| Heimir Eyvindarson

Of miklar væntingar

Roy Hodgson segir að það séu gerðar of miklar væntingar til Liverpool liðsins í upphafi leiktíðar. Hann segir að liðið verði að fá meiri tíma til að smella saman.

Liverpool liðið hefur enn sem komið er einungis landað sex stigum í Úrvalsdeildinni, eftir jafnmarga leiki, og er sem stendur í 16. sæti. Þessi afleita byrjun hefur valdið stuðningsmönnum liðsins miklum vonbrigðum og efasemdaraddir um ágæti Hodgsons gerast nú æ háværari.

,,Liðið hefur ekki enn náð að setjast, eins og ég vil kalla það", segir Hodgson í viðtali við Liverpool Daily Post. Ég er enn að prófa menn í nýjum stöðum og átta mig á því hvaða staða hentar hverjum best o.s.frv. Við erum einnig með nokkra nýja leikmenn og leikmenn sem eru að koma tilbaka eftir meiðsli þannig að það er varla hægt að ætlast til þess að liðið sé eins og smurð vél strax."

,,Það er ýmislegt sem gengur á hjá okkur. Atgangurinn í kringum eignarhaldið á liðinu er einn hlutur og svo erum við einfaldlega ennþá að stilla saman strengi okkar. Skilningur milli leikmanna er að aukast og menn eru að kynnast leikstíl nýrra leikmanna og áherslum nýs stjóra. Við höfum ekki byrjað vel, ég ætla alls ekki að neita því, en það var kannski ekki hægt að búast við mikið betri byrjun. Þetta ætti ekki að þurfa að koma svo gríðarlega á óvart."

,,Ég veit að það er ekki auðvelt fyrir aðdáendur liðsins að horfa upp á gengi liðsins þessa dagana, en ég veit líka að við eigum bestu stuðningsmenn í heimi og þeir munu standa með okkur í gegnum þessa erfiðleika."

,,Á laugardaginn fannst mér ég óheppinn að vera ekki að stýra sigurliði. Mér fannst við eiga skilið að vinna þann leik. Það var margt jákvætt í leik liðsins og sérstaklega var karakterinn aðdáunarverður. Það er ekkert grín þegar illa gengur að rífa sig upp eftir að hafa lent undir. En það gerðu leikmennirnir og voru nálægt því að landa öllum þremur stigunum í lokin."

Næsti leikur Liverpool er útileikur gegn Utrecht frá Hollandi í Evrópudeildinni. Hodgson gefur í skyn að hann muni tefla fram sterku liði þar.

,,Ég reikna með að nota Meireles, Torres og Kuyt að minnsta kosti. Ég held að þeir séu á góðri leið með að finna taktinn sín á milli. Mér fannst Torres mun betri á laugardaginn en hann hefur verið í undanförnum leikjum og ég veit líka að hann er allur að koma til. Hann skoraði glæsilegt mark sem að mínu mati var ranglega dæmt af. Ef markið hefði staðið þá hefði það verið eitt af mörkum mánaðarins."

,,Meireles var að byrja sinn annan leik á laugardaginn. Joe Cole er að komast á fullt eftir bannið. Þetta tekur allt tíma en ég er sannfærður um að þetta fer að smella hjá okkur. Það var margt gott í okkar leik á laugardaginn, en það er líka margt ennþá sem við þurfum að bæta. Ég veit að ég á mikið verk fyrir höndum, en fólk má ekki halda að ég sé töframaður."
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan