| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Stærsti leikur helgarinnar í Úrvalsdeildinni fer fram á sunnudaginn á Old Trafford þegar okkar menn heimsækja erkifendurna í Manchester United.  Leikar hefjast kl. 13:30.


Síðast mættust þessi lið á Old Trafford þann 11. febrúar í fyrra og var þá aðalumræðuefnið eitthvað sem snerist lítið um knattspyrnu.  Allir muna eftir umræðunni um Luis Suarez og Patrice Evra og litaðist öll umræða fyrir þann leik um hvernig þeir myndu haga sér þegar leikmenn tækjust í hendur fyrir leik.  Ekki þarf að fjölyrða að það sem gerðist hafði svo enn meiri áhrif á umræðuna eftir leik.  Ekki er þörf eða vilji til að rifja það alltsaman upp hér.

Þess ber þó að geta að leikurinn tapaðist 2-1 þar sem Wayne Rooney skoraði bæði mörk United manna með stuttu millibili eftir að síðari hálfleikur hófst.  Luis Suarez minnkaði svo muninn tíu mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Ef fimm síðustu leikir liðanna í Úrvalsdeildinni á Old Trafford eru skoðaðir má sjá að Liverpool hafa aðeins unnið einn af þeim en það var hinn frækni 1-4 sigur í mars árið 2009.  Eins og áður sagði tapaðist síðasti leikur þar 2-1, tímabilið þar á undan var 3-2 tap niðurstaðan og árið 2010 var 2-1 tap.  Það má því segja að mjótt hafi verið á munum síðustu árin en United ávallt haft betur.

Síðustu sex leikir gegn United í deild (heima og heiman) gefa ekki góða mynd fyrir okkur Liverpool menn en formið er sem hér segir:  TTSJTT.  Aðeins einn sigur og eitt jafntefli í þessum leikjum og fjögur töp.

Leikjahæstu leikmenn liðanna í þessum viðureignum eru United megin Ryan Giggs sem hefur spilað hvorki meira né minna en 46 sinnum við Liverpool á ferlinum.  Hinumegin er það Jamie Carragher sem hefur spilað 33 leiki við United, einum leik betur en Ian Rush.  Þess má líka geta að Steven Gerrard hefur skorað 7 mörk í 29 leikjum gegn United í gegnum tíðina, hann skoraði t.d. í síðasta leik liðanna, hinu sára tapi 1-2 á Anfield í haust.

En snúum okkur núna að máli málanna.  Engin ný forföll eru í leikmannahópi Liverpool eftir síðasta leik gegn Mansfield.  Sem fyrr eru þeir Martin Kelly, Jose Enrique og Fabio Borini frá vegna meiðsla en það styttist þó í endurkomu Ítalans en hann er byrjaður að æfa að nýju.  Daniel Sturridge mun líklega spila sinn fyrsta leik fyrir félagið í Úrvalsdeildinni en líklegast er talið að hann verði ekki í byrjunarliðinu að þessu sinni.  Þeir Daniel Agger og Steven Gerrard voru hvíldir um síðustu helgi og ættu að vera vel ferskir til að takast á við leikinn.


Af United er það að segja að Wayne Rooney verður ekki með en þó ber að taka þær fréttir með fyrirvara því oft hafa fréttir af meiðslum lykilmanna United verið birtar en viðkomandi leikmaður mætir svo sterkur til leiks.  Alex Ferguson sagði þó á blaðamannafundi fyrir leikinn að þeir Nani og Anderson væru orðnir leikfærir og væru í leikmannahóp.

Þá er það spáin sjálf:  Undirritaður telur að þetta verði hörkuleikur eins og þeir eru flestir milli þessara liða.  Vonandi verður þó rætt um knattspyrnuna sjálfa eftir leikinn en ekki aðra ómerkilegri hluti.  Vissulega má oft deila um dómarann eftir svona stórleiki og ekki höfum við Liverpool menn farið varhluta af slælegri dómgæslu það sem af er tímabils.  Tilfinningin er sú að Robin van Persie verði hreinlega of erfiður ljár í þúfu og sóknarþungi heimamanna verði hreinlega of mikill, niðurstaðan 3-1 tap þar sem síðustu tvö mörk heimamanna líta ekki dagsins ljós fyrr en seint í leiknum.

Hér eru myndir, af vefsíðu Daily mail, frá rimmum liðanna í gegnum árin.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan