| Grétar Magnússon

Sigur á Tottenham

Liverpool unnu mikilvægan 2-0 sigur á Tottenham í kvöld og færðust nær hinu mikilvæga fjórða sæti í deildinni. Dirk Kuyt var hetjan að þessu sinni en Hollendingurinn leiddi sóknina og skoraði bæði mörk liðsins.

Rafa Benítez gerði tvær breytingar frá leiknum við Stoke, inn komu þeir Alberto Aquilani og Albert Riera á kostnað Fabio Aurelio og David Ngog.  Ljóst var að Dirk Kuyt myndi vera fremsti maður og Aquilani þar rétt fyrir aftan honum til stuðnings.

Strax í byrjun var ljóst að leikmenn Liverpool voru vel stemmdir og baráttan var mikil.  Þeir gáfu leikmönnum Tottenham lítinn tíma með boltann og voru duglegir að loka svæðum.  Tottenham menn áttu þó fyrsta færi leiksins er sending kom fyrir markið frá vinstri kanti, Reina greip ekki fyrirgjöfina og boltinn barst út í teiginn.  Þar náði Reina að komast fyrir boltann aftur þegar leikmaður Tottenham gerði sig líklegan til að skjóta á markið.  Reina greip svo boltann öruggum höndum í þriðju tilraun og hættan var liðin hjá.

Reina sendi boltann hátt fram völlinn þar sem Kuyt nikkaði honum til Aquilani.  Ítalinn hljóp í átt að vítateignum en var felldur þar, Kuyt var fljótur að hugsa og skaut að marki nokkuð snögglega.  Boltinn söng í netinu út við fjærstöngina, aðeins sex mínútur liðnar og Hollendingurinn búinn að skora mikilvægt mark.  Aquilani þurfti smá aðhlynningu á meðan á fagnaðarlátunum stóð en hann harkaði af sér.

Segja má að leikurinn hafi eftir þetta einkennst af mikilli baráttu og var sóknarleikur heimamanna ekki upp á marga fiska, þeir vörðust þó vel og Tottenham menn komust lítt áleiðis.  Undir lok hálfleiksins náðu Liverpool að setja pressu á mark heimamanna og skutu bæði Kyrgiakos og Skrtel yfir markið.  Tottenham menn fóru í sókn þar sem Modric fékk sendingu innfyrir og náði hann skoti að marki sem Reina varði vel.  Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks var mark dæmt af Tottenham mönnum er Defoe stal boltanum af Reina út við vítateigslínuna og skoraði í autt markið.  Línuvörðurinn var hinsvegar búinn að flagga því Defoe var rangstæður þegar sendingin kom innfyrir.  Þarna sluppu Liverpool menn vel því markið hefði verið ansi neyðarlegt fyrir Kyrgiakos og Reina en þeir voru að gaufa með boltann í öftustu línu.  Línuvörðurinn var þó mjög lengi að lyfta flaggi sínu og Tottenham menn mótmæltu þessum dómi að einhverju leyti.

Heimamenn sóttu í sig veðrið og ágæt sókn upp hægri kantinn endaði með því að Albert Riera skallaði í þverslána, þarna hugsuðu sennilega margir stuðningsmenn Liverpool að leikurinn gæti þróast eins og margir aðrir á þessari leiktíð, liðið kemst yfir en nýtir svo ekki færin og er refsað fyrir það.  Margir st

Á 65. mínútu vann Dirk Kuyt boltann af varnarmanni Tottenham og geystist hann í átt að marki.  Hann sendi boltann til hægri á Degen en í stað þess að skjóta strax hikaði Degen og sendi boltann fyrir markið á Kuyt.  Hollendingurinn fljúgandi gerði ráð fyrir því að einhver samherji kæmi aðvífandi því hann hljóp yfir boltann.  Enginn Liverpool maður reyndist þar nálægt og gestirnir máttu prísa sig sæla með að hafa ekki verið refsað þarna.

Þegar 10 mínútur voru til leiksloka gerði Benítez breytingar, inná komu þeir David Ngog og Maxi Rodriguez með stuttu millibili, fyrir þá Alberto Aquilani og Albert Riera.  Stuttu síðar kom sending fyrir markið frá hægri kanti þar sem David Ngog skallaði boltann að marki, Kuyt var þar einn og óvaldaður en á ótrúlegan hátt skaut hann boltanum yfir markið.  Líklega hefur ónotatilfinningin um að Tottenham menn myndu jafna leikinn verið ansi sterk á þessum tímapunkti í leiknum.

Sem betur fer náðu heimamenn að gera útum leikinn í blálokin er vítaspyrna var dæmd.  Maxi Rodriguez fékk sendingu frá Stephen Darby, sem var nýkominn inná fyrir Degen, Rodriguez var fljótur að hugsa og sendi boltann viðstöðulaust til hægri á David Ngog sem tók á rás í átt að markinu.  Hann sparkaði boltanum nokkuð fast áfram en var svo felldur og lítið annað að gera en að dæma víti.  Á punktinn fór Dirk Kuyt og sýndi hann fádæma öryggi en hann þurfti að taka vítaspyrnuna tvisvar sinnum.  Mikill fögnuður braust nú út og ljóst var að mikilvægur sigur var í höfn.

Liverpool:  Reina, Insua, Skrtel, Kyrgiakos, Carragher, Degen (Darby 90. mín.), Mascherano, Lucas, Riera (Rodriguez 81. mín.), Aquilani (Ngog 79. mín.) og Kuyt.  Ónotaðir varamenn:  Cavalieri, Spearing, Babel og Pacheco.

Mörk Liverpool:  Dirk Kuyt (6. og 90. mín. vítaspyrna).

Gul spjöld:  Javier Mascherano og Lucas Leiva.

Tottenham:  Gomes, Bale, King (Bassong 81. mín.), Dawson, Corluka (Hutton 61. mín.), Kranjcar (Keane 65. mín.), Palacios, Jenas, Modric, Crouch og Defoe.  Ónotaðir varamenn:  Alnwick, Rose, Dos Santos og Pavlyuchenko.

Gul spjöld:  Jenas, Bale og Palacios.

Áhorfendur á Anfield:  42.016.

Maður leiksins:  Hollendingurinn Dirk Kuyt hlýtur nafnbótina að þessu sinni.  Hann fékk menn til að gleðjast á ný með tveimur mörkum í gríðarlega mikilvægum leik.  Auk þess var hann sívinnandi út um allan völl eins og svo oft áður.

Rafael Benítez:  ,,Það var mjög mikilvægt fyrir okkur að skora snemma.  Tottenham spiluðu vel og ég held að þeir hafi stjórnað leiknum að mestu í fyrri hálfleik - en við áttum reyndar betri færi.  Eftir að við skoruðum þurftu þeir að færa sig framar á völlinn sem skapaði meira pláss fyrir okkur.  Sigurinn var mikilvægur því allir vita að við þurftum að minnka bilið milli liðanna í kapphlaupinu um fjórða sætið, ég er því hæstánægður með leikmennina núna.  Þeir sýndu sama hugarfar, baráttugleði og liðsanda og gegn Stoke."

Fróðleikur:

- Dirk Kuyt skoraði sitt 6. og 7. mark í deildinni á tímabilinu, hann er næst markahæsti leikmaður liðsins með 8 mörk í heildina.

- Hollendingurinn hefur spilað alla 22 deildarleiki liðsins á tímabilinu líkt og þeir Jose Reina og Lucas Leiva.

- Harry Redknapp var að stýra liði á Anfield í 13. skiptið. Hann hefur aldrei sigrað á þessum velli.

- Albert Riera spilaði sinn 10. leik á tímabilinu, þar af hefur hann byrjað inná í 7 leikjum.

- Lucas Leiva lék sinn 100. leik með Liverpool. Hann hefur skorað fjögur mörk.

- Philipp Degen lék sinn 10. leik með Liverpool.

Hér eru myndir frá leiknum á Liverpoolfc.tv.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan