| Grétar Magnússon

Ég hef þurft að venjast nýjum leikstíl

Nuri Sahin viðurkennir að hann hafi þurft að venjast nýjum leikstíl á Englandi.  Sahin hefur spilað 12 leiki á tímabilinu en hann er sem kunnugt er á láni frá Real Madrid.


Þessi tyrkneski miðjumaður sló í gegn í þýsku Bundesligunni og var þar kjörinn besti leikmaðurinn árið 2011 segist nú vera að ná tökum á lífinu í ensku Úrvalsdeildinni.

,,Þetta er mjög erfið deild og hvert einasta lið hefur sinn eigin stíl," útskýrir hann í leikskránni fyrir heimaleikinn við Southampton.  ,,Ég hef aldrei spilað í leikjum líkt og gegn Stoke og Everton áður."

,,Hvert einasta lið spilar sinn eigin bolta og þetta er alltsaman nýtt fyrir mér.  Þetta er sennilega það sem hefur komið mér mest á óvart en það gerir mig líka ánægðan vegna þess að þetta er mjög erfið deild og hvert einasta lið er með sína eigin sögu."

Sahin hefur skorað þrjú mörk það sem af er á tímabilinu en í stað þess að vilja sýna fólki að hann ,,sé maðurinn" þá vill hann einbeita sér að því að hjálpa Brendan Rodgers að búa til einstakan knattspyrnustíl hjá félaginu.

Hann sagði:  ,,Auðvitað er gaman að skora mörk en fyrir mér er jafn mikilvægt að mitt hlutverk verði til þess að við stjórnum leikjum, spilum góða knattspyrnu, sendum boltann vel á milli okkar og byggjum upp góðan liðsanda."

,,Fyrir mér eru þessir hlutir mikilvægari en að skora mörk og líta út fyrir að vera aðalmaðurinn.  Það er lykilatriði að við spilum sem lið og höfum eitthvað sérstakt sem önnur lið hafa ekki.  Við viljum að fólk horfi á okkur og segi, Ó, þetta er Liverpool og þeir eru að spila sinn eigin bolta."

,,Ég kom hingað vegna þess að stjórinn sagði mér hvernig hann vill spila og það er mikilvægt fyrir leikmann að hafa þá þekkingu.  Maður verður að velja rétt vegna þess að ég er ekki sá leikmaður sem vill spila í liði sem kýlir boltann fram völlinn."

,,Það hvernig Brendan Rodgers vill spila er eitthvað sem mér líður vel með."

Sahin hefur spilað mismunandi stöður á miðjunni það sem af er en hann viðurkennir að hans besta staða sé aftarlega á miðjunni.  ,,Ég hef spilað allan minn feril aftar og það er mín staða," sagði þessi 24 ára gamli leikmaður.  ,,En ég hef líka spilað framarlega hér.  Það var nýtt fyrir mér en ég reyndi að hjálpa liðinu og gera mitt besta.  En ef ég mætti velja mína stöðu þá myndi hún vera aftarlega því mér líður betur með að spila aftar á vellinum."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan