| Sf. Gutt

Naumur sigur í Skotlandi

Liverpool vann nauman sigur norður í Skotlandi í kvöld þegar sjálfsmark færði liðinu mikilvægan sigur 0:1 á Hearts. Sigurinn er gott nesti fyrir seinni leikinn í Liverpool og áframhald í riðlakeppni Evrópudeildarinnar ætti að nást eftir þetta.
 
Brendan Rodgers skildi nokkra af allra sterkustu leikmönnum Liverpool eftir heima og því fengu nokkrir af ungu mönnunum færi á að byrja leikinn. Jack Robinson lék fyrsta leik sinn á leiktíðinni og Raheem Sterling hóf leik í byrjunarliði í fyrsta sinn.

Lið Liverpool fékk varmar viðtökur eins og við mátti búast í Skotlandi. En það var Skotinn í Liverpool sem ógnaði fyrst. Á 9. mínútu tók Charlie Adam mikla rispu fram völlinn. Rétt utan vítateigs skaut hann að marki en John MacDonald varði. Hann hélt ekki boltanum og Fabio Borini fylgdi á eftir en það var bjargað í horn frá honum. Reyndar munaði, rétt áður, litlu hinu megin þegar Jamie Carragher átti of lausa sendingu aftur en Jose Reina átti gott úthlaup og kom boltanum frá á síðustu stundu. Á 11. mínútu átti Arvydas Novikovas fast skot utan vítateigs eftir snöggt spil sem Jose Reina varði en hann missti boltann í horn.
 
Hearts var sterkara liðið fram eftir hálfleiknum en skosku bikarmeistararnir ógnuðu svo sem ekki mikið. Leikmenn Liverpool máttu þó hafa sig alla við. Spil Liverpool gekk illa og það var aðeins Raheem sem ógnaði eitthvað. Á 29. mínútu fékk Reheem einmitt boltann úti til vinstri, lék sig í skotstöðu og náði föstu skoti en boltann fór beint á John í markinu sem þó náði ekki að halda boltanum. Fimm mínútum seinna hefði Liverpool átt að komast yfir. Jordan Henderson sendi fyrir frá hægri en Fabio náði ekki að hitta boltann í miðjum vítateignum.

Á lokamínútu hálfleiksins fékk Liverpool svo dauðafæri. Raheem komst inn í þversendingu varnarmanns á vallarhelmingi Hearts. Hann og Fabio voru tveir á móti einum varnarmanni. Raheem lék fram og sendi loks á Ítalann sem hann þrumaði í stöng úr dauðafæri. Tréverkið er sem sagt byrjað að þvælast fyrir eins og á síðustu leiktíð! En Fabio átti auðvitað að skora og það auðveldlega.

Síðari hálfleikur var lengst af tíðindalaus. Heimamenn börðust eins og ljón en ógnuðu lítt og Liverpool ekki heldur. Stewart Downing skipti við Jack og var látinn spila vinstri bakvörð á lokakafla leiksins! Hann kom bara nokkuð vel út í þeirri stöðu. Allt virtist stefna í markalaust jafntefli en flestum að óvörum kom mark þegar tólf mínútur voru eftir.

Liverpool sótti fram og boltinn gekk út til hægri á Martin Kelly. Hann sendi fasta sendingu fyrir markið. Fabio nái ekki til boltans á markteignum en það vildi svo vel til að boltinn hrökk í Joe Webster og í markið hans! Óheppni hjá Hearts en lánið með Liverpool.

Heimamenn gerðu hvað þeir gátu til að jafna metin sem þeir hefðu verðskuldað. Á 88. mínútu datt boltinn fyrir fætur Andrew Driver fyrir miðju marki en hann náði ekki að hitta boltann vel og Jose varði. Á lokamínútunni átti Callum Paterson tvívegis tilraunir. Fyrst átti hann gott þverskot hægra megin í vítateignum sem Jose varði í horn og svo fór skot hans framhjá.

Adam Morgan kom til leiks í fyrsta leik sínum á lokaandatökum leiksins og fékk tækifæri til að fagna sigri. Það var gaman að sjá þennan mikla markaskorara unglinga- og varaliðsins fá að koma inn á. Sigur Liverpool var með naumasta móti en vel þeginn var hann eftir skellinn um helgina. 

Hearts: MacDonald; R McGowan, Zaliukas, Webster, Grainger; Barr (Robinson 87. mín) Taouil, Paterson, Templeton (Driver 78. mín.), Novikovas (Carrick 84. mín.) og Sutton. Ónotaðir varamenn: Enckelman, Smith, D McGowan og McHattie.
 
Gult spjald: Darren Barr.
 
Liverpool: Reina; Kelly, Carragher, Agger, Robinson (Downing 61. mín.), Shelvey, Spearing (Allen 67. mín.), Henderson, Sterling, Borini (Morgan 90. mín.) og Adam. Ónotaðir varamenn: Jones, Coates, Leiva og Flanagan.
 
Mark Liverpool: Joe Webster, sm, (78. mín.).

Áhorfendur á Tyncastle: 15.965.
 
Maður leiksins: Raheem Sterling. Ungliðinn var lang hættulegasti leikmaður Liverpool. Hann ógnaði vörn Hearts reglulega með hraða sínum og leikni. Hann var líka duglegur að kom aftur og hjálpa til. Stórgóður leikur hjá stráknum.

Brendan Rodgers: Þetta var erfiður leikur. Hearts er með fínasta lið og þeir hafa byrjað leiktíðina vel. Stemmningin var frábær og það var gott að ná sigur í Evrópuleik og nú vonumst við til að klára málið í seinni leiknum. 

                                                                                Fróðleikur

- Liverpool hefur ekki áður mætt Hearts í opinberum leik. 

- Áður hefur Liverpool leikið gegn Celtic, Hibernian og Aberdeen af skoskum liðum.

- Hearts lék aðra leiktíðina í röð gegn ensku liði. Í fyrra tapaði liðið 0:5 heima á móti Tottenham. Seinni leiknum lauk án marka. 

- Adam Morgan lék sinn fyrsta leik með Liverpool í opinberum kappleik. 

- Þeir Martin Kelly, Jordan Henderson og Stewart Downing léku allir í 50. sinn með Liverpool. Martin hefur skorað eitt mark, Jordan tvö og Stewart þrjú. 

- Bæði liði léku í varabúningum sínum. 

- Liverpool hefur enn ekki fengið á sig mark í Evrópuleik á leiktíðinni.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpool.com.  


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan