| Sf. Gutt

Af spjöldum sögunnar!

Í dag eru 30 ár liðin frá því áhorfendur stóðu í síðasta skipti, á áhorfendastæðunum á The Kop, og horfðu á Liverpool leika. Mikil hátíð var haldin á Anfield Road bæði fyrir, á meðan á leiknum stóð og eftir hann. Áhorfendur voru einfaldlega stórkostlegir á þessum sólbjarta vordegi. Alls voru 44.339 á leiknum þar af líklega um 16.000 á The Kop. En leikmenn Liverpool stóðu sig ekki jafn vel og áhorfendurnir. Liðið tapaði 0:1 fyrir Norwich City. Sigurmarkið skoraði Veilsverjinn Jeremy Goss með glæsilegu þrumuskoti utan vítateigs og varð hann síðastur manna til að skora fyrir framan standandi áhorfendur á The Kop.

Lið Liverpool var svona skipað í þessum sögulega leik: David James, Rob Jones, Julian Dicks, Ronnie Whelan, Steve Nicol, Neil Ruddock, Jamie Redknapp, John Barnes, Ian Rush, Nigel Clough (Don Hutchison) og Robbie Fowler. Ónotaðir varamenn: Bruce Grobbelaar og Steve Harkness. Upplýsingar um liðsuppstillingu og áhorfendafjölda eru fengnar af LFChistory.net.

Daginn eftir leikinn voru haldnir miklir tónleikar þar sem margar af frægustu hljómsveitum í Liverpool komu fram. Nokkrum dögum síðar var ráðist í það að rífa þessi gömlu og margfrægu áhorfendastæði til grunna. Ný stúka reis af grunni um sumarið. Hún tekur 12.390 áhorfendur í sæti.

The Kop á sér langa og merkilega sögu. Bygging stúkunnar hófst þann 22. júní árið 1901. Til að byrja með voru stæðin aðeins hæð mynduð úr mold og sandi og áhorfendur stóðu á viðarplönkum. Áhorfendastæðin voru tekin í notkun haustið 1906. Þá um vorið hafði Liverpool unnið sinn annan meistaratitil. Upphaflega hétu stæðin The Spion Kop en nú eru stæðin þekkt um allan heim sem The Kop. Nafnið þýðir í raun lítil hæð og í Natal héraði í Suður Afríku er að finna hæð með þessu nafni. Þann 24. janúar árið 1900 fór fram hörð orrusta á þessari hæð í Búastríðinu. Fjölmargir hermenn frá Liverpool og nærsveitum féllu í þessari orrahríð. Stæðin voru skírð til heiðurs þeim sem þar féllu. Heiðurinn af nafngiftinni átti Ernest Edwards íþróttaritstjóri stðarblaðsins Liverpool Echo. Sumarið 1928 voru áhorfendastæðin á The Kop steypt og gríðarmikið þak reist yfir stæðin. Hljómburðurinn var engu líkur og tólfti leikmaður Liverpool bættist í hópinn. Talið var að á þeim tíma hafi stæðin rúmað 28.000 áhorfendur og Anfield Road í heild um 70.000.

Bill Shankly tókst meistaralega að virkja stuðningsmenn Liverpool á The Kop og sagði þá gefa Liverpool eitt mark í forgjöf áður en flautað var til leiks. Á milli 1960 og 1970 urðu þessi áhorfendastæði heimsþekkt fyrir mikinn söng og mikla hugmyndaauðgi í lagavali. Til að mynda var söngur áhorfenda á The Kop hljóðritaður og gefinn út á plötu. Ekki fyrir löngu var þessi plata sett á geisladisk og hægt mun að grafa hann upp í betri tónlistarverslunum á Englandi. Bítlalögin voru vinsæl en eitt lag festi þó öðru fremur rætur og það var You´ll Never Walk Alone sem varð þjóðsöngur Liverpool.

Þrátt fyrir að vera nú um daga aðeins skipuð áhorfendum í sæti er stemningin engu lík á The Kop og þar eiga enn hörðustu stuðningsmenn félagsins sinn vísa stað. Staðreyndin er sú að The Kop er eitt af því sem gerir Liverpool að því sem félagið er. Einstakt félag á einstökum leikvangi. Á vef okkar, liverpool.is, má finna frekari umfjöllun um þessi merku áhorfendastæði. The Kop lengi lifi!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan