| Grétar Magnússon

Lánssamningi Nuri Sahin rift

Tilkynnt var í dag að lánssamningi milli Real Madrid og Liverpool um Nuri Sahin hafi verið rift. Sahin fer nú á láni til Borussia Dortmund þar sem hann lék áður en hann fór til Real.


Samningurinn var í upphafi ætlaður til loka tímabilsins en ákvæði var í honum sem leyfði Liverpool að rifta samningi en þó með samþykki Real Madrid og Sahin sjálfs.  Ljóst var að tækifæri hans voru orðin fá með aðalliðinu og sögusagnir voru uppi um að forráðamenn Real Madrid væru ekki ánægðir með hversu lítið hann var að spila.

Nuri Sahin spilaði alls 12 leiki með félaginu frá því í ágúst og skoraði hann þrjú mörk, þar með talið sigurmarkið gegn West Bromwich Albion á útivelli í 3. umferð Deildarbikarsins í lok september. Hann skoraði reyndar bæði mörk Liverpool í leiknum. Í næsta leik á eftir skoraði hann þriðja mark sitt þegar Liverpool vann Norwich 2:5. Nuri, sem varð fyrstur Tyrkja til að spila með Liverpool hefur lítið leikið síðustu vikurnar og þótti sumum hann ráða illa við hraðann í ensku knattspyrnunni.

Nuri Sahin heldur nú á fornar slóðir, til uppeldis félags síns, Borussia Dortmund. Þar er hann í hávegum hafður frá því hann var einn af lykilmönnum liðsins þegar það varð þýskur meistari 2011. Liðið vann þýsku deildina líka á síðustu leiktíð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan