| Sf. Gutt

Eitt stig af níu eftir heimatap

Liverpool hefur nú eitt stig af níu eftir 1:2 tap fyrir Arsenal á Anfield Road í dag. Engu líkara var en leikmenn Liverpool hefðu sofið yfir sig því þeir voru syfjulegir allan tímann og byrjun liðsins í deildinni er með því allra versta.

Nuri Sahin fékk sæti í byrjunarliðinu eftir komu sína frá Madríd. Daniel Agger kom inn í liðið eftir að hafa lokið leikbanni. Það hefur stundum verið talað um að hádegisleikir væru dauflegir og það mátti svo sannarlega segja um þennan lengi framan af. Liðin spiluðu ekki vel og gekk illa að halda boltanum.

Það leit í raun ekkert út fyrir annað en markaleysi þar til Arsenal skoraði óvænt á 31. mínútu. Fram að því mætti kannski segja að Liverpool hefði verið heldur skárra liðið en eins og svo oft var fyrstu alvarlegu mistökum þess refsað grimmilega. Steven Gerrard átti mislukkaða sendingu rétt utan við vítateig Arsenal. Skytturnar náðu boltanum og ruku fram völlinn. Sókin endaði með því að Santi Cazorla renndi boltanum til vinstri á Lukas Podolski sem skoraði af öryggi neðst í hornið. Alltof auðvelt mark og vörn Liverpool alveg úti á túni. Lukas dauðafrír og allt eftir því. 

Leikmenn Liverpool réttu aðeins úr sér við þetta og litlu munaði á 38. mínútu þegar Raheem Sterling sneri af sér varnarmann inni í vítateignum og náði skoti sem fór í stöngina utanverða og af henni framhjá. Vel gert hjá stráknum sem var mjög góður. Fjórum mínútum fyrir leikhlé opnaðist vörn Liverpool illa eftir svipaða sókn og gaf þeim markið en sem betur fer skaut Olivier Giroud framhjá úr upplögðu færi í vítateignum. Ekki góð staða í leikhléinu.

Fimm mínútum eftir leikhlé hefði Liverpool aftur getað fengið víti þegar Per Pertesacker togaði í Luis Suarez en ekkert var dæmt sem fyrr. Tveimur mínútum seinna opnaðist vörn Liverpool enn einu sinni. Kieran Gibbs komst inn í vítateiginn vinstra megin en Jose Reina varði skot hans. Aftur ógnuðu Skytturnar á 60. mínútu þegar Carl Jenkinson náði góðu skoti utan vítateigs en Jose varði. 

Sóknarleikur Liverpool gekk ekkert og það vantaði tilfinnanlega almennilega baráttu í liðið. Það var helst að unglingurinn Raheem berðist. Arsenal bætti svo forystu sína á 68. mínútu. Aftur urðu slæm mistök í vörninni. Allt var opið vinstra megin, Lukas kom boltanum á Santi sem náði skoti. Skotið var svo sem ekki merkilegt en Jose missti boltann illa undir sig og annan leikinn í röð gaf Spánverjinn mark! 

Nú voru vandræði Liverpool algjör og varamaðurinn Jonjo Shelvey var eini maðurinn sem sýndi almennilega baráttu. Þremur mínútum fyrir leikslok lék hann sig í skotfæri við vítateiginn en Vio Mannone varði skot hans. Mínútu seinna sendi Steven inn í vítateiginn á Luis en hann skaut yfir úr mjög góðu færi. Á lokamínútunni átti Jonjo þrumuskot utan vítateigs sem Vito varði glæsilega með því að slá boltann framhjá stöng og í horn. Tapi varð ekki afstýrt og byrjun Liverpool í deildinni hefur verið hrakleg í stigum talið. 

Bill Shankly hefði orðið 99 ára gamall í dag og stuðningsmenn Liverpool hylltu minningu framkvæmdastjórans sem lagði grunninn að stórveldi með því að kyrja nafn hans snemma í leiknum.  

Liverpool: Reina, Johnson, Skrtel, Agger, Enrique, Gerrard, Allen, Sahin (Shelvey 67. mín.), Borini (Downing 55. mín.), Suarez og Sterling. Ónotaðir varamenn: Jones, Henderson, Coates, Carragher og Kelly.
 
Gul spjöld:
 Martin Skrtel og Jonjo Shelvey.

Arsenal: Mannone, Jenkinson, Mertesacker, Vermaelen (Koscielny 90. mín.), Gibbs, Diaby, Arteta, Chamberlain (Ramsey 73. mín), Cazorla, Podolski (Santos 82. mín.) og Giroud. Ónotaðir varamenn: Martinez, Walcott, Coquelin og Gervinho.
 
Mörk Arsenal: Lukas Podolski (31. mín.) og Santi Cazorla (68. mín.).

Gul spjöld: Mikael Arteta og Per Mertesacker.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.932.

Maður leiksins: Jonjo Shelvey. Hann kom inn á sem varamaður þegar vel var liðið á leikinn en sýndi meiri áhuga og baráttu en flestir. Hann var tvívegis nærri að skora með góðum skotum. Góð innkoma. 

Brendan Rodgers: Við fengum nóg af færum en nýttum þau ekki nógu vel. Það var margt gott í leiknum en við töpuðum og verðum að bæta okkur. Við munum verða betri þegar líður á keppnistímabilið hjá okkur. 


                                                                                    Fróðleikur

- Nuri Sahin lék sinn fyrsta leik með Liverpool eftir að hann kom sem lánsmaður frá Real Madrid.

- Liverpool hefur aðeins eitt stig af níu úr fyrstu þremur leikjunum og er það versta byrjun liðsins í efstu deild frá því 1962/63.

- Þá var Liverpool nýliði í efstu deild eftir að hafa unnið þá næst efstu vorið 1962.

- Liverpool hefur gengið mjög illa gegn Arsenal á heimavelli síðustu ár og vann síðast deildarleik gegn Skyttunum á leiktíðinni 2006/07.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan