| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur Liverpool er heldur betur stórleikur fyrir Brendan Rodgers en hann heimsækir sína gömlu félaga í Swansea á Liberty Stadium á sunnudaginn.  Swansea sitja í 10. sæti og Liverpool eru í því 11. og munar aðeins einu stigi á þeim.


Eins og flestir muna komu Swansea upp úr næst efstu deild á síðasta tímabili og áttu gott tímabil í Úrvalsdeildinni undir stjórn Rodgers.  Liðin hafa ekki oft mæst í gegnum tíðina enda hafa þau sjaldan verið saman í deild og ekki oft dregist saman í bikarkeppnum á Englandi.

Í síðustu þrem leikjum liðanna hafa Swansea menn haft betur í tveimur af þeim, liðin mættust í fyrsta sinn í 21 ár í fyrra þegar Swansea komu á Anfield og náðu í 0-0 jafntefli.  Liðin mættust svo í síðasta leik tímabilsins í vor og þar fóru Swansea menn með sigur af hólmi 1-0.  Þann 31. október síðastliðinn komu Swansea menn svo í heimsókn í Deildarbikarnum og unnu þeir nokkuð öruggan sigur 1-3.  Það er því ljóst að Liverpool menn munu eiga erfiðan leik fyrir höndum á sunnudaginn.

Ef heimaleikir Wales liðsins eru skoðaðir á þessu tímabili þá hafa þeir unnið tvo, gert jafntefli í þremur og tapað einum leik.  Gestirnir frá Liverpool hafa hinsvegar unnið einn útileik á tímabilinu, gert jafntefli í þremur og tapað einum.  Miðað við þessa tölfræði getur því allt gerst í þessum leik og jafnvel mætti tippa á jafntefli.


Liverpool eiga ekki við nein ný meiðslavandræði að stríða en Andre Wisdom, sem haltraði af velli í fyrri hálfleik í leiknum gegn Young Boys á fimmtudagskvöldið ætti að vera leikfær skv. Brendan Rodgers.  Auk þess gat Rodgers gat hvílt nokkra lykilmenn gegn Young Boys í vikunni og ætti því að geta stillt upp sínu sterkasta liði (fyrir utan Lucas) á sunnudaginn en þeir Daniel Agger, Glen Johnson, Joe Allen svo einhverjir séu nefndir spiluðu ekkert í Evrópudeildinni.

Swansea menn hafa staðið sig gríðarlega vel það sem af er tímabilsins og hefur Michael Laudrup haldið áfram þar sem frá var horfið með góðri spilamennsku og góð kaup hans frá Spáni hafa svo sannarlega slegið í gegn.  Miðjumaðurinn Michu er markahæstur þeirra á tímabilinu með 7 mörk og hefur hann verið ein bestu kaup tímabilsins það sem af er.  Spánverjinn Pablo Hernández hefur einnig komið sterkur inn og sóknarleikur liðsins hefur verið mjög góður þó svo að þeir hafi nú reyndar bara skorað einu marki meira en Liverpool það sem af er.  Bæði lið hafa fengið 16 mörk á sig og því má klárlega búast við því að mörk líti dagsins ljós í leiknum.

Mín spá er sú að erfiður útileikur er fyrir höndum og leikmenn Swansea verða meira mótiveraðir gegn sínum fyrrverandi stjóra.  Því miður verður undirritaður því að spá fyrir um 2-1 tap í leiknum en auðvitað er jafn mikil von í brjósti að spáin rætist ekki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan