| Ólafur Haukur Tómasson

Frank McParland sér fram á bjarta framtíð

Það er árið 2013 og Liverpool er aðeins örfáum andartökum frá enn einum sigrinum í grannaslagnum á Merseyside. Hetja augnabliksins er uppalinn leikmaður sem hefur náð að vinna sér inn sæti undir stjórn Rafael Benítez og á meðan situr framkvæmdarstjóri Akademíunnar uppi í stúku og leyfir sér að brosa út í annað. Þetta er sýn Frank McParland, framkvæmdarstjóra Akademíunnar, sem heldur inn í árið 2010 eftir að hafa verið við stjórnvölin í unglingastarfi Liverpool F.C. Hann hlær aðeins og útskýrir svo fyrir spyrjanda hvaða áform hann hefur til að þetta verði að veruleika.

"Þetta er mikið verkefni og er aðeins á byrjunarstigi en ég er mjög ánægður með framfarirnar sem við höfum orðið fyrir varðandi þjálfunina og allir hafa unnið saman að því sem við viljum áorka. En ég vil gera fólki grein fyrir því að við erum hér fyrir viss viðskipti, ef við höfum ekki komið einhverjum til Rafa þá verður hann ekki ánægður svo við höfum líka skammtíma áætlanir. Auðvitað er stærri mynd fyrir þá sem eru fimm, sex eða sjö ára, það er framtíð okkar. En við verðum að fá stráka sem eru 14, 15 og 16 ára í gegn sem fyrst." sagði McParland.

Akademían hefur gengið undir miklar breytingar og bætingar á síðustu mánuðum, allt frá þjálfun til útsendara og umhugsun leikmanna. Það hefur verið algjör viðsnúningur á því hvernig félagið lítur þannig á að best sé að taka næsta skref hvað þetta varðar. McParland hefur verið miðpunkturinn í þessu öllu saman, með skipunum frá Rafael Benítez reynir hann að stýra Akademíunni þannig að hún verði ein sú besta þar í landi.

"Mesta málið eru bætingarnar á öllu svæðinu. Við höfum marga góða og vinnusama atvinnumenn hér. Ég er einnig mjög ánægður með hve vel allir leikmennirnir hafa aðlagast því sem við höfum verið að gera. Hvað varðar þjálfunina þá hefur Pep Segura sett upp prógram fyrir hvern aldursflokk sem þeir munu svo fylgja eftir. Þó að úrslitin hjá u-18 ára liðinu hafi ekki verið þau bestu þá er Rodolfo að vinna góða vinnu og allir leikmennirnir eru mjög skipulagðir. Þeir eru orðnir miklu betri þegar kemur að leikkerfum og boltatækni, þeir eru í bætingu.

Á þessum tíma á næsta ári held ég að við verðum með frábært u-18 ára lið, margir þeirra sem eru núna eru aðeins á sínu fyrsta ári. Maður myndi ekki halda að þeir væru svona ungir vegna þess hve vel þeir hafa verið að vinna. Maður verður að hafa það í huga að margir af þeim leikmönnum sem þeir mæta eru rétt undir 19 ára gamlir svo það er ekki alltaf auðvelt.

Þetta er ekki allt um u-18 ára liðið. Takið eftir mönnum eins og Steve Cooper sem er að vinna með u-16 ára liðinu og niður. Ég held að u-16 ára liðið hafi unnið alla leiki sína að einum utanskyldum, því miður birtum við ekki nógu oft frá þeim úrslitum. Mike Garrity hugsar um strákana þar til þeir verða 11 ára. Kenny Dalglish fylgist stundum með þeim með mér - boltatæknin hjá þessum strákum er ótrúleg og þráin til að ná árangri er einnig mikil. U-8 ára liðið og upp í u-18 ára liðið spila allir sama leikkerfi og undir sama leikskipulagi og liðið hans Rafa. Við erum sem sagt að reyna að koma í gegn leikmönnum sem að passa einmitt inn í leikkerfi aðalliðsins."

McParland stjórnar nú eins og áður segir Akademíunni en hér áður fyrr starfaði hann sem útsendari fyrir Liverpool og var mjög virtur í sínu starfi. Orðspor hans var ein af aðalástæðunum fyrir því að hann var ráðinn í þetta starf og hann gerir sér fulla grein fyrir því að lokka til sín bestu ungstirnin er eitt aðalmálið sem þarf að vinna í. Undanfarin ár hefur verið sagt að Liverpool hafi misst af tækifærunum á því að freista leikmanna á borð við Wayne Rooney, Darren Fletcher, Jack Rodwell og Aaron Ramsey sem allir eru að gera það gott með félagssliðum sínum í Úrvalsdeildinni og það er klárt mál að þessir leikmenn hefðu getað komið í gegnum unglingastarf Liverpool. Þetta er eitt af því sem Liverpool þarf að passa, að láta svona efnilega leikmenn ekki renna sér úr greipum. McParland kom aðeins inn á útsendarastarfið.

"Við höfum fengið til okkar rúmlega 25 stráka síðan ég tók við þessu starfi. Við höfum fengið nokkra ódýrt frá öðrum félögum og við höfum einnig fengið stráka erlendis. Við höfum fengið nokkra stráka frá MTK í Ungverjalandi og þeir hafa allir staðið sig vel, ég er mjög ánægður með það.

Við erum í vinnu með Eduardo Macia á Melwood og við erum líka að endurskipuleggja hlutina hér. Útsendarastörfin hafa verið í mikilli bætingu. Við verðum að bæta okkur í að finna leikmenn hérlendis og Rafa vill ólmur að við komum góðum breskum leikmönnum í gegnum Akademíuna fyrir reglurnar í Evrópukeppnunum. Við reynum að vinna meiri vinnu og gera hlutina betur. Ef maður hefur gott fólk að fylgjast með leikjum þá finnurðu leikmennina því það eru margir hæfileikaríkir strákar þarna úti. Við leggjum hart að okkur til að fá þá til okkar."

McParland kom einnig aðeins inn á hlutverk Rafa í unglingastarfinu: "Auðvitað tekur Rafa virkan þátt í því sem við erum að gera. Hann talar við mig fjórum til fimm sinnum í viku. Ég funda einnig með honum einu sinni í viku, svo við vinnum allir sem einn. Hann hefði getað sleppt því að vinna í Akademíunni og einbeitt sér að aðal- og varaliðinu en hann hefur langtímasýn. Ég vil að stuðningsmennirnir viti að það er stærri mynd og að Rafa er 100% tryggur því. Hann byggir undirstöðuna vegna þess að vill vera hér til langstíma og við viljum að hann verði hér lengi.

Hann er einn sá heiðarlegasti, duglegasti og gáfaðasti maður sem ég hef nokkurn tímann hitt í knattspyrnuheiminum. Hann hefur hjálpað mér svo mikið á ferli mínum og ég læri af honum daglega. Hann hefur margar hugmyndir og veit svo mikið um leikinn að það er hrein og bein gleði að vera í návist hans."

McParland er í miðjum klíðum að segja frá hugsjónum Rafa þegar síminn hans hringir og slær hann út af laginu. Í símanum heyrist skoskur hreimur og svipurinn á McParland gefur í ljós að í símanum er enginn annar en sendiherra Akademíunnar, Kenny Dalglish, sem greinir honum frá því að hann er á leið á skrifstofu hans. Þetta viðtal á sér stað á jólatímanum og jólahátíð Akademíunnar er á næsta leyti, Kenny vildi fá að vita hvernig vín McParland vildi og auðvitað vildi hann fá það rautt. Það leiddi aðeins umræðuna að Kenny og hvernig væri að hafa slíka goðsögn í Akademíunni.

"Kenny er hérna næstum daglega. Hann vill vera virkur þátttakandi og vita allt sem gerist. Hann hefur verið leikmaður, þjálfari og alltaf fastur í knattspyrnuheiminum allt sitt líf. Hann getur gefið okkur nýtt sjónarmið. Stundum tekur hann sig til og spilar síðustu tíu mínúturnar af leikjum u-13 ára liðsins eða einhverju slíku liði. Það gefur öllum leikmönnunum mikið spark í rassinn - hann vill enn vera besti maðurinn á vellinum!

Ég hefði aldrei haldið að ég myndi sitja á skrifstofunni minni og Kenny Dalglish kæmi og byði mér tea eða fara í matsalinn og spyrja hvort hann eigi að grípa eitthvað handa mér. Hann er aðeins eldri en ég og ég man eftir því að fylgjast með honum spila þegar ég var yngri. Það er ótrúlegt að vinna með einhverjum sem þú gjörsamlega dýrkar.

Ég held að Steven Gerrard muni á endanum vera talinn besti leikmaðurinn sem Liverpool hefur átt en fólk á mínum aldri finnst Kenny vera einhver sérstakur. Steven mun halda áfram og vinna fyrir okkur og ná frábærum árangri með Liverpool svo litið verður á hann sem besta nútíma leikmannin sem við höfum átt. Það fer eftir ykkar kynslóð hugsa ég, faðir minn sagði mér alltaf að Billy Liddell væri sá besti sem Liverpool hefði átt."

McParland þarf að fara að taka sig til fyrir jólagleðina og það virðist vera rétti tíminn til að slíta viðtalinu en það er ein spurning sem þurfti að fá svar við áður en þessu yrði slitið. Hvað hefur staðið mest upp úr enn sem komið er og hvað vonast hann eftir að áorka á árinu 2010?

"Hápunkturinn er að sjá framfarirnar hjá öllum þessum liðum. Við ættum að vera ræktunarsvæði fyrir aðalliðið, bæði leikmenn og þjálfarar. Ef við höfum það góðan þjálfara sem vinnur vel þá vona ég að hann verði kallaður á Melwood, það sama á við um sjúkraliða, búningamenn og svo framvegis.

Ef þú myndir segja mér að við myndum vinna Ungliðabikarinn næstu fimm árin í röð en ekki koma leikmanni í aðalliðið þá liti ég á það sem klúður. Alls ekki misskilja mig, leikirnir eru mjög mikilvægir. Þegar við höfum unnið með leikmönnum yfir tímabil og komið þeim inn í leikskipulagið þá verðum við komnir með leikmenn sem geta farið að komast í gegn. Ef sú er rauninn þá erum við auðvitað að fara að vinna fullt af leikjum.

Við verðum að finna þennan 'rétta' leikmann. Við verðum að framleiða hágæða leikmenn. Þetta snýst ekki um Ungliðabikarinn, ef við föllum úr leik í næstu umferð þá verð ég jafn vonsvikinn og allir hinir, en það er ekki efst á forgangslistanum okkar. Ef það eru liðin fimm ár og við höfum ekki enn komið einhverjum leikmanni upp í aðalliðið þá fer ég að missa svefn!" sagði McParland áður en hann hélt sína leið.

Á þessari leiktíð hafa nokkrir uppaldir leikmenn fengið sinn fyrsta þef af aðalliðinu, þar á meðal eru þeir Nathan Eccleston, Stephen Darby, Martin Kelly og Jay Spearing sem allir hafa staðið sig með miklum sóma og gætu jafnvel fengið enn fleiri tækifæri í komandi leikjum haldi þeir áfram á þessari braut. Einnig hafa nokkrir erlendir leikmenn sem komið hafa upp úr unglinga og varaliðinu tekið þátt á tímabilinu, þar ber helst að nefna Emiliano Insua, Dani Pacheco og Daniel Ayala.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan