| Heimir Eyvindarson

Rafa er bjartsýnn fyrir leikinn gegn Everton

Rafa Benítez er bjartsýnn fyrir leikinn við Everton á sunnudaginn. Hann segir að það þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af formi Steven Gerrard fyrir viðureignina við Everton.

Gerrard kom aftur til æfinga á Melwood í morgun, eftir að hafa þurft að mæta fyrir rétt vegna uppákomunnar í Southport á dögunum, og er tilbúinn í slaginn á sunnudaginn.

Á vikulegum blaðamannafundi sínum sagði Benítez að hann hefði fylgst náið með fyrirliðanum á æfingunni í dag.

,,Hann var í toppstandi. Skoraði 2-3 góð mörk í 5 manna boltanum og virkaði mjög einbeittur, það er mjög jákvætt fyrir okkur. Hann er greinilega í góðu lagi."

,,Hann hefur sýnt það á undanförnum vikum hve frábær íþróttamaður hann er á allan hátt og við ætlumst auðvitað til þess að hann haldi því áfram og verði í sínu besta formi á sunnudaginn, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið. Hann hefur fullan stuðning félagsins og hann veit að við stöndum við bakið á honum."

,,Við einbeitum okkur algjörlega að fótboltanum, en auðvitað getur alltaf eitthvað komið fyrir. Á endanum er eina ráðið að koma aftur hingað á Melwood, æfa vel og vera tilbúinn í leikina. Andrúmsloftið hér á æfingasvæðinu er mjög gott, svo mikið er víst."

Benítez gæti gert einhverjar breytingar á liðinu fyrir seinni viðureignina við Everton í þessari viku, en hann gerir sér þó fulla grein fyrir því að það er liðinu afskaplega mikilvægt að vinna sigur á hinum bláklæddu. Benítez er einnig mjög í mun að leikmennirnir geri sér grein fyrir mikilvægi FA-bikarkeppninnar.

,,FA-bikarkeppnin er mjög mikilvæg keppni, bæði fyrir okkur og aðdáendur okkar. Við eigum frábærar minningar frá keppninni 2006 og við viljum endurupplifa þær."

Benítez segir að það veiti honum ákveðið sjálfstraust að vita til þess að þrátt fyrir að Liverpool liðið hafi hreint ekki sýnt sínar bestu hliðar í grannaslagnum s.l. mánudagskvöld, þá hafi liðið einungis verið örfáum mínútum frá sigrinum.

Til að útskýra þetta betur segir Spánverjinn: ,,Ég er nokkuð sigurviss því við vorum í raun með unninn leik í höndunum, allt þar til rétt í lokin, þrátt fyrir að hafa alls ekki leikið nægilega vel. Ef við náum að bæta leik okkar, þó það væri ekki nema örlítið, þá er ég viss um að við förum með sigur af hólmi. Everton verða vitanlega erfiðir andstæðingar, en við höfum bæði getuna og sjálfstraustið sem þarf til að vinna leik sem þennan."

,,Fólk var að halda því á lofti að Everton hafi verið ósigrað í sjö leikjum í röð þegar liðið kom hingað á Anfield á mánudaginn, en gleymum því ekki að við vorum ósigraðir í 13 leikjum í röð á sama tíma!"

Þegar Benítez er spurður að því hvort hann hyggist láta til sín taka á leikmannamarkaðnum í þessum mánuði segir hann að það standi ekki til.

,,Það er ekkert í gangi hjá okkur í þeim efnum. Við höfum fengið nokkur símtöl varðandi unga leikmenn, sem fara hugsanlega eitthvað til láns, en ég mun ekki láta neinn aðalliðsmann af hendi. Ég þarf á þeim öllum að halda í titilbaráttunni. Ég mun heldur ekki kaupa neina leikmenn, ég hef fulla trú á hópnum sem ég hef í höndunum núna."

Í lokin er gaman að segja frá því að Daniel Agger er orðinn góður af kálfameiðslunum sem hann hefur glímt við að undanförnu og Benítez mun því geta valið úr öllum sínum bestu mönnum, ef frá er talinn Emilio Insua sem er á keppnisferðalagi með Argentínska landsliðinu.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan