| Grétar Magnússon

Reina, Johnson og Enrique með gegn Arsenal

Brendan Rodgers býst því að þeir Jose Enrique, Glen Johnson og Pepe Reina verði allir til taks þegar Liverpool mæta Arsenal í London á miðvikudagskvöldið.


Johnson var ekki með gegn Oldham á sunnudaginn var þar sem hann fann aðeins til í vöðva aftaní læri en Rodgers er nokkuð viss um að hann muni geta valið úr næstum því öllum leikmannahóp sínum fyrir leikinn á miðvikudaginn.

Hann hafði þetta að segja á blaðamannafundi fyrr í dag:  ,,Við erum með leikmenn sem eru að koma til baka úr meiðslum, sem er gott.  Glen Johnson er kominn til baka, Jose Enrique sömuleiðis og Pepe Reina líka, við munum því ferðast með sterkan leikmannahóp og það hugarfar að við getum náð góðum úrslitum."

Rodgers er fullviss um að leikmenn sínir verði með hugann við efnið til að reyna að ná í þrjú stig.

Hann bætti við:  ,,Þetta er mjög mikilvægur leikur.  Ég myndi ekki segja að þetta sé leikur sem hreinlega verði að vinnast, en þetta er leikur þar sem, ef við tökum gærdaginn út, þá hefur liðið sem  hefur spilað undanfarið í deildinni gott sjálfstraust."

,,Við vitum að þetta er erfiður leikur fyrir okkur, en þetta er auðvitað leikur sem við horfum á til að reyna að vinna - og leikur sem við getum unnið.  Á okkar degi getum við farið og unnið - það er engin spurning um það."

,,Við spiluðum við Arsenal snemma á tímabilinu og vegna ýmissa ástæðna vorum við ekki uppá okkar besta og töpuðum leiknum verðskuldað.  En mér finnst við hafa bætt okkur, bæði andlega og taktískt séð og vonandi verður þetta því erfiður leikur fyrir þá líka."



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan