| Grétar Magnússon

Markaregn í Sviss !

Fyrsti leikur liðsins í Evrópudeildinni var sannkölluð markasúpa í Sviss.  Leikmenn Liverpool skoruðu fimm mörk þegar upp var staðið og vann sigur í fyrsta sinn frá því á móti Hearts í Skotlandi í síðasta mánuði.

Eins og við var að búast stillti Rodgers upp mikið breyttu liði frá leiknum við Sunderland um síðustu helgi.  Skemmst er frá því að segja að enginn af þeim leikmönnum sem hófu leikinn gegn Sunderland voru í byrjunarliði í dag.  

Jamie Carragher var fyrirliði og þeir Andre Wisdom, Oussama Assaidi og Suso Fernandez voru allir í fyrsta sinn í byrjunarliði félagsins.  Auk þess var Daniel Pacheco í liðinu en hann hafði ekki spilað leik með félaginu síðan hann kom inná sem varamaður gegn FC Utrecth í Evrópudeildini í desember 2010 !

Leikurinn var aðeins fjögurra mínútna gamall er fyrsta markið leit dagsins ljós og var það klaufalegt í meira lagi.  Stewart Downing var með boltann úti hægra megin, lék upp að endamörkum og sendi boltann fyrir.  Engin hætta virtist vera á ferðum því enginn leikmanna Liverpool var nálægt varnarmönnum Young Boys.  Einn þeirra, Juhani Ojala, náði að skalla frá en það fór ekki betur en svo að hann skallaði boltann beint í samherja sinn og þaðan skoppaði boltinn í markið.

Strax eftir markið fóru heimamenn í sókn og Raul Bobadilla komst í gott færi en Brad Jones varði skot hans vel í horn.  Skömmu síðar náði Assaidi góðu skot að marki en boltinn hafnaði í varnarmanni og fór svo framhjá.

Eftir hálftíma leik voru heimamenn í sókn og Jose Enrique braut á einum þeirra rétt við vítateigslínuna og dómarinn dæmdi aukaspyrnu en heimamenn voru ekki mjög hrifnir af því, vildu meina að brotið hefði átt sér stað innan teigs.  Alexander Farnerud tók aukaspyrnuna en lítil hætta skapaðist af henni.

Suso komst svo nálægt því að skora annað mark gestanna er hann lék framhjá nokkrum varnarmönnum en hann ákvað að senda boltann fyrir markið í stað þess að skjóta en þar var enginn samherji mættur til að taka við boltanum.

Skömmu síðar höfðu gestirnir jafnað.  Jose Enrique gerði vel er hann náði boltanum af einum leikmanni Young Boys inni í vítateig en hann náði ekki að hreinsa boltann frá marki, heldur potaði hann boltanum lengra út í vítateiginn beint á Nuzzolo sem átti auðvelt verk fyrir höndum með því að setja boltann í markið.

En leikurinn var ekki lengi jafn því leikmenn Liverpool sóttu fram völlinn og fengu hornspyrnu.  Nuri Sahin spyrnti fyrir markið og þar reis Andre Wisdom hæst í teignum og skallaði boltann í hliðarnetið hægra megin.  Wisdom er nú fjórði yngsti markaskorari í sögu félagsins í Evrópukeppni. Staðan í hálfleik var því 2-1 fyrir gestina.

Young Boys byrjuðu betur í seinni hálfleik og voru þeir miklu líklegri fyrstu mínúturnar.  Eftir sjö mínútna leik í síðari hálfleik höfðu þeir jafnað en þar var að verki varnarmaðurinn sem skoraði sjálfsmarkið slysalega í fyrri hálfleik.  Bobadilla sendi fyrir markið og þar skallaði Ojala í markið framhjá Jones sem kom engum vörnum við. Hann var þar með búinn að skora fyrir bæði lið! Skömmu síðar voru svisslendingarnir svo komnir yfir.  Bobadilla náði boltanum af Jamie Carragher, lék framhjá Suso og renndi boltanum á Zarate.  Zarate lék inná vítateig og lyfti boltanum yfir Jones í markinu.  Glæsilega gert og nú héldu líklega margir að mörkin yrðu ekki fleiri.

Brendan Rodgers skipti Fabio Borini inná fyrir Pacheco á 61. mínútu til að hressa uppá sóknarleikinn og Ítalinn náði í hornspyrnu stuttu eftir að hann kom inná.  Hornspyrnan var tekin og þar reis Sebastian Coates hæst og skallaði boltann í fjærhornið.  Staðan orðin 3-3 og leikmenn voru ekki hættir.

Þegar fimmtán mínútur lifðu leiks kom svo sjöunda mark leiksins og það var gestanna.  Borini átti góða sendingu þvert yfir vítateiginn á Jordan Henderson sem sendi boltann strax í fyrstu snertingu á Jonjo Shelvey sem skoraði auðveldlega framhjá markverði Young Boys.  Shelvey hafði áður komið inná fyrir Assaidi á 66. mínútu.



Jonjo Shelvey var svo ekki hættur því á 88. mínútu lék hann upp völlinn, fór framhjá einum varnarmanni og þrumaði boltanum í markið með vinstri fæti.  Staðan orðin 3-5 og úrslitin ljós !

Young Boys:  Wolfli, Ojala, Zverotic (Leciñena, 81. mín.), Spycher, Veskovac, Sutter, Farnerud, Raimondi, Nuzzolo (Schneuwly, 69. mín.), Bobadilla og Zarate (Gonzalez, 65. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Benito, Lecjaks, Costanzo og Vitkieviez.

Mörk Young Boys:  Raphael Nuzzolo (38. mín.), Juhani Ojala (52. mín.) og Eulogio Zarate (63. mín.).

Gul spjöld:  Mario Raimondi, Dusan Veskovac, Raul Marcelo Bobadilla og Raphael Nuzzolo.

Liverpool:  Jones, Wisdom, Carragher, Coates, Enrique, Sahin, Henderson, Downing (Sterling, 77. mín.), Assaidi (Shelvey, 66. mín.), Pacheco (Borini, 61. mín.) og Fernandez Saez.  Ónotaðir varamenn:  Gulacsi, Wilson, Robinson og Yesil.

Mörk Liverpool:  Juhani Ojala, sm., (4. mín.), Andre Wisdom (40. mín.), Sebastian Coates (67. mín.) og Jonjo Shelvey (76. og 88. mín.).

Gult spjald:  Fabio Borini.

Dómari leiksins:  Michail Koukoulakis

Áhorfendur á Stade de Suisse:  31.120.

Maður leiksins:  Jonjo Shelvey hlýtur nafnbótina að þessu sinni.  Hann kom sterkur inná og skoraði tvö mörk sem gulltryggðu sigurinn.  Hann hefur klárlega stimplað sig inn á þessu tímabili og átt nokkra góða leiki.

Brendan Rodgers:  ,,Ég verð að hrósa leikmönnunum, mér fannst þeir vera hreint út sagt stórkostlegir.  Við vorum með mjög mjög ungt lið hér.  Ég held að allir muni eftir því þegar Tottenham komu hingað í Meistaradeildinni fyrir nokkrum árum og sáu að þeir lentu í vandræðum.  Mér fannst strákarnir vera frábærir.  Þetta var mjög erfiður leikur fyrir okkur.  Það besta sem menn sýndu hér, fyrir utan gæði leikmannahópsins, var karakter liðsins."


Fróðleikur:

- Þeir Fernandez Saez, Andre Wisdom og Oussama Assaidi léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.

- Síðast skoraði liðið fimm eða fleiri mörk gegn Brighton í FA bikarnum þann 19. febrúar á þessu ári. Liverpool vann þann leik 6:1.

- Jonjo Shelvey er nú orðinn næst markahæstur á tímabilinu með tvö mörk.

- Andre Wisdom og Sebastian Coates skoruðu í fyrsta sinn á leiktíðinni.

- Andre Wisdom, sem skoraði í sínum fyrsta leik, er fjórði yngsti markaskorari Liverpool í Evrópukeppni.

- Þeir Andre Wisdom, Sebastian Coates, Nuri Sahin, Oussama Assaidi og Suso spiluðu allir sinn fyrsta Evrópuleik fyrir félagið.

Hér má sjá myndir úr leiknum af opinberri heimasíðu félagsins.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan