| Grétar Magnússon

Tap á Stamford Bridge

Liverpool tapaði sínum öðrum leik í röð 2-0 nú gegn Chelsea á Stamford Bridge.  Leikur liðsins var þó betri en gegn Fiorentina í liðinni viku en leikmenn Chelsea nýttu færi sín betur í leiknum og því fór sem fór.  Þetta var í 25. skipti sem Rafael Benítez stjórnar liði sínu gegn Chelsea síðan kom til félagsins.

Rafael Benítez gerði tvær breytingar á liðinu sem mætti Fiorentina í Meistaradeildinni, inn komu þeir Javier Mascherano og Albert Riera á kostnað Fabio Aurelio og Yossi Benayoun.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og liðin virtust ekki ætla að gefa mótherjanum tækifæri á sér.  Það var ekki fyrr en á 19. mínútu leiksins sem eitthvað markvert gerðist en þá átti Albert Riera skot yfir mark heimamanna.  Sex mínútum síðar hljóp Nicolas Anelka upp hægri kantinn og sendi fyrir markið á Didier Drogba sem náði ekki nógu kraftmiklum skalla og Pepe Reina átti ekki í vandræðum með að verja.  Svipað atvik gerðist nokkru síðar en þá var það Anelka sem átti máttlausan skalla að marki eftir sendingu frá Michael Essien á vinstri kanti, aftur átti Reina ekki í miklum vandræðum með að verja.

Steven Gerrard átti svo skot yfir mark Chelsea úr aukaspyrnu stuttu síðar.  Michael Essien náði svo frákasti eftir eigið skot og skaut að marki öðru sinni en Reina varði og hélt boltanum vel.  Fyrsta skot Liverpoolmanna á mark kom þegar Dirk Kuyt sendi fyrir markið frá hægri og þar náði Fernando Torres að skalla boltann en því miður var skallinn ekki nógu góður og skoppaði boltinn í jörðinni áður en hann lenti í höndunum á Hilario, markverði Chelsea.

Undir lok fyrri hálfleiks fengu Liverpoolmenn svo aukaspyrnu nokkuð langt fyrir utan teig.  Albert Riera hikaði ekki við að reyna skot á mark, öllum að óvörum og þurfti Hilario að hafa nokkuð fyrir því að verja boltann í horn.  Úr hornspyrnunni gerði Martin Skrtel sig líklegan til að hoppa upp og reyna að skalla boltann.  Didier Drogba hélt honum niðri sem varð til þess að Skrtel féll við í teignum.  Dómari leiksins dæmdi ekkert en þarna hefði ekki verið hægt að segja mikið ef hann hefði dæmt vítaspyrnu.  Leikmenn héldu því til búningsherbergja í stöðunni 0-0.

Síðari hálfleikur hófst líkt og sá fyrri, frekar rólega.  Leikmenn gestanna áttu fyrsta færið þegar Dirk Kuyt komst inná teiginn hægra megin, hann sendi fyrir á Steven Gerrard sem átti skot en John Terry komst fyrir, boltinn barst áfram í átt að marki en þar bjargaði Ashley Cole naumlega.  Eftir fimmtán mínútur í gerði Javier Mascherano sig sekan um slæm mistök á miðjunni er hann missti boltann.  Leikmenn Chelsea brunuðu í skyndisókn og boltinn barst út til hægri á Didier Drogba sem sendi fyrir, þar var Nicolas Anelka mættur og hann setti boltann í markið framhjá Reina.  Heimamenn komnir með forystu sem var kannski ekki verðskulduð en í svona leikjum þarf að nýta þau færi sem gefast.

Leikmenn Liverpool gáfust ekki upp þrátt fyrir að vera undir og reyndu hvað þeir gátu til að skapa marktækifæri.  Næst komst Fernando Torres því að jafna metin er boltinn barst til hans í teignum, rétt vinstra megin við vítateigspunktinn.  Undir venjulegum kringumstæðum hefði Torres náð góðu skoti á markið þarna en því miður hitti hann boltann illa og skaut honum framhjá.  Þarna varð mörgum ljóst að þetta var ekki dagur Liverpool.

Í uppbótartíma náðu svo leikmenn Chelsea að bæta við öðru marki en það gerði Florent Malouda eftir sendingu frá Drogba en sá síðarnefndi komst framhjá Jamie Carragher vinstra megin í vítateignum.  Lánlaus dagur Liverpool var svo fullkomnaður stuttu síðar þegar Yossi Benayoun fékk boltann eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti, hann tók boltann laglega niður í teignum og var hann þar með kominn í mjög gott færi.  En Ísraelinn skaut rétt framhjá fjærstönginni og þar með var saga leiksins sögð.

Chelsea: Hilario, Cole, Carvalho, Terry, Ivanovic, Deco (Malouda 76. mín.), Essien, Lampard, Ballack, Anelka, Drogba. Ónotaðir varamenn:  Belletti, Cole, Kalou, Sturridge, Turnbull, Zhirkov.

Mörk Chelsea:  Nicolas Anelka (60. mín.) og Florent Malouda (90. mín.).

Gult spjald:  Michael Essien (44. mín.).
 
Liverpool: Reina, Insua (Aurelio 84. mín), Carragher, Skrtel, Johnson, Riera (Benayoun 67. mín.), Leiva (Babel 73. mín.), Mascherano, Kuyt, Gerrard, Torres. Ónotaðir varamenn:  Agger,  Cavalieri, Kyrgiakos, Ngog.

Gult spjald:  Steven Gerrard (77. mín.).

Áhorfendur á Stamford Bridge:  41.732.

Maður leiksins:  Martin Skrtel.  Slóvakinn stóð sig vel í vörninni og virtust hann og Jamie Carragher loksins vera farnir að ná að binda saman vörnina þegar varist er föstum leikatriðum mótherjanna.  Hann átti litla sök á mörkum Chelsea og með réttu móti hefði hann átt að fá vítaspyrnu dæmda á Drogba undir lok fyrri hálfleiksins en því miður varð það ekki raunin.

Rafael Benítez:  ,,Okkar markmið hafa lítið breyst fyrir næsta leik.  Ég hef verið spurður núna hvað ég hef að segja um þrjá tapleiki í deildinni á þessu tímabili en það er mikilvægt að halda ró sinni, halda áfram að leggja hart að sér og bæta sig.  Tímabilið er langt og við verðum að hugsa um næsta leik."

Fróðleikur...

Þetta var í 25. skiptið sem Rafael Benítez stjórnar Liverpool gegn Chelsea síðan hann kom til félagsins.

Síðan Benítez tók við hefur hann mætt fimm stjórum hjá Chelsea, Jose Mourinho, Avram Grant, Felipe Scolari, Guus Hiddink og nú Carlo Ancelotti.

Liverpool tapaði sínum þriðja deildarleik á tímabilinu.

Þetta var 50. deildarleikur Lucas Leiva fyrir félagið.

Þetta var 110. deildarleikur Dirk Kuyt og alls leikur númer 155. hjá Hollendingnum.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.tv.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan