| Sf. Gutt

Jafnt gegn Englandsmeisturunum

Líkt og á síðustu leiktíð slapp Manchester City frá Anfield með eitt stig. Liverpool lék mjög vel en eins og oft áður, á síðustu leiktíð, náðist ekki að innsigla sigur. Leiknum lauk með 2:2 jafntefli í stórgóðum leik.

Það var mikil spenna í loftinu í Musterinu þegar Deildarbikarmeistarar Liverpool og Englandsmeistarar Manchester City gengu til leiks. Brendan Rodgers hefur oft talað um það, frá því hann tók við Liverpool, að það þurfi að byggja upp virki á Anfield. Nú var komið að fyrsta deildarleiknum. 

Leikmenn Liverpool urðu að byrja ,,öfugu megin" og sækja að The Kop í fyrri hálfleik. Ekki byrjaði það vel og strax í byrjun var tekið eftir því að Lucas Leiva haltraði. Hann fór af velli eftir fimm mínútur meiddur á læri. Vonandi ekki slæm meiðsli það. Jonjo Shelvey tók stöðu hans fegins hendi og lék mjög vel. 

Gestirnir ógnuðu fyrst á 9. mínútu. Aleksandar Kolarov tók þá aukaspyrnu. Skot hans var fast en Jose Reina varði örugglega. Um tíu mínútum síðar fékk Liverpool loks færi. Raheem Sterling lék þá á varnarmann á vinstri kantinum og sendi stórgóða sendingu fyrir á Fabio Borini en skot hans frá markteig fór rétt framhjá. Kannski átti Ítalinn að geta hitt markið en sending ungliðans var frábær. City svaraði í næstu sókn. Samir Nasri sendi inn á vítateignn á Carlos Tevez. Hann komst framhjá Jose hægra megin við markið og skaut. Boltinn rúllaði eftir marklínunni í stöngina innanverða hinu megin og út. Jose var snöggur á fætur og hirti boltann og eins gott að enginn Bláliði skyldi fylgja. Þarna slapp Liverpool vel. 

Eftir góða byrjun City sótti Liverpool smá saman í sig veðrið. Á 34. mínútu sendi Steven Gerrard fasta sendingu inn á vítateignn. Vincent Komany fór í boltann en hitti hann ekki vel og hann skaust rétt yfir markið í horn. Steven tók hornspyrnuna, sem var frá hægri, sjálfur og smellhitti á höfuðið á Martin Skrtel sem hamraði boltann í rauðu netmöskvana með gríðarlega föstum skalla. Frábærlega gert og mikill fögnuður braust út í sólinni!

Liverpool hafði nú undirtökin fram að leikhléi. Tveimur mínútum fyrir hlé sendi Joe Allen frábæra sendingu á Luis Suarez sem tók skot rétt utan teigs en boltinn fór naumlega framhjá. Leikmönnum Liverpool var vel fagnað þegar flautað var til leikhlés enda höfðu þeir unnið sér inn sanngjarna forystu. 

Luis ógnaði fyrstur manna í síðari hálfleik eftir að Fabio kom boltanum á hann. Ekki tókst honum að hitta markið og boltinn fór framhjá. Gott færi og þar hefði Liverpool getað farið langt með að gera út um leikinn. Tíðindalítið var nú lengi vel en mikill hraði var í leiknum og sótt á báða bóga án færa þó. Þegar loks kom færi varð úr því mark. Á 64. mínútu slapp Carlos framhjá Raheem upp að endamörkum hægra megin. Hann sendi fyrir markið, Jose náði ekki til boltans sem hrökk svo til baka af Martin Kelly beint fyrir fætur Yaya Toure sem smellti boltanum í markið af stuttu færi. Slæm mistök hjá vörninni. Glen Johnson hefði átt að hjálpa Raheem sem var einn á báti og svo missti Jose af boltanum. Boltinn hrökk loks af Martin sem var óviðbúinn þegar Jose náði ekki fyrirgjöfinni. 

Þetta sló Liverpool ekki út af laginu og þremur mínútum seinna voru Rauðliðar aftur komnir yfir. Steven átti þá fast langskot sem varamaðurinn Jack Rodwell stöðvaði með því að henda sér fyrir boltann. Boltinn fór í hendi hans og dæmd aukaspyrna. Luis smellti boltanum framhjá varnarveggnum og neðst í hægra hornið. Frábært skot og ekki var fagnað minna en þegar Martin skoraði í fyrri hálfleik. 

Líklega töldu nú flestir að Liverpool myndi landa sigri og fátt benti til þess að Englandsmeistararnir myndu jafna en þeir eru ekki meistarar fyrir ekkert og færðu sér hroðaleg mistök fullkomlega í nyt þegar ellefu mínútur voru eftir. Martin Skrtel hugðist þá senda blindandi aftur á Jose. Sendingin var því miður alltof laus og Carlos náði boltanum. Hann lék á Jose og rúllaði boltanum í autt markið. Hræðileg mistök hjá Martin sem átti annars stórleik.
 
Liverpool lagði þó ekki árar í bát og á 82. mínútu fékk Jonjo boltann frá Steven rétt utan vítateigs. Hann náði föstu skoti en boltinn fór rétt yfir. Bæði lið fengu færi á lokamínútunum. Edin Dzeko skaut yfir mark Liverpool mínútu fyrir leikslok. Andy Carroll var svo nærri sigurmarkinu þegar hann skallaði að marki eftir þunga sókn Liverpool í viðbótartíma. Boltinn hefði líklega ratað í markið en varnarmaður skallaði frá á síðustu stundu. Jafnglími en stuðningsmenn Liverpool gátu verið ánægðir með margt hjá sínum mönnum. Kannski var byrjað að grafa fyrir grunninum við endurreisn Anfield virkisins í dag! 

Liverpool: Reina, Kelly (Enrique 65. mín.), Coates, Skrtel, Johnson, Leiva (Shelvey 5. mín.), Gerrard, Allen, Sterling, Borini (Carroll 82. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Carragher, Henderson og Downing.
 
Mörk Liverpool: Martin Skrtel (34. mín.) og Luis Suarez (67. mín.).

Gult spjald: Luis Suarez.
 
Manchester City: Hart, Zabaleta, K Toure, Kompany, Milner (Silva 75. mín.), De Jong, Y Toure, Nasri (Rodwell 59. mín.), Kolarov, Balotelli (Dzeko 62) og Tevez. Ónotaðir varamenn: Pantilimon, Lescott, Savic og Razak.

Mörk Manchester City: Yaya Toure (64. mín.) og Carlos Tevez (79. mín.).
 
Áhorfendur á Anfield Road:
 44.942.

Maður leiksins: Joe Allen. Veilsverjinn var frábær. Það bar kannski ekki mjög mikið á honum en hann gerði það sem til stóð framúrskarandi vel. Hann fékk boltann og kom honum, svo til undantekningarlaust, á næsta mann. Mikil yfirferð og frábærar sendingar.

Brendan Rodgers: Við vorum vonsviknir að vinna ekki en þarna voru margir ungir leikmenn sem gefa okkur framtíðarvon. Baráttan, leikur okkar og stemmningin. Þetta var allt með ólíkindum. 

                                                                           Fróðleikur

- Liverpool hefur leikið í efstu deild frá leiktíðinni 1962/63.

- Fyrsti deildarleikur Liverpool á Anfield Road á leiktíðinni.

- Liverpool var í neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn. 

- Þeir Martin Skrtel og Luis Suarez skoruðu fyrstu deildarmörk Liverpool á leiktíðinni.
 
- Jonjo Shelvey lék sinn 40. leik með Liverpool. Hann hefur skorað í tvígang.

- Carlos Tevez skoraði 100. mark sitt í ensku knattspyrnunni.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com. 

Hér eru myndir úr leiknum af vefsíðu Guardian.





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan