| Grétar Magnússon

Markalaust í endurkomu Rodgers

Liverpool og Swansea skildu jöfn í markalausu jafntefli í Wales fyrr í dag.  Leikurinn var kaflaskiptur og þónokkuð fjörugur á köflum.


Rodgers gerði 7 breytingar frá liðinu sem spilaði við Young Boys á fimmtudagskvöldið en þeir Jordan Henderson og Stewart Downing héldu sæti sínu í liðinu að þessu sinni, Downing spilaði vinstri bakvörð og Henderson var á miðjunni.

Í fyrri hálfleiknum litu bestu færi leiksins dagsins ljós og komst Raheem Sterling næst því að skora er hann þrumaði boltanum í þverslána með skoti úr teignum.  Jose Enrique skoraði reyndar mark í en það var dæmt af vegna rangstöðu og var það tæpt svo ekki sé meira sagt.

Jose Enrique fékk einnig gott færi í fyrri hálfleiknum eftir góðan undirbúning Glen Johnson en sá síðarnefndi spilaði frábærlega í fyrri hálfleiknum, skeiðaði oft upp hægri vænginn og skapaði hættu uppvið mark heimamanna.

En Swansea menn fengu einnig sín færi í fyrri hálfleiknum og var það helst Pablo Hernandez sem var hættulegur en hann átti tvö góð skot rétt framhjá marki Reina.

Margir héldu að mörkin myndu líta dagsins ljós í seinni hálfleik en sú varð reyndar ekki raunin.  Heimamenn byrjuðu betur og Hernandez skaut yfir úr aukaspyrnu ekki langt fyrir utan vítateig.  Ashley Williams, varnarmaður Swansea, sem komst í fréttirnar fyrir leik vegna ummæla um Luis Suarez var einnig hættulegur í hornspyrnum sem heimamenn fengu og þurfti Joe Allen í eitt skiptið að slæma fæti í boltann til öryggis eftir skalla frá Williams en boltinn virtist reyndar á leiðinni framhjá.

Luis Suarez lét líka að  sér kveða hinumegin og Tremmel markvörður Swansea þurfti að gera vel til að verja skot frá Úrúgvæmanninum innan úr teignum.  Swansea megin gerði Reina vel með góðu úthlaupi þegar Nathan Dyer náði boltanum af værukærum Downing hægra megin, Dyer lék inní teiginn en Reina gerði vel og lentu þeir svo saman sem varð til þess að hlúa þurfti aðeins að Spánverjanum.  Hann hristi það af sér og mátti sjá mar í andliti hans eftir þessi viðskipti.


Þrettán mínútum fyrir leikslok komu þeir Joe Cole og Jonjo Shelvey inná fyrir þá Henderson og Downing.  Besta færi seinni hálfleiks og sennilega alls leiksins fengu svo þeir Sterling og Suarez er þeir voru einir gegn varnarmanni Swansea eftir hornspyrnu heimamanna.  Suarez lék fram og sendi til hægri á Sterling sem sendi boltann aftur fljótt til Suarez en því miður var sendingin ekki nógu góð og varnarmenn Swansea náðu að koma sér á sinn stað í tæka tíð.  Suarez náði þó skoti á markið en það var beint á markvörðinn.

Heimamenn pressuðu eftir þetta en komu sér ekki í nein alvöru færi, Hernandez tók aftur aukaspyrnu og í þetta sinn þurfti Reina að verja boltann.  Gestirnir reyndu svo í blálokin að stela sigrinum, Jonjo Shelvey náði góðu skoti fyrir utan teig en markvörðurinn varði vel.

Leiknum lauk því sem áður sagði með markalausu jafntefli.

Swansea:  Tremmel, Chico, Williams, Rangel, Davies, Britton, Pablo, Routledge (Dyer, 67. mín.), De Guzman (Agustien, 85. mín.), Michu og Shechter (Ki, 46. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Cornell, Monk, Tiendalli og Lita.

Gult spjald:  Chico.

Liverpool:  Reina, Johnson, Agger, Skrtel, Downing (Cole, 77. mín.), Allen, Henderson (Shelvey, 77. mín.), Gerrard, Jose Enrique, Sterling og Suarez.  Ónotaðir varamenn:  Jones, Coates, Carragher, Sahin og Suso.

Dómari leiksins:  Jonathan Moss.

Áhorfendur á Liberty Stadium:  20.621.

Maður leiksins:  Glen Johnson var einna bestur Liverpool manna í þessum leik.  Þótt að frammistaða hans hafi dalað í síðari hálfleik, eins og reyndar alls liðsins, þá var hann sífellt að skapa hættu í fyrri hálfleiknum og hefur spilamennska hans á þessu tímabili verið til fyrirmyndar.

Brendan Rodgers:  ,,Ég var virkilega ánægður með gæði leiks okkar í dag, mér fannst uppbygging á spili okkar góð og við náðum góðum takti.  Mér fannst við hinsvegar þurfa örlítið meiri trú á verkefninu á síðasta þriðjungi vallarins.  Það voru tækifæri í kringum vítateiginn þar sem hefðum mátt vera sneggri."

Fróðleikur:

- Aðeins eitt mark hefur verið skorað í síðustu þrem deildarleikjum liðanna.

- Martin Skrtel lék leik nr. 190 í öllum keppnum fyrir félagið.

- Liverpool eru áfram í 11. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 13 leiki.

- Síðasti leikur liðanna á Liberty Stadium endaði með 1-0 sigri heimamanna.

- Sá leikur reyndist sá síðasti sem Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool í og sá síðasti sem Brendan Rodgers stýrði Swansea í.

- Raheem Sterling hefur tekið þátt í flestum leikjum allra leikmanna félagsins á tímabilinu eða 21.

Hér eru myndir úr leiknum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan