Liverpool-Valencia 7. - 9. ágúst 2003

Það er fimmtudagur, sjöundi ágúst, og við, þrír stjórnarmenn úr klúbbnum erum staddir í Akademíu Liverpool FC í Kirby, sem er um hálftíma akstur frá Liverpool, þar sem ungir og upprennandi strákar fá almennilega kennslu í knattspyrnunni. Við erum þó ekki hingað komnir til að kíkja á þá heldur til að fylgjast með æfingu hjá Liverpool, sem sett hefur verið upp fyrir fjölmiðla. Þarna eru semsagt allir helstu fjölmiðlar Bretlands mættir til að taka myndir af æfingu og síðan að taka viðtöl á eftir. Einn og einn læðist svo inn á milli til að fá eiginhandaráritanir.

Hópurinn kemur inn á æfingagrasið og einn sem er með myndavél á lofti biður Owen um að brosa fyrir sig meðan hann smellir af honum mynd. Owen gaf sér þó lítinn tíma til að gera annað en að glotta út í annað, enda æfing að nálgast.

Öllum hópnum var skipt niður í tvo hópa og var byrjað á léttu skokki sitt í hvora áttina. Þegar skokkaður höfðu verið tveir hringir í kringum völlinn tók Sammy Lee við stjórninni á æfingunni og skipti hvorum hóp í tvo hópa. Hóparnir fjórir æfðu sig svo sín á milli í að rekja boltann. Hópurinn sem við sáum best (þar sem hann var næst okkur) var skipaður Pongolle, Cheyrou, Owen, Gerrard og Carragher og komst maður ekki hjá því að veita því athygli hversu vel Carragher gekk á þessari æfingu. Honum gekk misvel eins og reyndar fleirum í hópnum en þó kom í ljós að Cheyrou hafði yfir prýðilegri tækni að ráða.

Skemmtilegt var að fylgjast með Sammy Lee meðan á þessari æfingu stóð en hann var óspar á að segja þeim hvað var slæmt, hvað gott og hvernig átti að gera hlutina betur. Þessi maður er hreinlega ofvirkur…en það er heldur varla annað hægt en að hafa góðan móral í kringum hann. Eftir knattrakið var farið í viðstöðulausar sendingar, þ.e. menn æfðu sig í að senda boltann frá sér um leið og hann kom á lofti. Það kom strax upp í hugann á undirrituðum ósk um að hún myndi stundum virka jafnvel í sumu leikjanna og hún gerði á þessari æfingu…en trúlega voru menn ekki pressaðir jafn stíft þarna og í leikjunum. Carragher var sem fyrr með tilþrif æfingarinnar þegar honum tókst að bjarga vonlausri sendingu með því að skalla með hnakkanum aftur inn í hringinn.

Að loknum þessum æfingum var spilaður leikur mili hópanna tveggja, reyndar án markmanns og var hópnum skipt í gult og bláa lið. Í gula liðinu voru Carragher, Babbel, Hyypia, Riise, Cheyrou, Biscan, Gerrard, Le-Tallec, Kewell, Pongolle og Owen. Í því bláa voru Finnan, Vignal, Henchoz, Traore, Diouf, Diao, Smicer, Murphy, Le-Tallec, Baros. Þarna var m.a. verið að þjálfa menn í rangstöðunni, þ.e. sóknarmennirnir áttu að forðast hana, og Sammy Lee var óspar að benda mönnum á ef þeir væru rangstæðir. Heskey skoraði fljótlega tvö mörk fyrir bláa liðið og hélt áfram því formi sem hann hafði verið í á undirbúningstímabilinu. Pongolle minnkaði muninn en Heskey skoraði fljótlega sitt þriðja mark og var gjörsamlega óviðráðanlegur í leiknum. Þetta virtist því gott veganesti fyrir leiktíðina framundan.

Þegar þessum leik var lokið skiptu menn sér eftir stöðunum og æfðu það sem menn þurfa helst að æfa í sínum stöðum. Sóknarmenn tóku skot á tvo af markvörðunum, varnarmennirnir æfðu sig í að skalla háa bolta frá undir stjórn Phil Thompson og miðjumennirnir voru í sendingaræfingum undir vaskri stjórn Sammy Lee. Það vakti sérstaka athygli undirritaðs að Harry Kewell æfði með sóknarmönnunum þegar skipt var í stöður…hvað sem nú vakti fyrir mönnum með því.

Það var aftur komið að því að spila fótbolta, en nú var hópnum skipt í þrjú lið sem í voru sjö útileikmenn og einn markvörður. Í bláa liðinu voru Carragher, Hyypia, Biscan, Kewell, Murphy, Baros og Cheyrou. Í því græna voru Vignal, Babbel, Smicer, Henchoz, Gerrard, Le-Tallec og Owen. Í því gula voru svo Traore, Diouf, Riise, Finnan, Diao, Pongolle og Heskey. Í fyrsta leiknum milli bláa og græna liðsins var Neil Mellor einnig inná en skipti um lið eftir hentugleika. Sá leikur endaði með 2-0 sigri bláa liðsins. Græna liðið vann svo það gula 2-1 en gula liðið vann svo það bláa 2-0 og þar með lauk þessari æfingu.

Öll þessi æfing tók um tvo tíma og var skemmtileg upplifun til að sjá það sem fer fram bak við tjöldinn. Gerard Houllier var aðallega í því að tala við menn á milli parta á æfingunni, ráðleggja og leiðbeina. Phil Thompson var með honum í því og stjórnaði svo sérþjálfun varnarmanna, Sammy Lee var nánast út um allt alla æfinguna og Joe Corrigan tók markverðina í sérþjálfun. Sjúkraþjálfararnir fylgdust svo með en voru reyndar ekki alveg aðgerðarlausir. Fyrst missteig Gerrard sig og kveinkaði sér í smástund en hélt áfram og þetta reyndist ekki alvarlegt. Bruno Cheyrou meiddist hins vegar í baki á æfingunni og kostuðu þessi meiðsli hann m.a. leikinn gegn Valencia, sem fór fram tveimur dögum síðar.

Æfingin skapar meistarann. Nú er spurning hvort það eigi við um þessar og fleiri æfingar.

Á föstudeginum 8. ágúst var haldinn svokallaður “Fan’s Day” á Anfield. Aðalatriði á þessum degi er æfing sem liðið heldur sem stuðningsmenn geta fylgst með og fá jafnvel skýringar frá Phil Thompson um hvað sé verið að gera. Auk þess er stuðningsmönnum gefinn kostur á að taka þátt í deginum og á þessum degi var það gert með því að leyfa þeim að taka vítaspyrnur á markverði Liverpool, og gerðu það reyndar í liði með leikmönnum.

En þessi dagur byrjaði á því að spilaður var leikur milli gamalla jaxla úr Liverpool og frægra stuðningsmanna en þeirra lið var valið af útvarpsstöðinni Radio City. Í liði gömlu jaxlanna voru meðal annars Ronnie Whelan, Phil Neal og Brian Hall. Staðan var 0-0 í hálfleik en í seinni hálfleik tóku gömlu jaxlarnir öll völd. Phil Neal og Brian Hall komu þeim í 2-0 áður en andstæðingar þeirra minnkuðu muninn en leikurinn endaði með 2-1 sigri þeirra.

Að þessu loknu kom liðið á völlinn og var ákaft fagnað af stuðningsmönnunum enda hver og einn leikmaður kynntur með tilþrifum. Síðan hófst æfingin sem var að mörgu leyti öðruvísi en sú æfing sem við sáum í Akademíunni. Phil Thompson útskýrði svo jafnóðum hvað var að fara fram. Meðal annars fóru menn í skallabolta þar sem menn urðu að skalla á milli til að skora. Thompson útskýrði að þessi æfing hefði bætt skallatækni töluvert í hópnum. Þetta var skemmtilegt á að horfa og m.a. gaman að sjá þegar menn reyndu að bjarga marki, en það mátti aðeins gera með höfði og búk, ekki fótum. John Arne Riise sýndi sérstök tilþrif í þessum efnum.

Að lokinni æfingunni fór fram vítaspyrnukeppni sem stuðningsmenn sem dregnir höfu verið út tóku þátt í og skiptist hópurinn jafnt milli fullorðinna og barnanna ásamt því að leikmenn tóku þátt í spyrnunum. Sumir af yngstu kynslóðinni gáfu leikmönnunum ekkert eftir og tveir af ungu drengjunum tóku meðal annars mjög örugg víti í markhornið. Hvað leikmennina varðar skoruðu El-Hadji Diouf, John Arne Riise, Michael Owen, Jamie Carragher, Steve Finnan, Steven Gerrard, Harry Kewell og Florent Sinama-Pongolle en Danny Murphy skaut hátt yfir úr sínu víti. Eftir þessa vítakeppni fengu allir liðsmenn liðanna verðlaunapening, bæði stuðningsmenn og leikmenn, og vakti það sérstaka athygli þegar Jerzy Dudek hljóp afturfyrir markið að Kop og lét ungan dreng sem stóð við auglýsingaskiltið hafa verðlaunapeninginn sinn. Frábærlega gert hjá honum.

Stemingin var skemmtileg hjá áhorfendum og nokkrir nýttu sér þetta tilefni til sérstakra hluta. Meðal annars fór boltinn einu sinni í stúkuna á æfingunni og lítill strákur náði honum. Hann tryggði það síðan að boltinn færi ekki aftur inn á völlinn fyrr en búið væri að taka mynd af honum með boltann! Að öðru leyti var þessi dagur fullur af skemmtilegum uppákomum enda er þetta fyrst og fremst gert til þess að efla tengsl leikmanna og stuðningsmanna. Óhætt er að segja að þetta sé góð leið til þess.

Það var gríðarlega heitt í Liverpool þennan laugardag, 9. ágúst, þegar Liverpool og Valencia áttust við. Manni leið eins og í sólarlöndum og svona var þetta víst búið að vera meira og minna allt sumarið.

Eins og vanalega var farið á Park fyrir leikinn og þó að stemningin hafi verið ágæt þar og allt troðið var hún einhvern vegin ekki eins og hún er vanalega í alvöru leikjum. Hitinn hefur sennilega haft þau áhrif að hann dró einhvern kraft úr mönnum. Það var líka óvenjulegt að sjá Pete Sampara einungis í Liverpool-búning en ekki sínum fulla skrúða, en skýringin á því var sú að hann er aldrei í nælujakkanum sínum á undirbúningstímabili.

Við löbbuðum inn hálftíma fyrir leik og vorum á vægast sagt góðum stað - á þriðja bekk í Centenary Stand, nánast ofan í leikmönnum. Við voru fegin því að sólin hafði ekki fært sig framyfir stúkuna þannig að hún skein ekki á okkur, en sú sæla varði aðeins fram á 30. mínútu og þá var hitinn orðinn óbærilegur. Það var ekki alveg uppselt á leikinn en þó voru rúmlega 40 þúsund manns á vellinum. Kop-stúkan byrjaði strax að syngja söngva um leikmenn Liverpool og mikið stuð var á þeim allan leikinn.

En að leiknum. Byrjunarliðið var þannig að Owen og Heskey voru saman í framlínunni, Kewell, Murphy, Biscan og Gerrard voru á miðjunni, Carragher, Henchoz, Hyypia og Riise í vörninni og Dudek í markinu. Athygli vakti að dómari leiksins, Mike Riley, fékk ekki góðar viðtökur hjá áhangendum Liverpool og það var nokkuð ljóst að vinsældir hans hafa ekki aukist eftir þennan leik. Kewell byrjaði leikinn hægra megin en hann og Murphy áttu reyndar eftir að skipta nokkuð um kanta í leiknum. Leikurinn byrjaði ágætlega hjá Liverpool og á 4. mínútu var Heskey hársbreidd frá því að komast í boltann eftir að Carragher hafði unnið tæklingu en markvörður Valencia, sem átti stórleik í þessum leik, náði boltanum á undan Heskey. Heskey komst svo skömmu síðar í frábært færi einn á móti markverði eftir stungusendingu frá Murphy en skot hans fór rétt framhjá. Eftir þetta fór sóknarþungi Valencia að aukast og það endaði síðan með því að RodriguezVincente skoraði frábært mark með skoti frá vítateigshorninu hægra megin en markið kom eftir hornspyrnu Valencia-manna. Nú grét maður færið góða hjá Heskey!

Liverpool lagði hins vegar ekki árar í bát heldur reyndi að sækja og oft komu úr því fallegar sóknir. Meðal annars fékk Michael Owen svipað færi og Heskey rétt áður en gerði nákvæmlega það sama, skaut rétt framhjá. Stungusendingarnar virtust vera ágætt tæki til að splundra vörn Valencia, sem var mjög flöt og rangstöðutaktíkin átti það til að bregðast hjá þeim. Þetta skapaði oft hættu upp við mark Valencia en því miður tókst ekki að nýta það. Heskey fékk annað dauðafæri þegar um tíu mínútur voru til leikhlés þegar hann skallaði aukaspyrnu Danny Murphy í stöngina, náði svo frákastinu en skallaði yfir. Skömmu síðar átti svo Valencia stangarskot þannig að töluvert líf var í leiknum á þessum kafla. Miðjumenn Liverpool voru á þessum tímapunkti farnir að gera sig seka um að tapa boltanum á vondum stöðum og stundum gat Valencia nýtt sér það. Owen komst í gott færi rétt fyrir leikhlé en mistókst að vippa yfir markvörðinn og fyrir vikið var staðan 1-0 í hálfleik. Þessi fyrri hálfleikur var í heild nokkuð kaflaskiptur, góðir sprettir og ágætt spil á köflum en svo datt það aðeins niður þegar á hálfleikinn leið. En stóri munurinn var auðvitað að Valencia nýtti færin betur.

Liverpool gerði tvær breytingar á liðinu í leikhléi; Sami Hyypia og Jamie Carragher fóru af leikvelli og í staðinn komi Steve Finnan og Djimi Traore. Liverpool hélt áfram að fá færi en nú var markvörður Valencia dottinn í stuð. Fyrst varði hann aukaspyrnu frá Danny Murphy naumlega í horn og síðan varði hann skalla frá Emile Heskey sem stefndi í hornið niðri. Sóknarþunginn var þó nokkur hjá Liverpool en það vantaði oft að klára sóknirnar almennilega. Maður hafði það á tilfinningunni að Liverpool myndi skora fljótlega en því miður varð ekkert úr því. Eftir rúman stundarfjórðung í seinni hálfleik kom Gregory Vignal inná fyrir John Arne Riise og Steven Gerrard, sem var arfaslakur í leiknum fór af velli í staðinn fyrir El-Hadji Diouf. Diouf kom gríðarlega sterkur inn í þennan leik og sýndi merki þess að hann gæti gert fína hluti með Liverpool í vetur. Hann lagði fljótlega eftir að hann kom inná upp gott færi fyrir Harry Kewell en enn var markvörður Valencia á réttum stað. Upp úr þessu kom svo seinna mark Valencia þegar liðið komst í skyndisókn, Henchoz hrasaði og auðveldaði þannig för Valenciamanna í gegnum vörnina, Dudek varði skot frá einum leikmanni Valencia en Muno fylgdi á eftir og skoraði.

Þetta gerðist eftir rúmar 20 mínútur og gerði stöðuna frekar vonlausa í þessum leik. Þetta mark hafði þar að auki komið þvert á gang leiksins. Houllier hélt hins vegar áfram að gera breytingar og sendi Le-Tallec inná í staðinn fyrir Murphy og seinna Baros, Pongolle og Diao fyrir Owen, Heskey og Biscan. Pongolle og Baros hleyptu miklu lífi í leikinn og mikið var baulað á Mike Riley þegar hann sleppti augljósri vítaspyrnu þegar Pongolle var felldur inni í teignum. Enda fékk Riley góða kveðju frá The Kop: “The refferee is a wanker!” Markvörður Valencia hélt einnig áfram að vera okkur erfiður og undir lok leiksins varði hann fyrst frá Pongolle úr góðu færi og síðan á óskiljanlegan hátt glæsilega hjólhestaspyrnu frá Le-Tallec. Skömmu eftir þetta var svo flautað til leiksloka.
Aðaláhyggjuefni undirritaðs eftir þennan leik var hvað illa var farið með færin og hvað Steven Gerrard og Danny Murphy voru slakir í leiknum. Það var hins vegar gaman að sjá oft spilið í liðinu, það var gott og það gekk vel að skapa færi. það gekk hins vegar ömurlega að nýta þau og það þýði lítið að skapa færi ef þau eru ekki nýtt.

Hallgrímur Indriðason

TIL BAKA