| Heimir Eyvindarson

Cole getur ekki valið sér stöðu

Joe Cole verður að gera sér að góðu að spila þar sem stjórinn segir honum að spila, ef hann ætlar sér að komast í liðið hjá Liverpool á ný.

Roy Hodgson segir að samkeppni um stöður í Liverpool liðinu sé einfaldlega þannig þessa stundina að menn geti ekki valið sér stöður. Stundum verði menn að gera sér að góðu að spila annars staðar en þeir óska sér helst.

,,Joe Cole verður að taka síg á. Hann er kominn til okkar eftir mislukkaðan tíma hjá Chelsea og hann ætlaði svo sannarlega að taka Liverpool með trompi. Það hefur bara ekki tekist, við verðum að horfast í augu við það", segir Hodgson.

,,Ef hann gefur fjölmiðlafólki þá skýringu á slæmu gengi sínu, að hann sé ekki að spila sína réttu stöðu þá verður fyrst að spyrja hann hvaða staða það sé. Ef það er staðan í holunni fyrir aftan sóknarmennina og það er þá eina staðan sem hann getur spilað, þá minnkar það möguleika hans á að komast í liðið."

,,Það berjast margir góðir leikmenn um þá stöðu. Meireles og Gerrard geta einnig spilað í holunni þannig að það er ekkert sjálfgefið að ég stilli Cole upp þar. Hann verður að sætta sig við það."

,,Ég yrði vonsvikinn ef Cole færi að kvarta og kveina yfir þessu, því þá væri hann að sýna aðra hlið á sér en hann hefur gert fyrir Chelsea og landsliðið, þar sem hann hefur spilað í ýmsum stöðum. Ég hef gert honum það alveg ljóst að hann getur ekki valið sér stöðu í Liverpool liðinu frekar en annars staðar. Steven Gerrard er fyrsti maðurinn sem ég vel í holuna, þegar við spilum með tvo framherja og aðrir geta einnig spilað þar."

Ekki er alveg ljóst hvað Hodgson gengur til að ræða stöðu Joe Cole með svo afgerandi hætti, því ekki hefur Cole kvartað mikið yfir sinni stöðu hjá Liverpool liðinu. Að minnsta kosti ekki opinberlega. Þegar Hodgson er spurður nánar út í athugasemdir sínar stendur ekki á svörum hjá stjóranum.

,,Ég er ekki að gagnrýna Joe. Ég er bara að greina stöðuna sem hann er í. Ég hef ekki á nokkurn hátt misst álit á honum sem spilara, en hann verður að sanna það fyrir mér og öðrum hér í Liverpool að hann sé leikmaður sem geti hjálpað til við að hefja liðið til vegs og virðingar á ný. Það sem af er hefur hann ekki litið út sem þannig leikmaður. Það verður bara að segjast eins og er."

,,Ég get alveg séð fyrir mér fyrirsagnir um það að ég sé að gagnrýna hann, en þannig er það ekki. Þetta er bara mitt mat á stöðunni eins og hún er í augnablikinu. Joe þarf bara að koma sér í gang. 1-2 góðir leikir og kannski eins og eitt mark og þá er staðan kannski allt í einu orðin allt önnur."

Það er erfitt að meta stöðu Joe Cole út frá þessum orðum stjórans og líklega varhugavert að leggja of mikinn skilning í athugasemdir Hodgson. Sjálfsagt er þetta bara hans aðferð við að brýna Cole til dáða. Það er hinsvegar vitað að Hodgson tók ekki fullan þátt í slagnum um að tryggja félaginu þjónustu Joe Cole fyrr í sumar, enda var ráðning Hodgson ekki frágengin þegar sá slagur stóð sem hæst. Í lok viðtalsins fer hann aðeins yfir það mál og leikmannakaupin það sem af er.

,,Christian Purslow stjórnaði samningaviðræðunum við Joe Cole í sumar, enda var ég ekki búinn að skrifa undir minn samning á þeim tímapunkti. Ég var hinsvegar með í ráðum og gaf mitt samþykki. En það var að frumkvæði Christians sem félagið fór af stað og reyndi að ná í Cole. Það var ekki einu sinni búið að bjóða mér starfið þegar þær þreifingar byrjuðu. Ég verð þess vegna að deila ábyrgðinni á komu Joe Cole til félagsins með Christian. Ég tek hinsvegar fulla ábyrgð á öðrum leikmönnum sem ég hef fengið til liðsins. Meireles, Poulsen og Konchesky, sem ég er mjög ánægður með að hafa fengið", segir Hodgson að lokum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan