| Heimir Eyvindarson

Góður sigur á Fulham

Liverpool gerði góða ferð til höfuðborgarinnar í dag og lagði Fulham að velli 1-3. Daniel Sturridge skoraði öll mörkin. 

Brendan Rodgers stillti upp nokkuð breyttu liði frá undanförnum leikjum, en gerði þó ekki eins róttækar breytingar og margir höfðu spáð. André Wisdom og Sebastian Coates fengu tækifæri í vörninni og á bekkinn settist hinn 17 ára gamli Lloyd Jones sem hefur verið einn besti maður U-18 ára liðs Liverpool í vetur. Jonjo Shelvey kom inn í byrjunarliðið fyrir Steven Gerrard.

Því hafði verið spáð að Martin Skrtel fengi loks aftur tækifæri eftir langvarandi setu á bekknum, en Slóvakinn var ekki í hóp í dag vegna veikinda.

Heimamenn í Fulham byrjuðu leikinn betur og fyrstu 10 mínúturnar eða svo sást lítið til okkar manna. Smátt og smátt komst Liverpool þó inn í leikinn og á næstu mínútum áttu bæði Sturridge og Coutinho hættuleg tilþrif upp við mark Fulham. 

Það voru heimamenn sem gerðu fyrsta markið. Það kom á 33. mínútu og lyktaði reyndar illilega af rangstöðu. Markið skoraði Dimitar Berbatov með góðum skalla, en honum leiðist ekki að skora gegn Liverpool. 

Einungis þremur mínútum síðar náði Liverpool að svara fyrir sig. Þá átti André Wisdom glæsilega sendingu fram á Sturridge sem fíflaði Aaron Hughes í vörn Fulham áður en hann smellti honum í nærhornið framhjá Mark Schwarzer. Vel að verki staðið hjá Sturridge.

Á 41. mínútu var Coates úti að aka í vörn Liverpool og Berbatov komst í hörkufæri. André Wisdom náði hinsvegar með miklu snarræði að bjarga málunum. Staðan 1-1 á Craven Cottage í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri. Gestirnir frá Liverpool mættu seint til leiks og fyrstu 10-15 mínúturnar voru eign gestgjafanna. Á 61. mínútu vildi Fulham fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Lucas Leiva inn í teig. Mark Halsey dómari leiksins kaus hinsvegar að láta flautuna vera í þetta skiptið. 

Tveimur mínútum síðar komust okkar menn síðan yfir í leiknum með marki frá Daniel Sturridge. Markið kom eftir skemmtilega syrpu frá Coutinho sem endaði með því að skot Brassans hafnaði í Aaron Hughes og þaðan barst boltinn til Sturridge sem stýrði honum af mikilli yfirvegun í markið. Staðan orðin 1-2.

Á 76. mínútu máttu engu muna að Fulham jafnaði leikinn. Aaron Hughes átti þá góðan skalla að marki eftir hornspyrnu, en Reina varði frábærlega. Á 86. mínútu kom þriðja mark leiksins. Coutinho átti þá frábæra sendingu á Sturridge sem lyfti boltanum laglega yfir Schwarzer. Þrennan fullkomnuð hjá Sturridge og sigurinn í höfn. 

Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Coates, Wisdom (Enrique á 46. mín.), Leiva, Shelvey (Shelvey á 77. mín.), Downing, Henderson, Coutinho (Coady á 88. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Brad Jones, Lloyd Jones, Assaidi og Suso.

Mörk Liverpool: Daniel Sturridge á 36., 63. og 86. mín.
 
Gult spjald: Glen Johnson.
 
Fulham: Schwarzer, Hughes, Riether, Hangeland, Richardson (Emanuelson á 15. mín.), Enoh, Karagounis (Riise á 83. mín.), Duff, Ruiz, Kacaniclik (Petric á 71. mín.) og Berbatov.  Ónotaðir varamenn: Etheridge, Senderos, Rodallega og Frimpong. 

Mark Fulham: Dimitar Berbatov á 33. mín. 

Áhorfendur á Craven Cottage: 26.837
 
Maður leiksins: Daniel Sturridge. Það er ekki hægt að líta framhjá Sturridge að þessu sinni. Hann var mjög líflegur í leiknum og skoraði öll mörkin. Hann hefði reyndar getað gert mun fleiri mörk, sem við skulum vona að gefi góð fyrirheit fyrir næsta tímabil þegar liðið verður farið að slípast enn betur til.

Brendan Rodgers: Daniel var frábær í dag og  skoraði þrjú góð mörk. Við hefðum reyndar vel getað gert nokkur í viðbót. Við spiluðum mjög vel á köflum, sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta tímabil snerist alltaf um að búa til góðan grunn til þess að byggja ofan á. Við horfum bjartsýnir til næstu leiktíðar. Við höfum sýnt það að við erum alltaf að verða betri og betri. 

Fróðleikur:

- Daniel Sturridge hefur nú skoarð 11 mörk í 15 leikjum fyrir Liverpool sem verður að teljast góður árangur. Þar af hefur hann skorað 10 mörk í 13 deildarleikjum.

- Þetta var fyrsta þrenna Sturridge í Úrvalsdeild.

- Liverpool vann Fulham samanlagt 7-1 í deildinni á þessari leiktíð. Það er talsvert bæting frá síðustu leiktíð þegar Lundúnaliðið sigraði samanlagt 2-0.

- Jamie Carragher, sem var fyrirliði í dag í fjarveru Steven Gerrard, hefur spilað fleiri leiki gegn Fulham en nokkur annar leikmaður í sögu Liverpool. Sumir þessara leikja eru Carra eftirminnilegir. Til að mynda skoraði hann mark á Craven Cottage í 4-0 sigri í desember 2006. Þá var hann rekinn út af vellinum í nóvember 2009 í 3-1 tapi Liverpool. 

- Liverpool hefur nú nælt sér í 28 stig á útivelli í vetur. Það er þremur stigum betra en á síðasta tímabili. Liverpool hefur aðeins tapað 5 leikjum á útivelli í vetur, en einungis Manchester liðin og Arsenal hafa tapað færri leikjum úti. 

- Fulham hefur nú gert 19 mörk í 24 leikjum gegn Liverpool í deildinni. 16 markanna hafa komið á Craven Cottage. 

- Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

- Hér er viðtal við Brendan Rodgers af sömu síðu. 



 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan