (54. mín.) og Raheem Sterling (90. mín.).

Hér má sjá myndir úr leiknum.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan