HM og Liverpool

Markið ótrúlega

Sumarið 1994 var brotið blað í sögu úrslitakeppni HM. Þá var keppnin haldin í fyrsta skipti í landi þar sem knattspyrna var ekki vinsæl íþrótt á landsvísu. Þótti mörgum að töluverð áhætta væri tekin en þegar upp var staðið hafði bærilega til tekist. Knattspyrnan jók vinsældir sínar í USA og það var eitt af markmiðum þess að halda keppnina þar í landi.

Írar voru einu fulltrúar breskrar knattspyrnu í keppninni. Skotar voru ekki með í úrslitakeppni í fyrsta skipti frá 1974. Það var ef til vill engin furða því engin leikmaður Liverpool var lengur í landsliði Skota. Eini þáverandi leikmaður Liverpool í keppninni var Stig Inge Bjornebye. Í öllum þremur leikjum norskra dældi hann háum sendingum inn í vítateig mótherja Norðmanna á risann Jostein Flo. Ekki dugði það til að koma frændum vorum áfram úr riðlinum. Í riðlinum voru að auki Írar, Ítalir og Mexíkó. Öll liðin urðu jöfn að stigum með fjögur stig en markahlutfall Norðmanna var lakast. Írar komu mjög á óvart í fyrsta leik þegar þeir unnu Ítali 1:0 með glæsilegu bylmingsskoti frá Ray Houghton sem sannaði að hann var ekki búinn að gleyma öllu þótt hann væri kominn til Aston Villa frá Liverpool. Steve Staunton var líka leikmaður Villa á þessum tíma. Hann lék vel í leikjum Íra eins og Ray. John Aldridge var kominn heim til Liverpool frá Spáni og lék nú með Tranmere Rovers. Hann skoraði fallegt skallamark í 2:1 tapi gegn Mexíkó. Írar komust áfram í 16 liða úrslit eftir markalaust jafntefli gegn norskum. Þar töpuðu þeir 2:0 fyrir Hollandi. Tveir ungir leikmenn Íra vöktu mikla athygli í keppninni fyrir góða leiki. Þetta voru þeir Jason McAteer sem lék með Bolton og Phil Babb leikmaður Coventry. Um haustið urðu þeir báðir leikmann Liverpool.

Karl Heinz Riedle lék tvo leiki með heimsmeisturum Þjóðverja og skoraði eitt mark í 3:2 sigri á Suður Kóreu. Þýskum tókst ekki að verja titil sinn og féllu úr leik eftir 2:1 tap gegn Búlgaríu í 8 liða úrslitum. Átján ára varnarmaður Kamerún vakti athygli fyrir góða leiki og það að verða yngsti leikmaður til að fá rautt spjald í úrslitakeppni HM. Þetta var Rigobert Song sem leit rautt í 3:0 tapi gegn verðandi meisturum Brasilíu. Brasilíumenn með þá Romario og Bebeto illstöðvandi í sókninni voru án efa besta lið keppninnar og mættu Ítölum í úrslitum. Það voru sömu þjóðir og léku hin frábæra úrslitaleik 1970. Þá unnu Pele og félagar 4:1. En það var sama hvað Brassar reyndu þeim tókst ekki að snúa þrjóska Ítali niður og eftir markaleysi í framlengdum leik réði vítaspyrnukeppni úrslitum í fyrsta skipti í úrslitaleik HM. Þar unnu Brasilíumenn verðskuldað 3:2 og tryggðu sér sigur á HM í fjórða skipti sem er met.

Árið 1998 var keppnin haldin í Frakklandi í annað skipti. Þriðja úrslitakeppni HM var háð þar 1938. Englendingar og Skotar tryggðu sér sæti. Liverpool átti ekki fulltrúa í liði Skota og hefur ekki átt frá því Steve Nicol lék með liðinu. Skotum gekk heldur illa eins og venjulega og duttu út með eitt stig eftir riðlakeppnina. Eins fór fyrir Kamerún þar sem Rigobert Song fékk rautt spjald í annað skipti í úrslitum HM og setti þar emð met. Þeir Stig Inge Bjornebye og Oyvind Leonhardsen léku aðra úrslitakeppni sína í röð. Þeir voru með norska liðinu sem var í riðli með heimsmeisturum Brasílíu, Skotum og Marokkó. Allt leit út fyrir heimför norskra því eftir tvö jafntefli voru þeir 1:0 undir gegn Brasilíu í sínum síðasta leik í riðlakeppninni. Undir lokin skoruðu þeir þó tvö mörk, unnu frækinn sigur og komust áfram. Í 16 liða úrslitum töpuðu Norðmenn naumlega fyrir Ítalíu 1:0. Brad Friedel var í leikmannahópi USA. Þeir töpuðu öllum leikjum sínum í riðlakeppninni. Brad lék síðasta leikinn gegn Júgóslavíu og þótti standa sig vel þrátt fyrir 1:0 tap. Brad er eini markvörður Liverpool sem hefur leikið í úrslitakeppni HM.

Þá er komið að Englendingum. Þar á bæ snerist allt um Michael Owen. Undradrenginn sem hafði slegið í gegn á nýliðinni leiktíð. Hann hafði slegið öll met í sjónmáli hvað aldur og markaskorun varðaði hjá Liverpool og enska landsliðinu. Hann varð yngsti leikmaður til að leika með og skora fyrir Liverpool vorið 1997. Um haustið varð hann yngsti markaskorari liðsins í Deildarbikar og Evrópukeppni. Að auki varð hann yngsti leikmaður til að skora þrennu fyrir félagið á haustdögum. Þetta allt afrekaði hann 17 ára. Þegar upp var staðið deildi hann markakóngstitli í Úrvalsdeildinni, sá yngsti sem það afrekar, og í öllum keppnum hafði hann skorað 23 mörk. Val hans sem efnilegasti leikmaður ársins bættist við metorðalistann. Í febrúar 1998 varð Michael sem var nýorðinn átján ára yngsti leikmaður til að leika landsleik með enska landsliðinu á öldinni þegar enskir töpuðu 0:2 á Wembley fyrir Chile. Í lok maí varð hann yngsti markaskorari enska landsliðsins þegar hann skoraði eina markið í sigurleik gegn Marokkó. Að sjálfsögðu valdi Glenn Hoddle strákinn í landsliðshópinn sem fór til Frakklands. Með honum í hópnum voru félagar hans frá Liverpool Paul Ince og Steve McManaman. Þeir Robbie Fowler og Jamie Redknapp misstu af vali vegna meiðsla.

Enskir unnu Túnis 2:0 í fyrsta leik sínum þar sem Michael kom inná sem varamaður. Þar féll met því hann varð yngsti leikmaður Englendinga í úrslitakeppni HM og í næsta leik setti hann met sem yngsti markaskorari Englands í sömu keppni. Englendingar áttu í höggi við Rúmeníu og voru 1:0 undir þegar Michael kom inná sem varamaður. Stuttu síðar jafnaði hann með góðu marki úr teignum og litlu síðar átti hann skot í stöng. En Rúmenar höfðu betur með marki á lokamínútu leiksins. Englendingar urðu að leggja Kólumbíu til að komast áfram og nú var strákurinn settur í byrjunarliðið. Englendingar unnu 2:0 og aftur var Michael sprækur. Steve McManaman kom inn sem varamaður í sínum eina leik í keppninni.

Í 16 liða úrslitum voru Argentínumenn mótherjar og gafst nú tækifæri á að hefna fyrir "Hönd Guðs" frá úrslitakeppninni í Mexókó 1986. Michael var í byrjunarliðinu svo og Paul Ince sem var fastur maður í liði Englendinga í keppninni. Hann barðist að venju eins og brjálæðingur á miðjunni. Leikurinn reyndist einn sá besti í keppninni. Argentínumenn komust yfir snemma leiks en þá tók Michael við. Varnarmenn Argentínu réðu ekkert við hann og strákur fiskaði víti sem Alan Shearer jafnaði úr. Svo kom "Markið". Michael fékk boltann við miðju lék upp af ótrúlegum hraða framhjá varnarmönnum og smellti boltanum upp í bláhornið frá vítateig. Heimurinn stóð á öndinni og Michael Owen varð á því augnabliki heimsfrægur. Ekkert yrði framar eins í lífi hans. Sumir segja að þetta ótrúlega mark eigi eftir að reynast honum fjötur um fót og vitna til undramarks John Barnes með landsliðinu gegn Brasilíu 1984 þegar hann var enn tiltölulega óþekktur. Eftir markið var ætíð vitnað til marksins og væntingar byggðar upp í kringum það. Argentínumenn jöfnuðu.  David Beckham lét reka sig út af og leikurinn fór í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Michael var ekki búinn að segja sitt síðasta orð og skoraði af miklu öryggi upp í vinkilinn úr sinni spyrnu. En í þriðja sinn á stórmóti töpuðu Englendingar í vítaspyrnukeppni og féllu úr keppni. Fyrst fyrir Þjóðverjum á HM á Ítalíu og aftur fyrir sömu þjóð í undanúrslitum EM á Englandi 1996.

Heimamenn unnu á eftir því sem leið á keppnina og stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar eftir öruggan 3:0 sigur á Brasilíu í París. Þjóðhátíð var slegið upp í Frakklandi og Frakkar gengu af göflunum. Eftir keppnina fékk Gerard nokkur Houllier mikið lof frá aðalþjálfara Frakka fyrir góð störf á bak við tjöldin hjá landsliðinu. Síðar um sumarið var Gerard mættur á Anfield Road þar sem hann var skipaður meðstjórnandi Liverpool ásamt Roy Evans.

TIL BAKA