Stórgóð byrjun!
Liverpool byrjaði stórvel í sínum fyrsta leik í deildinni. Liðið mætti nýliðum Ipswich Town og vann 0:2 á Portman Road. Ekki hægt að biðja um neitt meira í fyrsta leik.
Það kom ekki mikið á óvart í uppstillingu Liverpool. Helst að Jarell Quansah skyldi vera í byrjunarliðinu. Miðvörðurinn ungi lék mjög vel á síðasta keppnistímabili þannig að val hans þurfti ekki að koma á óvart.
Það var rafmagnað andrúmsloft fyrir og í byrjun leiks enda stór dagur í sögu Ipswich Town að vera komið í efstu deild eftir langt hlé. Það var því ekki að undra að leikmenn nýliðanna skyldu leika af miklum krafti þegar leikurinn hófst. Leikmenn Liverpool héldu ró sinni en lentu af og til í vandræðum. Á 20. mínútu átti Jacob Greaves skalla eftir fyrirgjöf sem Alisson Becker varði af öryggi. Aftur 12 mínútum seinna ógnuðu heimamenn. Omari Hutchinson komst fram í hraðri sókn en skot hans við vítateiginn var hættulaust og Alisson varði. Markalaust í leikhléi.
Ein breyting var gerð á liði Liverpool í hálfleik. Jarell Quansah var tekinn af velli og Ibrahima Konaté kom inn í hans stað. Arne var greinilega ekki alveg ánægður með miðvörðinn unga í leikhléi. Heimamenn voru ekki alveg eins sprækir eftir hlé og það fór að draga af mönnum. Liverpool náði æ betri tökum á leiknum og eftir klukkutíma komst Rauði herinn yfir.
Trent Alexander-Arnold lék fram völlinn og sendi fram til hægri á Mohamed Salah. Hann sendi þvert fyrir markið á Diogo Jota og hann smellti boltanum í markið við vítapunktinn. Fimm mínútum síðar fékk Mohamed langa sendingu fram til hægri. Hann tók glæsilega við boltanum og gaf til vinstri á Dominik Szoboszlai. Ungverjinn ætlaði að gefa á Mohamed en varnarmaður komst í boltann. Hann náði ekki að hreinsa og af honum hrökk boltinn til Mohamed sem þakkaði fyrir sig með þvi að skora af öryggi utan við markteigshornið. Enn og aftur skoraði Mohamed á fyrsta degi. Hann er engum líkur!
Eftir þetta var sigur Liverpool aldrei í hættu. Undir lokin átti Mohamed bylmingsskot úr teignum sem Christian Walton varði. Sókn Liverpool hélt áfram og Christian varði vel vel frá varamanninum Conor Bradley. Áfram hélt sóknin og Conor fékk boltann í markteignum en aftur var varið frá honum. Góður sigur í höfn!
Liverpool spilaði ekki vel í fyrri hálfleik og öflugir heimamenn gerðu þeim erfitt fyrir. En í síðari hálfleik tók Liverpool öll völd og sigurinn þýddi stórgóða byrjun í fyrsta leik Arne Slot!
Ipswich Town: Walton, Davis, Greaves, Woolfenden, Tuanzebe (Szmodics 74. mín.), Luongo (Taylor 65. mín.), S. Morsy, Hutchinson, Chaplin (Harness 65. mín.), Burns (Johnson 57. mín.) og Delap (Al Hamadi 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Burgess, Phillips, Slicker og Townsend.
Gul spjöld: Luke Woolfenden, Omari Hutchinson og Wes Burns.
Liverpool: Becker, Robertson (Tsimikas 79. mín.), van Dijk, Quansah (Konaté 46. mín.), Alexander-Arnold (Bradley 77. mín.), Mac Allister, Gravenberch, Díaz, Szoboszlai, Salah og Jota (Gakpo 79. mín.). Ónotaðir varamenn: Kelleher, Elliott, Endo, Jones, og Núnez.
Mörk Liverpool: Diogo Jota (60. mín.) og Mohamed Salah (65. mín.).
Gult spjald: Cody Gakpo.
Áhorfendur á Portman Road: 30.014.
Maður leiksins: Mohamed Salah. Enn og aftur skoraði Egyptinn í fyrstu umferð. Fyrir utan að skora lagði hann upp fyrra markið í leiknum.
Arne Slot: ,,Ég fékk stórgott lið og hæfileikaríka leikmenn í arf en leikmennirnir spiluðu ekki nógu vel í fyrri hálfleik. Þeir voru tilbúnir í slaginn eftir hlé. Þá náðum við að opna leikinn og þið sáuð að við getum spilað býsna góða knattspyrnu."
Fróðleikur
- Hollendingurinn Arne Slot stýrði Liverpool í fyrsta skipti í opinberum leik.
- Diogo Jota opnaði markareikning Liverpool á þessu nýja keppnistímabili.
- Mohamed Salah skoraði enn einu sinni í fyrstu umferð. Hann hefur á öllum átta leiktíðum sínum með Liverpool, nema einni, skorað í fyrstu umferð.
- Enginn hefur skorað oftar í fyrstu umferð eftir að Úrvalsdeildin hófst. Alls hefur Mohamed skorað níu mörk í opnunarleikjum Liverpool í deildinni.
- Liverpool og Ipswich mættust síðast í deildinni á leiktíðinni 2001/02.
- Nýr framkvæmdastjóri Liverpool hefur ekki stýrt liðinu til sigurs í fyrsta deildarleik frá því Graeme Souness gerði það árið 1991.
-
| Sf. Gutt
Allt jákvætt! -
| Sf. Gutt
Skammarlegt tap! -
| Sf. Gutt
Mikil tilhlökkun í Plymouth -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Liverpool og Newcastle United mætast í úrslitum! -
| Sf. Gutt
Í úrslit annað árið í röð! -
| Sf. Gutt
Spáð í spilin -
| Sf. Gutt
Trent meiddur -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Newcastle -
| Sf. Gutt
Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld!